Afar og ömmur í Þýskalandi sitja ekki bara og lesa fyrir barnabörnin eða skjótast með þau út í ísbúð. Þau gegna æ mikilvægara hlutverki í lífi barnabarnanna og í raun halda mörgum heimilum gangandi með þeirri ábyrgð sem þau taka á sig. Hingað til hefur verið vel þekkt hversu góð áhrif umgengni við eldri kynslóðina í fjölskyldunni hefur á mál- og vitsmunaþroska barna en nýjar rannsóknir sýna að líkamleg heilsa bæði hinna eldri og yngri er umtalsvert betri því meiri sem samskiptin eru. Þetta kemur fram í grein í 52 tbl. Der Spiegel 2024.
Undanfarna áratugi höfum við séð miklar breytingar á uppbyggingu og samskiptum innan fjölskyldna. Ungt fólk eignast börn síðar á ævinni en áður var og eldri kynslóðir lifa lengur og halda heilsu langt fram eftir aldri. Þetta gerir það að verkum að hlutverkin breytast. Í Þýskalandi eru menn meðvitaðir um þetta og nýjar rannsóknir sýna að afi og amma í umönnunarhlutverkum eru bæði virkari og leika veigameira hlutverk en áður var. Það hefur meira að segja komið til tals í þýska þinginu að setja lög um barnaorlof fyrir þær ömmur og þá afa sem vilja taka sér frí frá vinnu til að gerast aðalumönnunaraðilar barnabarna sinna.
Vitnað er í rannsókn Coall og Hertwig í greininni en þar kemur fram að auk vitsmuna- og málþroska geti umönnun afa og ömmu skipt sköpum hvað varðar andlega líðan barnabarnanna og haft umtalsverð áhrif á líkamlega hreysti þeirra. Og ekki bara það heldur eru áhrifin gagnkvæm. Afar og ömmur sem eru virk í umönnun barnabarnanna eru almennt heilsuhraustari og virkari andlega og líkamlega en hinir sem sinna þeim minna.
Breytt fjölskyldumynstur
Margt bendir einnig til að fjölskyldumynstur og sambýlisform séu aftur að breytast í þá átt að kynslóðirnar búi saman. Í greininni í Der Spiegel kemur fram að í sumum tilfellum búa fullorðin börn með sín börn inni á foreldrum sínum. Áður fyrr nýttist þetta sambúðarform ekki hvað síst til að styðja við þá eldri en nú hefur þetta snúist við. Hinir yngri fá stuðning frá foreldrum sínum við uppeldi barnanna og umönnun og iðulega snýst þetta einnig um húsnæðisvanda, hversu dýrt það er að leigja og lítið framboð á heppilegum húsnæði.
Der Spiegel ræðir við finnska félagsfræðinginn Mirrku Danielsbacka, prófessor við háskólann í Turku í Finnlandi, en doktorsverkefni hennar var umfangsmikil rannsókn á hlutverki ömmu og afa í uppeldi barna í Evrópu á átjándu og nítjándu öld. Meðal niðurstaðna hennar var að barnadauði var minni í fjölskyldum þar sem amman var til staðar og sinnti uppeldishlutverkinu með móðurinni. Hún tekur fram að móðuramman virðist hafa verið besti kosturinn hvað varðaði vellíðan allrar fjölskyldunnar. Einnig urðu afi og amma enn mikilvægari en ella ef faðirinn í fjölskyldunni féll frá eða var ekki til staðar. Margar aðrar rannsóknir m.a. rannsókn Sigrúnar Júlíusdóttur á kynslóðasamskiptum, sýna að ungt fólk hefur mjög gott af að fá stuðning frá foreldrum sínum eða eldra fólki við uppeldi barnanna. Ábyrgðin er mjög mikil og leggst oft þungt á axlir fólks sem enn er að klára nám, skapa sér starfsferil og koma sér upp þaki yfir höfuðið.
Hins vegar er mjög misjafnt hvenær afi og amma koma inn í líf barnabarnanna. Sumir eru með þeim allt frá fæðingu og annað eða bæði jafnvel viðstödd fæðinguna. Aðrir kjósa að halda sig meira til hlés sérstaklega á meðan börnin eru ung. Það fólk hefur alið upp eigin börn og telur uppeldishlutverki sínu lokið en kýs að nálgast barnabörnin meira á vináttugrundvelli og sinna sambandi við þau meira og betur þegar þau verða eldri.
Sýnt hefur verið fram í ástralskri rannsókn að ef afi og amma hafa náið samband við barnabörn sín undir sextán ára aldri og á unglingsárum dregur það mjög úr líkum á að börnin byrji að reykja, drekka og neyta vímuefna. Í sömu rannsókn kom fram að afar og ömmur nýta sér tæknina og eiga oft í viku samskipti við barnabörn sín, sextán ára og eldri í gegnum samskiptaforrit og miðla. Í rannsókn, Des Deutschen Jugendinstitut kom hins vegar fram að börn sem hafa ekkert samband við afa sína og ömmur eiga í meiri námsörðugleikum og glíma við fleiri heilsufarsvandamál. Það kom einnig í ljós að meðan á kórónufaraldrinum stóð leið þeim börnum betur sem voru í sambandi við afa sína og ömmur en hinum.
Hugsjónakynslóðin
Þeir sem eiga barnabörn og barnabarnabörn í dag eru af baby-boomers kynslóðinni, fædd á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þetta er almennt vel menntað fólk og hefur átt farsælan starfsferil. Margir eiga sér áhugamál eða stunda eitthvert tómstundagaman af ástríðu. Þetta eru vel upplýstar manneskjur sem taka virkan þátt í samfélaginu. Í Þýskalandi eru mörg áhrifarík samtök sem berjast fyrir betri heimi til handa börnunum, þar á meðal eru Ömmur og afar á móti hægri og Ömmur fyrir framtíðina. Þessi samtök beita sér í loftslagsmálum, gegn hatursorðræðu, rasisma og fleiri mannréttindabrotum. Ömmur hafa skipulagt mótmæli gegn loftslagsbreytingum og standa með barnabörnum sínum og krefjast aðgerða.
Í þessu sambandi er gott að hafa í huga að hér er um að ræða kynslóð sem er mótuð af hugmyndum og frelsi, mannréttindi og samkennd milli manna. Þær hugsjónir einkenndu ’68 kynslóðina og þakka má hugmyndum þeirra og ötulli baráttu margt af því sem hefur áunnist í réttindamálum hörundsdökkra, hinsegin fólks og þau hafa beitt sér fyrir auknum jöfnuði í heiminum. Margar konur af þessari kynslóð áttu tóku virkan þátt í kvennabaráttunni og eru sterkar fyrirmyndir fyrir barnabörnin. Viðhorf af þessu tagi eru einnig gott veganesti fyrir ungt fólk og verðugt að þau skili sér áfram til næstu kynslóða.
Efnahagsleg, tilfinningaleg og félagsleg áhrif
Mannkynið hefur náð að sigrast á mörgum sjúkdómum og að skapa sér lífsskilyrði sem gera það að verkum að við verðum eldri. Fólk hefur þess vegna meiri tíma með börnum sínum og barnabörnunum en áður. Meðalaldur kvenna á Vesturlöndum er kominn upp í 85,8 ár að meðaltali og karla í 82,5 ár. Mjög margir njóta góðrar heilsu fram í andlátið og geta búið einir og séð um sig sjálfir. Umönnun afa og ömmu hefur ekki bara góð áhrif á heilsu, vitsmunaþroska og vellíðan barnanna. Áhrifin eru einnig efnahagsleg, tilfinningaleg og félagsleg og aftur er um gagnkvæm áhrif að ræða. Það hefur sýnt sig að þegar eldra fólk sér um barnabörn sín oft í viku eða daglega dregur það úr offitu beggja kynslóða og eykur líkur á að hinir eldri eldi frá grunni hollar og næringarríkar máltíðir. Andleg heilsa verður betri og aukin samskipti skapa andlegar áskoranir sem hafa áhrif á heilaþroska, minni og athygli samkvæmt rannsókn Buchanan and Rotkirch.
Áhrif afa og ömmu á heilsu og þroska barnabarnanna verður því seint vanmetið og víða hafa starfsmenn félagslega kerfisins hvatt til og skapað skilyrði til að auka samgang milli barna og ömmu og afa. Leikskólar bjóða upp á ömmu- og afakaffi, skólar halda opin kvöld fyrir þau og veittir styrkir ef afi og amma taka að sér að gæta barnanna þar sem skortur er á öðrum úrræðum. Yfirvöld eru farin að átta sig á að það er mjög til hagsbóta að styrkja þetta band, ekki hvað síst vegna þeirra jákvæðu heilsufarsáhrifa sem það hefur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.
Í Der Spiegel er einnig rætt við kennslufræðiráðgjafa og spurt út í bæði neikvæð og jákvæð áhrif ömmu og afa á barnabörnin. Þar kemur fram að stundum skapast togstreita vegna þess að afi og amma leyfa börnunum að horfa á sjónvarpsefni, leika í tölvuleikjum og borða eitthvað sem foreldrarnir hafa kosið að halda frá þeim. Hann mælir með að báðir aðilar sýni hinum fulla virðingu og leysi úr slíku með hagsmuni barnanna í huga.