Borgarsögusafn tekur þátt í Safnanótt föstudaginn 7. febrúar með fjölbreyttri dagskrá við allra hæfi í Landnámssýningunni Aðalstræti, Ljósmyndasafninu og Sjóminjasafninu í Reykjavík. Með þess helsta sem safnanæturgestum Sjóminjasafnsins verður boðið upp á er sýning á heimildamynd um björgunarafrekið við Látrabjarg í desember 1947 eftir Óskar Gíslason. Þá munu dansarar á framhaldsbraut Klassíska listdansskólans sýna brot úr þremur dansverkum sem búið er laga að rými Sjóminjasafnsins og hefst sýningin klukkan átta.
Á Landnámssýningunni í Aðalstræti geta yngstu gestirnir leitað uppi litríkar mýs sem hafa falið sig vítt og breitt um sýninguna en þeim sem eldri eru er boðið upp á áhugaverða leiðsögn um sögu Reykjavíkur klukkan sjö og átta. Marianne Guckelsberger spunakona og Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur mæta á Landnámssýninguna klukkan átta til að kenna gestum að spinna á snældu og segja frá konum í fornum sögum sem frömdu spunagaldur til að fela menn á flótta og fá aðra til að missa minnið.
Telma Har býður gesti Safnanætur velkomna á opnun sýningar hennar Glansmyndir í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur klukkan sex. Klukkan átta tekur María Kjartansdóttir, formaður Félags íslenskra samtímasljósmyndara á móti gestum og segir frá sýningu félagsins Veðrun sem nú stendur yfir í aðalsal Ljósmyndasafnsins. Þá verður yngstu gestum safnsins boðið upp á skemmtilega teiknismiðju undir yfirskriftinni Dýrin okkar eftir 100 ár.
Allir viðburðir á Safnanótt eru ókeypis og stendur dagskráin frá klukkan 18:00-22:00.