Dökkir skuggar í norskum sakamálasögum

Skandinavískir sálfræðitryllar njóta mikilla vinsælda víða um heim um þessar mundir. Í þeim þykir sleginn einhver dökkur tónn sem nær að snerta við lesendum og enduróma lengi. Norsku sakamálasagnahöfundarnir Unni Lindell og Heine Bakkeid eru í þeim hópi sem skrifa í þessum stíl. Heine hefur verið líkt við Jo Nesbø og það er vissulega til í því og þeir Harry Hole og Thorkild Aske eiga ýmislegt sameiginlegt. Unni Lindell kafar á hinn bóginn ofan í fortíð sinna persóna og hún bindur sig ekki við einn spæjara heldur velur að skapa nýjar hetjur í hverri bók.

Spennandi sálfræðistúdía

Rauðhetta eftir Unni Lindell er áhugaverð stúdía á samskiptum innan fjölskyldna og áhrifum áfalla á börn. Systurnar, Judith, Lisbet og Carol eru aldar upp af ömmu sinni að mestu. Móðir þeirra er fjarlæg en kemur af og til í heimsókn og verður eins og nokkurs konar ævintýrapersóna í huga systranna. Lesandinn veit strax frá upphafi að ein þeirra hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun barn að aldri og sú er morðingi. En hver þeirra systra það er verður sífellt erfiðara að giska á eftir því sem sögunni vindur fram.

Judith er ljósmyndari, Lisbet ljósmóðir en Carol glímir við fíkn og er fátæk. Henni finnst hún raunar alltaf hálfutanveltu í fjölskyldunni og að systur hennar viðurkenni hana ekki fyllilega. Er þar frjór jarðvegur fyrir hatur að festa rætur í og leiða til ofbeldisverka? Judith er lokuð og þótt hún á yfirborðinu virki friðelskandi og góð er þungur straumur undir niðri. Milli hennar og Lisbetar er líka einhver togstreita og hvorug alveg öll þar sem hún er séð. Amma telpnanna er sömuleiðis sérstæður karakter og hvorki umhyggjusöm né áhugasöm um stúlkurnar sem henni er trúað fyrir. Það er því kannski ekkert undarlegt að ein þeirra vaxi upp og verði að miskunnarlausri úlfynju fremur en saklausri stúlku í rauðri slá með hettu.

Morðinginn er nefnilega refsinorn eða hefndarengill. Hann er að ná sér niðri á og refsa mönnum sem níðast á stúlkubörnum. Hann hefur drepið átta karla á tuttugu og fimm ára tímabili og fram að þessu hefur enginn tengt dauðsföllin saman eða gert sér grein fyrir að í öllum tilfellum hafi verið um morð að ræða nema einn lögreglumaður. Sá er kominn á eftirlaun og hefur því góðan tíma til að rannsaka málin og fylgja þeim eftir. Spurningin er bara hvort honum takist að leggja saman tvo og tvo eða er morðinginn of snjall til að honum takist að ná honum.

Helstu styrkleikar Unni Lindell sem höfundar er hversu trúverðugir og skemmtilegir karakterar hennar eru. Bækur hennar um Cato Isaksen lögregluforingja hafa verið þýddar víða um heim og notið mikilla vinsælda og sjónvarpsþættir gerðir eftir þeim í Noregi. Hér er hún í essinu sínu og tekst að endurskapa hversdagsaðstæður, ofurvenjulegra kvenna og skapa andrúmsloft hryllings og spennu. Og eftir þónokkrar flækjur og snúninga verður loks fyllilega ljóst hver er morðinginn, hvers vegna hann drepur og hvernig fer fyrir slíkri manneskju að lokum.

Kafað ofan í dekkstu hliðar undirheimanna

Heine Bakkeid hefur verið kallaður hinn nýji Jo Nesbø. Gagnrýnendur hafa gjarnan fullyrt að þeir tveir leiði hina svokölluð Nordic noir-grein bókmennta á Norðurlöndum. Bækur Heine Bakkeid eru alltaf vel úthugsaðar og trúverðugar. Hann er snillingur í að skapa togstreitu og spennu milli persóna og enginn í bókum hans er alvondur og það er hægt að finna til samúðar með jafnvel verstu óþokkum.

Í Sorgarsugunni tekur Thorkild höndum saman við erkióvin sinn og fellst á að hjálpa honum að drepa fjórar manneskjur vegna þess að öðrum kosti verður átta ára drengur drepinn. Thorkild er ekki á góðum stað, glímir við fíkn og alls ekki búinn að jafna sig andlega á fyrri áföllum. Hann, eins og Harry Hole, er eiginlega eins ólíkur hinum bráðsnjalla leynilögreglumanni flestra glæpasagna og hugsast getur. Hann er breyskur, andfélagslega sinnaður og alls ekki góður í að vinna með öðrum en það er eitthvað heillandi við hann engu að síður. Hann er réttsýnn, vill berjast gegn hinu illa og leggur allt í sölurnar í baráttunni.Sorgarsugan er frumleg, spennandi og vel unnin glæpasaga. Stíll Bakkeids er harðsoðinn en það er í honum einhver dýpt og skemmtilegur húmor sem gerir hann ólíkan öllum öðrum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 5, 2025 07:00