Fegurð og kyrrð innan seilingar

Gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu eftir Jónas Guðmundsson er aðgengileg og skemmtileg bók fyrir alla þá sá kunna að meta íslenska náttúru og það að ferðast undir eigin vélarafli. Jónas er þaulvanur göngumaður og auðheyrt að hann nauðaþekkir leiðirnar sem hann skrifar um. Hann hefur ríka frásagnargáfu og hefur lag á að draga fram áhugaverðar sögur og kennileiti.

Varla er hægt að hugsa sér skemmtilegri aðferð til að njóta útivistar og íslenskrar náttúru en að fara í gönguferðir um falleg svæði. Leiðirnar sem Jónas velur að fjalla um eru margar vel þekktar og vinsælar af göngufólki en aðrar nýstárlegri og til þess fallnar að kveikja hugmyndir og auka fjölbreytni hjá þeim sem daglega ganga um nágrenni höfuðborgarinnar.

Hvaleyrarvatn er fallegt og kyrrlátt

Nefna má að hann bendir á gönguleið í kringum Helgafell og aðra umhverfis Valahnjúka með viðkomu í Valabóli sem er lítill hellir í Valahnjúkum sem áður var notaður til fjárgeymslu. Gangnamenn notuðu hann gjarnan sem áningarstað og síðar sköpuðu. Í kringum hellinn er í dag afgirtur skógarreitur þar sem er mikið skjól og notalegt að fá sér nesti. Valahnjúkarnir gnæfa þar yfir og eru auðþekktir á tindunum sem eru skörðóttir og má gjarnan sjá úr þeim mannsmynd. Um Valaból liggur gamla Selvogsgatan.

Rétt sunnan Hafnarfjarðar er lítið fallegt vatn sem heitir Hvaleyrarvatn og fyrir ofan það er Selhöfði. Jónas fjallar um einstaklega fallega gönguleið umhverfis vatnið og upp á Selhöfða. Hann hefur sömuleiðis teiknað upp vatnahring í Heiðmörk við Elliðavatn sem er áreiðanlega ekki síðri. Í Leirvogsá er fallegur foss sem heitir Tröllafoss og Helgufoss er fyrir ofan Gljúfrastein. Jónas leggur til tvær gönguleiðir sem leiða göngumenn að þessum fallegu fossum. Marga fleiri einstaka staði mætti benda á sem koma við sögu í þessari flottu bók. Þeir hljóta að vera fáir sem ekki finna til löngunar til að reima á sig gönguskóna og arka af stað eftir að hafa flett henni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.