Ansi lengi hefur menn greint á um það hvort sjötta skilningarvitið sé til eður ei. Þeir sem trúa hvað heitast á að fleira finnist á himni og jörð en það sem vísindin geta rannsakað benda jafnan á að þrátt fyrir víðtækar rannsóknir hafi vísindamenn ekki getað afsannað tilvist hins yfirskilvitlega vegna þess að of mörg tilvik eru skráð sem ekki er hægt að skýra. Nú bendir hins vegar ýmislegt til að þetta skilningarvit sé fundið í formi bakteríuflóru í þörmunum.
Nýjustu rannsóknir benda sannarlega til að sjötta skilningarvitið sé marktækt og til staðar í öllum mönnum. Allir menn þurfa að taka ákvarðanir. Þær eru hluti af lífinu og eitt af því sem hefur vakið áhuga sálfræðinga er hvernig valið er á milli tveggja kosta þegar þeir bjóðast. Fyrirfram var vitað að maðurinn beitir bæði skynsemi og innsæi við ákvarðanatökuna. Allar nýjustu rannsóknir benda hins vegar til að innsæið vegi mun þyngra en skynsemin í ferlinu.
Dr. Marius Usher prófessor við sálfræðivísindadeild háskólans í Tel Aviv vann ásamt samstarfsmönnum rannsókn á hegðun fólks sem sett var í þá stöðu að þurfa að velja milli tveggja möguleika. Þeir komust að því að innsæi er mun sterkara afl en áður hafði verið talið og mun nákvæmara og traustara. Þátttakendur völdu í 90% tilfella réttan kost þótt þeir gætu ekki notað nein önnur skilningavit til að að hjálpa þeim við valið.
Gildi tilfinninganna
En hvort sem menn nota eingöngu innsæi við ákvarðanatöku eða kjósa rökhugsun sem hjálpartæki er mikilvægt að hafa í huga að verðmæti eða gildi leika ævinlega stórt hlutverk í öllum athöfnum mannsins. Með gildum er átt við að menn vega ævinlega og meta jákvæðar og neikvæðar afleiðingar gerða sinna. Til að mynda ef einhver væri settur í þá stöðu að ákveða hvort hann ætti að taka á leigu dýra íbúð eða velja aðra ódýrari myndu allir velja hagkvæmari kostinn nema að dýrari íbúðin hefði eitthvað svo eftirsóknarvert að ekki væri hægt að líta fram hjá því.
Prófessor Usher og félagar hans komust að því að innbyggðar vogarskálar hugans vega allt slíkt þótt lítið annað sé við að styðjast. Til þess að skoða þetta nánar setti rannsóknarteymið þátttakendur fyrir framan tölvuskjái og sýndu þeim talnapör sem birtust hratt. Allar tölurnar bæði í hægra og vinstra horni skjásins var þeim sagt að sýndu arðsemi hlutabréfa á hlutabréfamarkaði. Síðan voru þátttakendur beðnir að velja sér það talnapar sem sýndi mesta meðalarðsemi. Vegna þess að tölurnar breyttust svo hratt, tvö til fjögur pör á sekúndu, gátu menn ekki lagt þær á minnið og urðu því að treysta fyrst og fremst á innsæið og tilfinninguna.
Í ljós koma að þátttakendur voru ótrúlega fljótir að reikna út hvað talnpör skiluðu mestu og þeir gátu unnið úr ótrúlega miklum upplýsingum á skömmum tíma. Raunin var reyndar sú að nákvæmnin jókst því hraðar sem tölurnar voru sýndar. Þegar fólkinu voru til dæmis sýnd sex pör af tölum hafði það rétt fyrir sér í 65% tilvika en síðan var hraðinn aukinn og þeir fengu 24 pör jókst nákvæmnin upp í 90%. Mannsheilinn hefur því góða hæfni til að taka inn mikið magn upplýsinga á stuttum tíma og vega þær að meta. Hann getur þess vegna treyst á verðmætamat sitt þótt hann þurfi að vinna hratt og meta á orskotsstund hvað er best fyrir hann. Þetta sama gilti þegar vísindamennirnir tóku til við að rannsaka næmi manna fyrir hættu og hversu færir þeir væru um að sjá ýmislegt fyrir eða fá á tilfinninguna, eins og sagt er, að eitthvað væri yfirvofandi. Menn voru látnir horfa á mismunandi myndir sem runnu hratt framhjá og beðnir að meta hvort hætta væri á ferðum eða ekki. Sums staðar stóðu menn tæpt við bjargbrún eða bíll sást ferðast á miklum hraða en þess á milli gekk fólk rólega yfir götu eða var við hversdagslegar athafnir. Í ljós kom að ef ógn var á fleiri myndum en færri voru langflestir þess fullvissir að eitthvað alvarlegt væri í þann mund að gerast.

Stór magi er ekki sérstaklega smart og ótrúlega erfitt að losna við hann
Áhættuhegðun og bakteríurnar í þörmunum
En auðvitað er galli á gjöf Njarðar. Innsæið er háð ákveðinni hlutdrægni eða slagsíðu í þá átt sem persónuleiki okkar er fyrirfram innstilltur á að leiða okkur. Til að mynda eru sumir óhræddari við að taka áhættu en aðrir og það gæti haft áhrif á hversu skynsamlegar ákvarðanir þeir taka þegar þeir eru leiddir áfram af innsæinu. Þetta er hins vegar ekki allt sem nýlega hefur uppgötvast í rannsóknum vísindamanna á bakteríum. Ef rétt reynist að geimverur heimsæki Jörðina reglulega og geisli manneskjur upp í loftför sín til að rannsaka þær nánar þá eru þær löngu búnar að komast að því að stór hluti líkama þeirra er gerður úr bakteríum af alls konar toga.
Þessir einfrumungar stjórna ansi mörgu meðal annars heilsufari okkar, bæði andlegu og líkamlegu, hversu vel okkur gengur að hvílast og hugsa og endurnýja frumur líkamans. Og nú er sem sé einnig komið í ljós að þær leika veigamikinn þátt í innsæinu. Stór hluti bakteríuflórunnar blómstrar í þörmunum og margt bendir til þess að það hversu ríkuleg hún er og fjölbreytt hafi áhrif á hve vel stillt og næmt innsæi manneskjunnar er.
Vísindamenn sem stúderað hafa taugakerfi, boðefnaframleiðslu líkamans og ónæmiskerfið eru nefnilega allir á einu máli um að allt þetta stjórnist ekki hvað síst af því hversu heilbrigð bakteríuflóra þarmanna er. Beint samband er á milli margvíslegra heðgunarvandamála, andlegra veikinda, sársaukaskyns og tilhneigingar til streitu og bakteríanna í þörmunum. Rannsóknir hafa sýnt að ef tekst að auka magn góðgerla í þörmum dýra leiði það til þess að efnafræði heilans breytist, þ.e. vellíðunarboðefnaframleiðsla eykst, einbeitingarhæfni, skynjun og næmni á umhverfið. Allt er þetta hluti af innsæinu. Ef þessum sömu gerlum er á hinn bóginn fækkað fer dýrið að sýna alls konar óæskilega hegðun, streitutengd einkenni og missir hæfnina til að greina og vinna úr ýmsum upplýsingum.

Ótrúlegt hvað þarmaflóran hefur mikil áhrif á heilsuna
Ónæmiskerfið og streitan
Magn góðgerlanna hefur einnig mikil áhrif á hvers virkt ónæmiskerfið er og um leið og þeim fækkar verður dýrið viðkvæmara fyrir sýkingum. Vegna þess hve afgerandi niðurstöður þessara rannsókna eru hafa menn einbeitt sér í auknum mæli að því að bæta bakteríuflóru þarmanna þegar ákveðnir sjúkdómar gera vart við sig. Það má gera á margvíslegan hátt, til dæmis með breytingum á mataræði en einnig hafa læknar gert tilraunir með að koma fyrir saurgerlum úr heilbrigðum einstakling í þörmum sjúklings.
Víða í vísindagreinum má sjá vísað til þarmanna sem hins heilans eða the second brain, enda er þetta flókið kerfi. Allt því hundrað milljón taugafrumur eru í þarmaveggjunum. Þær senda síðan boð um allan líkamann og svo flókið er kerfið sem þær byggja að líða munu mörg ár áður en menn ná að skilja til fulls hvernig þær vinna saman og hver sérhæfing hverrar er.
Þegar barn fæðist eru þarmar þess dauðhreinsaðir. En um leið og það byrjar að nærast taka að byggjast upp bakteríur í þörmunum og taka sér bólfestu hver á sínum stað. Það er svo bæði háð erfðum og umhverfi hversu fjölbreyttar og sérstæðar þær verða. Þessar hundrað trilljón örverur sem setjast að og byggja sér bú í þörmunum eiga svo eftir að skapa og móta persónuleika okkar ekkert síður en foreldrarnir og aðrir áhrifavaldar. Þær hafa áhrif á minnið, hversu auðvelt þú átt með að læra, hve hraustur þú ert, hve glaðlyndur eða fýlugjarn eftir atvikum og já, hve næmt innsæi þú hefur og hve fljótur þú ert að skynja umhverfið og vega og meta möguleikana í stöðunni.
Áhrifin ganga í báðar áttir
Eitt má þó ekki gleymast. Þetta samspil heilans og þarmanna er tvístefnuakstursgata. Hugurinn hefur ekki síður áhrif á flóruna í þörmunum og heilbrigði hennar og öfugt. Þannig hefur verið sýnt fram á að mikil streita og ógn í umhverfi manneskju í langan tíma breytir bakteríuflórunni, hægir á starfsemi þeirra og dregur úr fjölbreytni. Ef slíkt álag varir í langan tíma skilur það manneskjuna eftir með mun veikari þarmaflóru en áður sem svo aftur hefur áhrif á alla líkamsstarfsemi.
Enn á eftir að rannsaka meira og betur hvernig það að læknar einbeiti sér að því að bæta þarmaflóru sjúklinga sinna í vissum tilfellum bæti líðan þeirra og heilsu. Ýmsar tilraunir hafa þegar verið gerðar á þessu til dæmis með að lækna Crohns-sjúkdóminn, og einnig hafa menn beitt slíkum aðferðum gegn kvíða og vægu þunglyndi. Hingað til hefur þetta gefið góða raun og því full ástæða til að fylgjast með hverju framvindur hvað varðar rannsóknir og lækningar á bakeríuflóru líkamans varðar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.