Annie Ernaux er einn athyglisverðasti rithöfundur samtímans. Hún skrifar ævinlega út frá eigin reynslu og lífi á þann hátt að sammannlegur skilningur skapast. Atburðurinn er þriðja bókin sem kemur út eftir hana á íslensku og það er í senn skerandi sársaukafullt að lesa þessa bók og nauðsynlegt á tímum þegar sjálfsákvörðunarréttur kvenna og yfirráð yfir eigin líkama eru skert víða um heim.
Sagan gerist árið 1963. Þungunarrof var ólöglegt í Frakklandi á þessum tíma og ungar konur leituðu til mismunandi hæfra aðila þegar þær urðu þungaðar án þess að hafa vilja eða getu til að eignast barn. Annie segir sögu sjálfrar sín, ungrar stúdínu sem er einmitt í þessum sporum. Hún lýsir einkar vel hugsunarleysinu, jafnvel mætti kalla það kæruleysi, ungra manneskja sem einhvern veginn þrátt fyrir allt trúa því að þær sleppi við allt sem er óþægilegt.
Þegar hún engu að síður verður ófrísk hefst þrautaganga hennar milli lækna og samnemenda sinna í leit að hjálp. Hún vill ekki eignast þetta barn, það er aldrei neinn vafi í hennar huga hvað það varðar, en óttinn, ráðaleysið, skömmin, einsemdin, vonleysið og stundum hæfnin til að ýta þessu frá sér skiptast í á huga hennar. Þegar hún svo finnur manneskju sem er tilbúin að framkvæma þungunarrof tekur við kvíði, von og aukin skömm. Það hvernig Annie lýsir ferlinu sker lesandann í hjartað og þetta verður í senn saga hennar, saga þín og saga allra kvenna.
Það hversu blátt áfram hún lýsir öllu verður til þess að þetta er enn áhrifameira. Hér er þroskuð kona að líta til baka til æsku sinnar og við fáum í senn viðhorf hennar til atburðarins í baksýnisspeglinum og í gegnum augu lífsreyndrar manneskju og ungu konunnar sem varð að takast á við óbærilegar aðstæður. Annie Ernaux er Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum, fékk verðlaunin árið 2022. Hún skrifar um ástríður, losta, skömm, ofbeldi, ótta, kærleika og fálmkenndar tilraunir okkar til að ná einhvers konar stjórn á eigin lífi. Hún er ekki mikið fyrir orðagjálfur eða ljóðræna útúrdúra. Textiinn er einfaldur, heiðarlegur og beinskeyttur. Það eykur á áhrifin þegar hún skrifar um erfiða reynslu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.