Forsætisráðherra segir að forgangsraðað hafi verið í þágu eldri borgara

Bjarni Benediktsson

Barni Benediktsson forsætisráðherra var í viðtali á Bylgjunni í morgun, þar sem gott efnahagsástand landsins var til umræðu. Hann var spurður hvort þetta þýddi ekki að svigrún væri að skapast til að laga kjör eldri borgara hraðar. Hann svaraði því til að þetta væri risastór málaflokkur, hann hefði verið á dagskrá og yrði það áfram.

„Ég get alveg sagt hreint út að það sem við höfum gert á undanförnum árum, og þær breytingar sem tóku gildi um síðustu áramót, eru breytingar sem ég er stoltur af að hafa átt þátt í að hrinda í framkvæmd“, sagði Bjarni. „Við erum að ná því marki smám saman, og erum að  horfa til næstu áramóta í því efni, að tryggja öllum 300.000 króna lágmarksframfærslu.   Nýlegar tölur sem voru teknar saman og  lagðar fyrir Alþingi, sýna að við höfum náð mjög miklum árangri á skömmum tíma“.  Bjarni sagði að kjörin hefðu verið að  batna um 15 – 25 prósentustig milli ára, frá janúar 2016 til jan 2017. „Ég veit að það lifir enginn af prósentustigum, en við höfum verið að bæta svo rosalega í þennan málaflokk og það er engin önnur leið til að að nálgast þetta en segja, að þarna hafa menn greinilega verið að forgangsraða“.

Forsætisráðherra bætti við að á 25 milljarðar hefðu verið settir í lífeyrisgreiðslur milli ára, til að rétta stöðu þeirra sem byggðu framfærslu sína á stuðningi almannatrygginga. „Við settum 25 milljarða eingöngu til lífeyrisgreiðslna, sem fyrst og fremst renna til eldri borgara“.

Ritstjórn júní 16, 2017 12:11