Trúlofun slitið í tölvupósti

Líklega upplifa flestir, ef ekki allir, einhvern tíma í lífinu, að verða ástfangnir af einhverjum. Að sama skapi verða allir að þola það einhvern tíma að einhver endurgjaldi ekki tilfinningar þeirra. Nú og svo er það andstæðan, að einhver verði ástfanginn af þér og þú verðir að hafna viðkomandi. Allt eru þetta erfiðar aðstæður og oft getur verið ansi snúið að sýna ábyrgð og virðingu. Þegar svona stendur á skiptir engu hvort menn eru átján eða áttræðir. Í dag virðist hins vegar mjög breytt viðhorf til þess hvað er ásættanlegt þegar kemur að því að slíta sambandi og algengt að fólki segi upp unnustanum eða unnustunni í tölvupósti eða einfaldlega hætti að tala við viðkomandi, blokkeri hann á samfélagsmiðlum. Það er kallað að „ghosta“. Varla er hægt að segja að í þessu felist virðing eða kurteisi.

Kannski skortir á einhvern hátt á fræðslu eða samtal um ást og völd í samfélagi okkar. Hugsanlega erum við ekki nægilega meðvituð um að ekki á að leika sér með tilfinningar annarra, ólíkt formæðrum okkar og forfeðrum sem fóru varlega í sakirnar í máefnum hjartans.  Líklega finnst allflestum að skilningur á siðleysi þess að notfæra sér ást annarrar manneskju sé innbyggður. Þitt eigið tilfinningalíf opni þér skilning en svo er ekki.

Kynslóðin sem nú er hætt að vinna eða nálgast eftirlaunaaldur bjó við þá kröfu að menn segðu upp kærasta eða kærustu augliti til auglitis. Oft var erfitt að manna sig upp í slíkt en menn gerðu það. Ef einhver var svo ósmekklegur að láta sig bara hverfa mætti honum hneykslun samfélagsins sem þótti ekki mikið til framkomu hans koma.

Krafan um ábyrgð og virðingu

Ef farið er aftur til næstu tveggja kynslóða þar á undan er krafan jafnvel enn ríkari. Til að mynda var ekki ætlast til að menn og konur gæfu hvort öðru undir fótinn nema einhver meining væri að baki. Og líkt og Raggi Bjarna söng: Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig ef þú meinar ekki neitt með því, var ætlast til að menn færu varlega í að gefa sig um of að einhverjum og vekja með honum vonir og tilfinningar. Ef fólk gaf síðan einhver heit var eins gott að standa við þau. Almennt þótti ekki góð latína að slíta trúlofun en væri það gert urðu að liggja gildar ástæður þar að baki. Á nítjándu öld var hægt að kæra menn fyrir heitrof og um það er þekkt dæmi úr Íslandssögunni.

Frægasta fyrrverandi kærasta Íslandssögunnar er svo án efa Appolonia Schwartzkopf. Hún var norsk mektarkona sem elti Niels Fuhrman til Íslands eftir að hafa kært hann fyrir heitrof og fengið hann dæmdan til að standa við heit sín. Hann var skipaður amtmaður á Bessastöðum en var orðinn afhuga Appoloniu en danskar mæðgur, Katrín og Karen Holm þjónuðu Niels á Bessastöðum og Katrín vildi að hann giftist dóttur sinni. Niels virðist hafa verið hálfgerður vingull því hann eiginlega forðaðist að taka afgerandi ákvörðun og hvorki sendi Appoloniu á brott né heldur giftist Karen.

Appolonia veiktist svo illa og dó. Hún sagði sjálf fólki að þær mæðgur hefðu eitrað fyrir sér og sú saga er lífseig enn þótt þessir atburðir hafi gerst í byrjun átjándu aldar eru þeir enn rifjaðir upp reglulega. Appolonia lést árið 1724 en enn er hún mörgum Íslendingum hugleikinn. Guðmundur Daníelsson skrifaði um hana bókina Hrafnhetta og Þórunn Sigurðardóttir leikritið Haustbrúður. Sagt er að hún gangi aftur og enn verði skyggnt fólk hennar vart á Bessastöðum en engum sögum fer af því hvort einhverjir forseta lýðveldisins hafi mætt henni.

Í skáldsögum Jane Austen er þetta viðhorf til ástarinnar velþekkt og viðurkennt. Þar er gengið út frá því að að alþekkt sé sú staðreynd að menn í góðri stöðu þurfi á konu að halda og konur vilji menn. Þegar parið nái svo saman elski þau og virði hvort annað. Að slíta trúlofun var einungis á valdi kvenna. Karlinn átti að vera maður orða sinna og standa við þau.

Í nútímasamfélagi hafa menn mun frjálslegri viðhorf til ástarinnar en áður var og er það að mörgu leyti gott. Á hinn bóginn er vert að muna að mikill munur er á frelsi og algjöru virðingarleysi. Það hafa allir gott af því að muna að réttur eins nær aðeins að garði nágrannans og öfugt. Samskiptamáti fólks í dag er vissulega símaskilaboð, samskiptamiðlar og hin og þessi öpp. Í þeim er hins vegar litla rómantík að finna og þau eru ansi tilfinningasnauð. Það er líka ákaflega auðvelt að særa og skapa misskilning í gegnum skrifaðan texta. Hann ber aldrei með sér blæbrigðaríkan raddblæ, iðrandi augnaráð eða hlýju. Þess vegna er enn hægt að gera þá kröfu að menn og konur slíti ástarsamböndum með reisn.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 2, 2024 08:45