Tengdar greinar

Það er þitt að hafa samband við barnabörnin

Regla 1: Það er þitt að vera í sambandi.

Það er sama hvort börnin eru í leikskóla eða komin í framhaldsskóla, algengasta umkvörtun frá öfum og ömmum er að börnin hafi aldrei samband. Svona eru börn og hafa líklega alltaf verið. En sama hvers kyns er, það er á þína ábyrgð að vera í sambandi. „Lykillinn að góðu sambandi við barnabörnin er að halda öllum leiðum opnum til að ræða vð þau“, segir Jodi M. Webb rithöfundur og bætir við að að til að það gangi, þurfi að nota aðferðir sem börnin þekkja og svara. Lærið að senda sms og vera á samfélagsmiðlunum. Hringið stöku sinnum. Spyrjið þau um áhugamál þeirra og haldið sambandinu á léttum og elskulegum nótum, segir Jodi.

Regla 2: Uppáhalds amman er sú sem er skemmtilegust.

Barnabörnin myndu aldrei segja það við þig, en samt er raunin sú að þau eiga sér uppáhalds afa og ömmu. Þessir afar og ömmur eru tilbúin að gera eitthvað nýtt, þeim dettur í hug að gera ýmislegt sem hentar barnabörnunum og eru almennt afslappaðar manneskjur. Þetta er fólkið sem hlær hæst og faðmar börnin mest, og sem – eins klisjulega og það nú hljómar – hefur flesta bolta á lofti í einu.

Regla 3: Ertu móðguð? Þú verður að komast yfir það.

Það kemur að því í sambandinu við barnabörnin að þér á eftir að finnast þú skilin útundan, að þú þjáist af sektarkennd og áttir þig ekki á hvað er í gangi. Að þú vitir ekki þitt rjúkandi ráð og jafnvel eitthvað enn verra. Sonur þinn og tengdadóttir bjóða þér ekki að vera hjá sér um jólin. Ömmustrákurinn sýnir þér enga virðingu og ömmustelpan gleymir afmælisdeginum þínum. Þegar aðstæður verða svona getur þú rætt málin við fjölskylduna og jafnvel vænst afsökunarbeiðni.  En þú getur ekki hætt að umgangast þau, nema þetta séu særindi sem ekki er hægt að græða. Gremja skemmir sambönd. Það styrkir þau hins vegar að ræða hlutina og fyrirgefa. Sá vægir sem vitið hefur meira.

Regla 4: Vertu reiðubúinn.

Barnabörnin eru blessun, en líka mikil vinna og nýbakaðir foreldrar geta þurft á aðstoð að halda fyrstu mánuðina. Þurftir þú ekki líka á því að halda á sínum tíma? Ef börnin þín eru gott fólk, reyndu allt sem þú getur til að hjálpa þeim. Það er hægt að bjóðast til að þrífa, elda, passa börnin og svo framvegis. Þetta er góð leið til að styrkja fjölskylduböndin og með því fylgir aukabónus – þú færð gæðastundir með nýja afa- eða ömmubarninu.

Regla 5: Deilið barnabörnunum með öðrum.

Þegar barnabarn fæðist vilja afar og ömmur helst hafa það útaf fyrir sig og þannig verður það örugglega alltaf. En það eru fleiri afar,ömmur, frænkur, frændur og jafnvel enn fleira fólk sem þarf að taka tillit til. Það getur verið erfitt að þurfa að deila barnabarninu með öðrum. Forðist vandræði með því að skipuleggja hlutina fyrirfram og ræða málin vel. Reynið að setja ákveðnar reglur um umgengnina svo sem eins og að skiptast á um að heimsækja barnabarnið og skiptast á um að hitta það í fríum. Verið örlát, sveigjanleg og skilningsrík.

Regla 6: Bíttu þig í tunguna.

Eruð þið ósammála svefnvenjum ömmu og afastkráksins? Finnst ykkur dóttir ykkar of ströng þegar kemur að því að gefa barnabörnunum sælgæti? Haldið þessum skoðunum út af fyrir ykkur, nema þið séuð spurð eða óttist að hætta steðji að barnabarninu. Það er algengt að foreldrarnir upplifi óumbeðin ráð frá ömmum og öfum sem gagnrýni og það getur valdið reiði og orðið til þess að spilla samkomulaginu í fjölskyldunni. Ef þið þurfið að fá útrás, talið við maka, vini eða samstarfsfólk sem er tilbúið að hlusta.

Regla 7: Hegðið ykkur eins og barnabörnin séu alltaf að fylgjast með.

Það hefur ekki endilega neitt uppá sig að segja barnabörnunum að við viljum að þau hegði sér vel, sérstaklega ekki ef þau eru ung“ segir Kathy Motlagh hjá umboðsmanni barna. Með öðrum orðum að ef þið viljið að barnabörnin hegði sér vel, er ekki nóg að tala við þau.  Þið verðið að vera þeim góð fyrirmynd. Temjið ykkur að vera elskuleg og sýna öðrum virðingu í dagsins önn. Reynið að berjast gegn viðbrögðum sem eru sprottin af reiði og ótta. Verið góðar manneskjur og barnabörnin munu taka ykkur sér til fyrirmyndar.

Regla 8: Útvegið barnadót.

Svo vitnað sé í „frægan höfund“, þá er það almennt viðurkenndur sannleikur að afar og ömmur sem búa við góð efni, eiga að verja hluta þeirra í dót handa barnabörnum sem koma í heimsókn. Þegar þau eru lítil, má kaupa nokkrar bækur, leikföng, bleyjur, pela, plastdiska og glös til dæmis út IKEA, þannig að foreldrarnir þurfi ekki í sífellu að vera að flytja þessa hluti á milli staða. Ef það er ljóst að barnabörnin muni gista hjá ykkur í framtíðinni má hugsa sér að kaupa barnastól, litla kerru og jafnvel rúm. Það skiptir máli í þessu samhengi, hvernig pláss afi og amma hafa og hversu fjáð þau eru. En það munar um allt og það er þegið með þökkum.

Regla 9: Það eru engar reglur.

Hlutverk afa og ömmu breytast með hverri kynslóð. Þið eruð öðruvísi en afar ykkar og ömmur og barnabörnin ykkar eru allt öðruvísi en þeirra barnabörn verða. Það er hægt að styðjast við söguna og reynsluna, en þegar allt kemur til alls verðum við að vera tilbúin að takast á við nýjar og breyttar aðstæður hvenær sem er.  Gefið góð ráð, gerið ykkar besta og elskið og njótið barnabarnanna. Er hægt að biðja um meira?

Ritstjórn september 14, 2017 10:10