Það er búið að ráðstafa starfinu

Fjallað var um atvinnumál eldra fólks í þættinum 50 plús á Hringbraut vikunni og lagt upp með spurninguna af hverju gengur eldra fólki svo illa að fá vinnu ef það missir vinnuna á annað borð.

Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði að reynslan sýndi að yngra fólk væri leitandi á vinnumarkaðnum. Það prófaði ýmis störf og skipti töluvert ört um starf. „Eftir 40 ára starfsævi þar sem fólk hefur kannski unnið hjá einum eða tveimur vinnuveitendum er það kannski með allt annað hugarfar í atvinnuleitinni en þeir sem yngri eru. Fólk er að oft að leita að einhverju mjög svipuðu og það var í og er með fastmótaðar hugmyndir  um hverjir séu hæfileikar þess, svo það geti risið undir kröfum í starfi. Það er því eðlilegt að það taki lengri tíma að finna starf fyrir þennan hóp en þá sem yngri eru,“ sagði Hannes. Hann sagði að margt hæfleikaríkt eldra fólk hefði misst vinnuna í hruninu og það hefði tekið langan tíma fyrir þennan hóp að fá nýja vinnu og margir hafi orðið að skipta um starfsvettvang til að fá vinnu, það sé ein leið. Hannes sagðist ekki geta neitað því að aldurfordómar á vinnumarkaði séu til staðar. Hann hafi oft heyrt að kennitalan skipti máli og eldra fólk sé sigtað út þegar verið sé að ráða í störf. „Það er hins vegar svo að reynslumikið fólk er mjög verðmætt á vinnumarkaðnum,“ sagði Hannes.

Hanna G. Sigurðardóttir og Ragnheiður Gyða Jónsdóttir.

Rætt var við þær Ragnheiði Gyðu Jónsdóttur og Hönnu G. Sigurðardóttur í þættinum en þær eru báðar í atvinnuleit. Ragnheiður Gyða sagðist alltaf fá sama svarið. „Ég fæ alltaf netpóstinn þakka þér kærlega fyrir að sýna starfinu áhuga en því hefur verið ráðstafað.“  Hanna sagðist hafa verið full bjartsýni þegar hún byrjaði að leita sér að starfi fyrir um ári síðan. „Ég taldi að ég hefði reynslu og kunnáttu sem gæti nýst á fleiri stöðum en þar sem ég vann áður. Það dofnar óneitanlega yfir manni og sjálfstraustið minnkar.  Róðurinn verður alltaf þyngri og þyngri og maður þarf að bíta fastar og fastar á jaxlinn til að sækja um nýtt starf. Þó hef ég ekki verið að sækja um störf nema þar sem ég tel að mig geta lagt eitthvað að mörkum og þar sem kunnatta mín og hæfileikar gætu nýst.“ Ragnheiður Gyða tók í svipaðan streng og sagði að atvinnuleitin gengi nærri fólki. En hvað með að skipta um starfsvettvang og fara að vinna eitthvað allt annað. „ Hvað er átt við með því. Er þá ekkert hægt að gera við reynslu og þekkingu fólks sem það hefur komið sér upp á langri starfsævi. Hvað er átt við með eitthvað allt annað. Á ég að fara að gæta barna, sinna sjúku fólki. Ég er öll af vilja gerð veita mínum minnstu meðbræðrum aðstoð en það eru bara hlutir sem ég kann ekki,“ sagði Ragnheiður Gyða.

Þátturinn 50 plús er frumsýndur á Hringbraut á mánudagskvöldum klukkan 20.30. Hann er endursýndur á þriðjudögum og um helgar. Hér er linkur á þáttinn en hann er líka aðgengilegur Hringbraut.is

Ritstjórn mars 30, 2017 11:17