Sumardýrðin á hálendi Íslands dregur marga þangað ár hvert. Fáir þekkja líklega óbyggðirnar betur en Páll Ásgeir Ásgeirsson en nýlega kom út ný og endurbætt útgáfa bókarinnar Bíll og bakpoki. Páll Ásgeir og kona hans, Rósa Sigrún Jónsdóttir hafa leiðsagt í ótal gönguferðum um fjöll og firnindi og þau eru að auki ástríðufullir náttúruunnendur og þess sést sannarlega stað í þessari leiðsögubók.
Bókin er ætluð þeim sem vilja fara með allt á bakinu og njóta náttúrunnar með öllum skilningavitum. Páll Ásgeir er margfróður um náttúrufar, sögu og landafræði Íslands og að auki ákaflega ritfær. Það er þess vegna hrein upplifun í sjálfu sér að lesa lýsingar hans á staðháttum á hverjum áfangastað. Það er hreinlega eins og menn séu komnir á staðinn, upplifi rigninguna, mosann, gróðurleysið, sólskinið og marrið undir gönguskónum þegar haldið er af stað.
Á flestum leiðunum sem lýst er í bókinni er ein eða tvær gistinætur í tjaldi. Kort fylgir með gönguleiðinni afmarkaðri og skýrar upplýsingar um hækkun, erfiðleikastig, hvað þurfi að hafa í huga og GPS punktar. Í inngangi er einnig fjallað almennt um hvernig best er að undirbúa sig fyrir svona ferðir, bæði hvað varðar útbúnað og nesti. Þetta er einstakur ferðamáti og honum fylgir mikið frelsi. Það er þó sjálfsagt að hafa varann á þegar ferðast er um óbyggðir Íslands. Láta vita hvert skal halda, fara þá leið sem menn sögðust hafa valið og vera með góðan útbúnað. Ef þessum leiðbeiningum er fylgt og farið að öllu með gát ættu allir að geta notið þess að ganga um í ósnertum víðernum landsins og upplifað fjölbreytileika náttúrunnar og þá undrafegurð sem víða blasir við.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.