Gamall íslenskur málsháttur segir: „Ræðan er silfur en þögnin gull.“ Mannvinurinn, skáldið, rithöfundurinn, baráttukonan og hugsjónamanneskjan Maya Angelou var ekki sammála. Þegar hún var barn að aldri varð hún fyrir alvarlegu áfalli og talaði ekki í sex ár. En eftir að hún fann röddina aftur gætti hún orða sinna og leitaðist við að vera öðrum innblástur, huggun og leiðarljós. Enn í dag ná orð hennar að smjúga inn í sálir manna um allan heim og bæta líf þeirra.
Maya var aðeins fjögurra ára og Bailey bróðir hennar fimm ára þegar foreldrar þeirra skildu. Pabbi þeirra sendi þau með lest til móður sinnar og þar voru þau næstu þrjú árin. Vivian móðir hennar fékk þau til sín aftur að þeim tíma liðnum en þá bjó hún með kærasta sínum, Freeman að nafni. Hann nauðgaði Mayu litlu en hún sagði frá og bar vitni í réttarhöldunum yfir honum. Hann var dæmdur í fangelsi en myrtur um leið og hann var látinn laus. Í fyrsta bindi sjálfsævisögu sinnar, Ég veit af hverju fuglinn í búrinu syngur, gefur Maya í skyn að þar hafi móðurbræður hennar verið að verki. Barnið tók voðaverkið hins vegar svo nærri sér að hún hætti að tala. Í hennar huga höfðu orð hennar drepið mann.
Röddin var rám og stirð þegar fyrstu orðin komu að þögla tímanum loknum en Maya hafði að eigin sögn lært þá lexíu að orð hafa áhrif og þau hafa afleiðingar. Hún sat þó ekki aðgerðarlaus þótt hún væri hljóð því hún las allt sem hún komst yfir á þessum árum. En saga hennar sannar að hvorki er ræðan silfur né þögnin gull. Hvoru tveggja er hægt að nota til góðs ef valið er af kostgæfni. Maya hóf að skrifa og sagði í viðtali: „Hugmyndin er að skrifa þannig að fólk geti heyrt boðskapinn og hann renni gegnum heilann og beint til hjartans.“
Vildi syninum allt það besta
Og það tókst henni sannarlega. Orð hennar í bókum, ritgerðum, ljóðum, viðtölum og í söng hafa náð til fólks, setið í minninu og sett mark sitt á hjörtun. Hún varð einstæð móðir sautján ára þegar sonur hennar, Guy Johnson, fæddist. Hún var heilluð af barninu og ákveðin í að skapa honum gott líf. Hún vann við hvað sem bauðst, dansaði á börum, var maddama í vændishúsi fyrir lesbíur, kokkur á skyndibitastað og hreinsaði lakk af bílum með berum höndum.
Um tíma var hún gift grískum sjómanni, Tosh Angelos. Að hennar sögn áttu þau það sameiginlegt að lesa allt sem þau komu höndum yfir. Þegar hjónabandi þeirra lauk ákvað hún að halda eftirnafninu og aðlaga það aðeins og úr varð Angelou. Um það leyti fékk hún vinnu sem dansari í uppfærslu af Porgy og Bess og þurfti að ferðast með leikhópnum vítt og breitt um Norður-Ameríku og Evrópu. Hún þurfti þá að skilja son sinn eftir í umsjón ættingja, stundum vikum saman. Þrátt fyrir þetta voru tengslin milli hennar og barnsins sterk og kærleiksrík.
Faðir Mayu glímdi við fíknisjúkdóm og til er saga af því að þrettán ára gömul settist hún undir stýri á bíl og keyrði föður sinn áfengisdauðan heim. Það kom sér vel þá að hún var hávaxin og náði því niður á bremsu og bensíngjöf. Móðir hennar var ekki í neyslu en hún lifði mjög óhefðbundnu lífi. Hún var bæði ákveðin og sterk kona, lærð hjúkrunarkona en vann fyrir sér sem gjafari í spilavíti þar til hún opnaði og rak eigin fjárhættuspilabúllur. Hún trúði greinilega á að leyfa börnum að reka sig á í lífinu því þótt hún væri þeim systkinum Bailey og Mayu góð reyndi hún lítið að leiðbeina þeim eða aga þau. Fyrsta ástarsamband Mayu var til að mynda við fyrrverandi boxara sem barði hana sundur og saman og sakaði hana stöðugt um að halda framhjá sér. Móðir hennar frétti af þessu og fékk í lið með sér vin sinn, fann hana og kom henni undir læknishendur. Hún lét dóttur sinni þá í té byssu og sagði henni að skjóta kærastann ef hann svo mikið sem léti sjá sig í nágrenni við þær. Maya gerði það ekki en lét manninn vita að þótt hún hikaði við að skjóta hann væri móðir hennar til alls vís og það dugði. Hann lét hana vera upp frá því.

Maya með syni sínum Guy.
Kraftaverk að sonurinn lifði
Auðvitað fer ekki hjá því að manneskja beri mark slíks uppeldis og áfalla. Maya var engin undantekning. Ástríða hennar fyrir bóklestri og skrifum leiddi hana unga til New York og þar gekk hún í Harlem Writers Guild. Hún heillaðist af boðskap Martins Luthers King og var einlægur talsmaður friðsamlegra mótmæla og þrýstings til að ná fram umbótum í réttindamálum svartra. Hún fékk vinnu sem samhæfingarstjóri í samtökum Kings og tók virkan þátt í hreyfingu svartra sem börðust fyrir borgaralegum réttindum sínum á sjöunda áratugnum.
Í gegnum það starf kynntist hún og varð ástfangin af suðurafríska baráttumanninum Vusumzi Make. Þau giftust og settust að í Kaíró í Egyptalandi en skildu fljótlega. Sjálfstæð og einörð bandarísk kona átti ekki vel við suðurafrískan mann með mun hefðbundnari, á þess tíma vísu, hugmyndir um hlutverk kvenna og stöðu í lífinu. Guy flutti með móður sinni út og hóf háskólanám í Gana. Ríkið hafði þá náð sjálfstæði og komið hafði verið á lýðræði. Margir þeldökkir Bandaríkjamenn sóttu þangað bæði innblástur og hugrekki á þessum árum. Guy lenti hins vegar í alvarlegu bílslysi og var ekki hugað líf um tíma. Maya flýtti sér strax til hans og fyrir eitthvert kraftaverk lifði hann af.
Til að vera hjá honum sótti Maya um og fékk vinnu í háskólanum í Accra. Við tók góður tími. Hún naut sín í hópi menntafólks og listamanna og iðulega sköpuðust fjörugar umræður á heimili hennar um heimspeki, mannréttindi og framtíð þeldökkra í Norður-Ameríku og Afríku. Á þessum árum kynntist Maya Malcolm X, en hann ferðaðist til Afríku til að kynnast rótum og menningu Afríkubúa. Hún ákvað að snúa aftur og hjálpa honum að koma á fót samtökunum Organization of Afro-American Unity. Hann var myrtur árið 1965 og aðeins þremur árum seinna var Martin Luther King einnig myrtur. Svo óheppilega vildi til að morðið á King bar upp á fertugsafmæli Mayu, 4. apríl 1968. Af þeim sökum gat hún lengi ekki haldið upp á afmælisdaginn sinn.

Maya sá fyrir sér með leik og söng á sínum yngri árum.
Útgefandi hvatti hana til að skrifa
Með þeim Malcolm X og Martin Luther King hurfu tveir helstu leiðtogar þeldökkra í Bandaríkjunum og vonin dofnaði hjá ótalmörgum fylgjendum þeirra, Mayu þar á meðal. Hún leitaðist þó alltaf við að halda í bjartsýnina, jákvæðnina og kraftinn. Hún var að upplagi glaðlynd og að auki einstök sagnamanneskja. Vinir hennar nutu þess að hlusta á hana segja sögur og nokkrir voru svo heillaðir að þeir létu útgefanda vita af frásagnargáfu hennar. Það varð til þess að hann hvatti hana til að skrifa bók um líf sitt. Í fyrstu neitaði hún og sagði að hjarta sitt slægi meira í leikhúsinu og ljóðagerðinni. Hann skaut þá að henni að það væri erfitt verk og ekki öllum gefið að geta skrifað um eigið líf og þá áskorun stóðst hún ekki.
Árið 1969 kom svo út fyrsta bókin af sjö sem allar fjalla um ævi hennar. Ég veit af hverju fuglinn í búrinu syngur, Samankomin í mínu nafni, Syngjum og dönsum dátt sem um jól, Guðsbörn þurfa gönguskó, Söng fleytt upp til himins, Konuhjarta og Me and Mom eru allar ævisögulegar en sex þeirra hafa komið út á íslensku. Bækurnar náðu metsölu víða um heim og hafa verið þýddar á ótal tungumál. Kærleiksríkur friðar- og fyrirgefningarboðskapur Mayu talar til fólks hvar sem það er statt í heiminum.
Mjög margar konur tengja við og hafa sótt huggun í ljóð hennar Still I Rise. Sjónvarpskonan Oprah Winfrey leit á Mayu sem nokkurs konar aukamóður og þær voru miklar og nánar vinkonur. Hún kom oft í þáttinn til Opruh og deildi lífslexíum og fallegum hugsunum með áhorfendum. Þriðja ritgerða- eða esseyjubók Mayu heitir einmitt Letters to My Daughter. Hún tileinkar bókina dótturinni sem hún aldrei eignaðist, en þar er finna margvíslegar ráðleggingar og uppbyggilegar vangaveltur.
Maya Angelou var stór í sniðum hvar og hvernig sem á hana er litið. Hún starfaði við ótalmargt um ævina en lengst af sem leikkona, dansari, rithöfundur, skáld, fyrirsæta og fyrirlesari. Hún var mjög hávaxin, 180 cm, og stórskorin í andliti. Hún var fullkomlega meðvituð um að fegurð hennar væri ekki hefðbundin eða á þann veg að félli fjöldanum en sendi þann boðskap að útlitið hefði aldrei hindrað hana eða skipt máli á nokkurn hátt. Hún giftist tvisvar og átti marga elskhuga. Ekkert sambanda hennar entist ævina á enda en að hennar mati var það ekki það mikilvægasta við ástina. Hún veitti kærleika og uppörvun öllum sem kynntust henni, hvatti alltaf til umburðarlyndis, fyrirgefningar og þakklætis. Hún er öllum sem kynntust henni ógleymanleg. Bill Clinton bað hana að yrkja ljóð og flytja við innsetningu sína í embætti. Hún gerði það og hann sagði að hann hefði vitað að nærvera hennar væri sláandi og hún sjálf gædd rödd Guðs. Þegar hann sagði þetta svaraði Maya að bragði: „Nei, ég er aðeins Dr. Angelou.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.