Nú er sumarið handan við hornið og þá er gaman að fara í stuttar ferðir út fyrir bæinn, fá tilbreytingu og hlaða batteríin. Geitfjársetrið að Háafelli í Hvítársíðu er einstakur staður. Þar býr auk bændanna, Jóhönnu Þorvaldsdóttur og Þorbjörns Oddsonar, stærsta geitahjörð Íslands. Jóhanna og fjölskylda hennar taka hjartanlega á móti gestum og gefa þeim tækifæri til að kynnast og fræðast um þennan einstaka dýrastofn.
Hér er ekki um að ræða hefðbundin húsdýragarð. Þetta er heimili dýranna og þótt öllum gefist færi á að hitta þau er ekki verið að hefta ferðafrelsi þeirra á nokkurn hátt. Það er bannað að elta geiturnar en þegar þær koma sjálfviljugar til gestsins má hann klappa, klóra og kjassa að vild. Og þær koma. Undarlegt en satt ungar sem aldnar huðnur og krúttlegir kiðlingar bíða svolitla stund og mæla út nýkomna en um leið og upp fyrir þeim rennur að þetta muni ágætismanneskja mæta þær. Sumar leggja höfuðið við lærið á sínum útvalda, bíða meðan hann klappar, teygja svo upp hausinn og bjóða upp á frekara kelerí sé fólk þannig þenkjandi. Það er erfitt að standast slíkt tilboð því geitur eru einstaklega andlitsfríðar og blíðlegar á svip.
Stundum kemur upp smávægileg afbrýðisemi. Ef huðna hefur valið þig og önnur gerist fullvinaleg og uppáþrengjandi er sú fyrr snögg að stanga hana í burtu. Þannig sýnir hún hversu vel hún kann að meta fingralipurð og nuddtækni þína. Kiðlingarnir eru ekki síður tilbúnir að hjálpa þeim er áhuga hafa á að hvíla tættan huga og ná djúpri hugleiðslu. Þeir klifra upp í fangið á þeim er tylla sér í grasið á túninu, flaðra upp um þá sem þeim líkar sérlega vel við. Starfsmenn Geitfjársetursins segja að geitin sé að viti og afstöðu einna líkust hundum. Þær kunnu vel við mannfólk ólíkt hinum fjallstyggu sauðkindum. Það er einnig augljóst að þær hópa sig meira saman en kindur gera og renna í stórum hópum um túnin og hlíðina fyrir ofan Háafell. Hafrarnir eru í sérhólfi, sex saman en þeir eru heldur skapstyggari en huðnurnar og kiðlingarnir.
Smár en hreinn stofn
Íslenski geitastofninn er í útrýmingarhættu. Jóhanna og Þorbjörn hafa lyft grettistaki í að bjarga þeim en enn má ekki mikið út af bregða ef hann á að haldast. Þetta hefur kostað mikla baráttu og lengi máttu hjónin ekki selja afurðir bús síns. Til allrar lukku hefur það breyst og gestir geta keypt í lítilli búð á staðnum margvíslegar afurðir geitanna. Til dæmis áburð, sápur, kjöt, osta, ís og handverk. Allar vörurnar eru handunnar og einstakar.
Kjötið af geitunum er ákaflega fitulítið og mjög hollt. Hér er um að ræða lífræna ræktun og gæði afurðanna einstaklega mikil. Þau hafa fengið kjötiðnaðarmann í lið með sér en sá vinnur gómsætar kryddpylsur úr kjötinu. Einnig eru húðvörurnar ákaflega spennandi. Sápurnar eru mýkjandi og hreinsandi fyrir húðina og græðandi áburðurinn er ákaflega vinsæll þegar hann fæst. Allir sem þekkja og kunna að meta fetaost verða líklega einstaklega glaðir að heyra að á Háafelli má fá nokkrar tegundir af geitafeta í kryddolíu. Silkimjúk skinn eru líka til sölu og peysur prjónaðar úr íslenskri kasmírull. Aðeins tekur um einn og hálfan tíma að keyra frá Reykjavík upp að Háafelli og heimsókn þangað stórskemmtilegur sunnudagsbíltúr.
„Það er bannað að elta geiturnar en þegar þær koma sjálfviljugar til gestsins má hann klappa, klóra og kjassa að vild. Og þær koma. Undarlegt en satt ungar sem aldnar huðnur og krúttlegir kiðlingar bíða svolitla stund og mæla út nýkomna en um leið og upp fyrir þeim rennur að þetta muni ágætismanneskja mæta þær.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.