Ég reyndi að halda rónni í gegnum þetta allt

Ingibjörg Sigurðardóttir hefur lifað margt á langri ævi. Hún fékk í vöggugjöf marga góða eiginleika sem hafa reynst henni vel á lífsleiðinni sem hefur sannarlega ekki alltaf verið auðveld. Rúmlega þrítug fylgdi hún eiginmanni sínum, Kolbeini Ólafssyni, til London þar sem hann dvaldi á Hammersmith-sjúkrahúsinu til lækninga. Ekki var um að ræða á þeim tíma að fólk í þessari stöðu fengi nokkurn styrk frá Tryggingastofnun en Inga hóf með dugnaði og kjarki að reka fyrirtæki í London til að eiga fyrir salti í grautinn og hafa húsnæði fyrir sig og börnin. Hún snéri til baka sem ekkja. Saga Ingu er góð áminning um það sem áunnist hefur og hvað við höfum það um margt gott í dag. Þetta er saga af konu sem reif sig upp með ung börn til að geta veitt manninum sínum allan þann stuðning sem hún mögulega gat í erfiðum aðstæðum.

Fjölskyldan á Akureyri. Inga er við hlið móður sinnar.

Ingibjörg, eða Inga, eins og hún er ávallt kölluð, fæddist á Akureyri 1940 og ólst upp í stórum og líflegum systkinahópi. Faðir hennar var prentsmiðjustjóri og móðirin húsmóðir en fjölskyldan kom sér upp sumarhúsi í Sellandi í Fnjóskadal og þar stunduðu Sigurður og kona hans, Kristín, skógrækt og er Selland enn unaðsreitur stórfjölskyldunnar. Inga stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri en lagði svo fyrir sig hárgreiðslustörf. Hún gerðist síðar veitingastjóri á Hótel Loftleiðum og hótelstjóri, hér heima og í síðar Lúxemborg, með seinni eiginmanni sínum, Kristjáni Karli Guðjónssyni flugstjóra, á afar fallegu hóteli sem var mjög vinsælt af Íslendingum.

Kolbeinn ásamt móður sinni Mettu.

Ættgengur óþekktur sjúkdómur

Árið 1960 giftist Inga Kolbeini Ólafssyni. Hann var haldinn blóðsjúkdómi sem var í raun óþekktur. Sjúkdómurinn var ættgengur og lést faðir hans úr honum en Kolbeinn hafði barist við þennan sjúkdóm frá 17 ára aldri. Öll systkini Kolbeins fengu sjúkdóminn, þar á meðal yngsti bróðir hans sem lést aðeins unglingur að aldri. Systir hans, Kolbrún, sem var yngst allra kvenna á Íslandi til að fara á Ólympíuleika, eða einungis 15 ára þegar hún keppti á Ólympíuleikunum í London 1948 í sundi, stakk sig þar á rósarrunna, fékk sýkingu og náði sér aldrei eftir það. Hún lést rúmlega þrítug.

Kolbeinn þótti glæsimenni, var mjög dökkur yfirlitum, hávaxinn og svipmikill, og segir Inga að hann hafi verið mjög fallegur maður. Hann var prúðmenni, hafði góðar gáfur og ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd. Kolbeinn lærði húsgagnasmíði, rak eigið fyrirtæki og var sagt að hann hefði engu minna skilað í starfi en vinnufélagarnir sem voru heilbrigðir. Hann hafði mikið jafnaðargeð sem reyndist honum vel í veikindunum en hann tók þeim af æðruleysi og hélt í vonina án þess að vera óraunsær. Kolbeinn átti við veikindi að stríða meira og minna allan búskap þeirra Ingu og var sagt að Landspítalinn hafi verið hans annað heimili. Þrátt fyrir veikindin stundaði Kolbeinn glímu, keppti í henni með íþróttafélaginu Ármanni og skíðaði einnig með félaginu en hann var þekktur skíðaíþróttamaður á sinni tíð.

Inga og Kolbeinn.

Neyðin kennir naktri konu að spinna

Þegar Inga var rúmlega þrítug og Kolbeinn að nálgast fertugt, var hann sendur til dvalar og rannsókna á Hammersmith-sjúkrahúsið í Vestur-London og var þar í ár. „Það vissi enginn nákvæmlega hvað var að Kolla. Þetta var blóðsjúkdómur sem veikti ónæmiskerfið verulega þannig að þessu fylgdi mikil ónæmisbæling og hvítu blóðkornin voru nánast engin hjá sjúklingunum. Þau voru öll með þetta systkini hans sem voru fimm. Það var ákveðið að senda Kolla á sjúkrahús í London í ár.“

Á þessum tíma var enga aðstoð á fá í gegnum tryggingar fyrir fólk sem þurfti að fylgja ástvinum sínum sem fóru til lækninga eða meðferðar erlendis. Inga lét það ekki aftra sér og sat ekki heima þar sem hún hafði öruggt skjól og atvinnu, heldur reif sig upp og fór með börnin til að þau gætu öll verið sem mest hjá Kolbeini. „Ég tók þá ákvörðun að fara með Kolla og taka börnin okkar tvö með, Kolbrúnu og Sigurð, Sólveig elsta dóttir mín, var eftir heima. Helgi Valdemarsson læknir var starfandi á Hammersmith-sjúkrahúsinu og hann og kona hans, Guðrún Agnarsdóttir, læknir og síðar alþingiskona, vildu allt fyrir mig gera. Ég útvegaði mér atvinnuleyfi, hóf störf á hárgreiðslustofu á Sheperd´s Bush sem er nálægt spítalanum. Eftir svolítinn tíma leigði ég hárgreiðslustofuna og rak hana. Við bjuggum ekki langt frá en ég tók lestina í vinnu. Ég fór eldsnemma á hverjum morgni og krakkarnir gengu í skólann. Eftir vinnu fórum við á spítalann að heimsækja Kolla. Þetta voru langir dagar,“ viðurkennir Inga og má nærri geta um álagið sem hvíldi á henni.

Hvernig gekk að reka fyrirtækið? „Það gekk svakalega vel. Faglega var þetta mjög góður tími, ég hafði mína föstu kúnna, reksturinn gekk vel og ég sá fyrir okkur og börnunum,“ segir Inga og brosir en bætir svo við blátt áfram „en ég var annars alltaf ein.“

Inga með Barböru bróðurdóttur sinni lítilli.

Inga segir að í London hafi Kolbeinn í fyrstu komið heim til hennar og barnanna í stuttar heimsóknir og jafnvel helgarfrí. „Þó að ég hefði viljað fá hann oftar þá var það ekki í boði en Kolla og Siggi voru einstaklega góð við pabba sinn. Smám saman dró úr þessum heimsóknum og heilsu Kolla hrakaði. Það var ýmislegt reynt og Kolla, dóttir okkar, gaf honum merg og Elísabet, systir hans, fór í mergskipti til Svíþjóðar en dó ung.“

Hefur þetta komið fram hjá þínum börnum? „Nei, guði sé lof, þetta er undarlegur sjúkdómur,“ segir hún með áherslu og bætir við, „það er magnað því þessi sjúkdómur hefur komið fram í afkomendum systkina Kolla. Öll börn Elísabetar fengu þennan sjúkdóm og tvær konur af kynslóð barnanna minna eru dánar úr þessum sjúkdómi. Börn Elísabetar, systur Kolla, mega ekki eignast börn því sjúkdómurinn myndi berast í þau. Ef systkinin veiktust illa, eða fengju sýkingu þá var eins og þau næðu sér ekki upp úr því. Kolli fékk lungnabólgu og það var fjarlægt úr honum annað lungað en hann jafnaði sig aldrei eftir það.“

Stóð uppi ung sem ekkja

Inga með börnum, tengdabörnum og ömmubörnum.

Inga ákvað á einum tímapunkti að senda börnin heim því heilsu Kolbeins hrakaði töluvert og nokkuð ljóst hvert stefndi. Bjarni, bróðir hennar, flaug til London til að veita henni stuðning. „Ég fór upp á spítala alveg grunlaus einn sumardag í ágúst eftir vinnu og átti mér einskis ills von en Kolbeinn lést þá um kvöldið. Það var ekkert sem benti til að hann væri að fara þarna. Hann dó 17. ágúst 1976. Ég var ein hjá honum þegar hann kvaddi en Helgi Valdemarsson læknir kom svo þegar hann frétti af þessu. Bjarni bróðir náði ekki að einu sinni sjá hann, þetta bara svo brátt að. Hann var 40 ára, í blóma lífsins þegar hann dó. Allan þennan tíma sem við vorum í London fór ég daglega á spítalann og reyndi að vera eins lengi og ég gat en þurfti að gefa börnunum kvöldmat og koma þeim í háttinn. Svo fór þetta svona. Þetta var hryllilega erfitt og mikil reynsla. Ég reyndi að halda rónni í gegnum þetta allt og mér tókst það.“

Inga fór heim þegar Kolbeinn lést. „Það þurfti að senda kistu Kolla heim sem var mjög dýrt en frændfólk í föðurætt barnanna minna sendi peninga til að flytja hana til Íslands. Hann var svo jarðaður stuttu síðar í Reykjavík og svo tók lífið við. Við fluttum í húsið okkar í Vesturberginu sem Kolli hafði klárað meðan hann hafði heilsu til en hann var mikill hagleikssmiður. Ég fékk starf á Hótel Loftleiðum sem veitingastjóri og var þar í nokkur ár.“

Fjögur systkinanna á góðri stund. Þór, Inga, Oddur og Ragnar.

Fann ástina á ný mörgum árum seinna 

Árin liðu og Inga fann ástina að nýju þegar hún giftist Kristjáni Karli Guðjónssyni flugstjóra og með honum eignaðist Inga eina dóttur, Tinnu. Þau fluttu norður þegar honum bauðst staða þar en Inga sá um rekstur tveggja Eddu hótela fyrir norðan. Um sjö árum seinna leituðu þau á vit ævintýranna, fluttu til í Lúxemborgar, þegar þau keyptu og ráku glæsilegt hótel þar, Le Roi Dagobert. Hótelið var gamalt óðalssetur en það hafði verið draumur hjá þeim alllengi að reka hótel erlendis. „Það var mjög vinsælt af Íslendingum enda var hótelið afar fallegt og auðvitað var þetta lifandi og mjög skemmtilegt starf.“

 

Lampaskermarnir hennar Ingu.

Hjónin fluttu heim 1994 og settu á stofn lampaskermagerð. Inga er listræn og hefur gott auga og það lék allt í höndum Kristjáns. „Mér fannst svo gaman að búa til skermana. Velja litasamsetningar o.fl.  þetta átti vel við mig,“ segir hún glöð í bragði en skermarnir komu í ótal gerðum, voru seldir í verslunum og nutu vinsælda enda fallegri en margir verksmiðjugerðir skermar.

Inga varð ekkja í annað sinn þegar hún missti Kristján Karl árið 1999 úr krabbameini. Hún hélt áfram að búa til lampaskerma en settist svo í helgan stein. Hún hefur ferðast og notið lífsins seinni árin með sínum nánustu, heldur í lífsgleðina og húmorinn og hláturinn er aldrei langt undan hjá þessari einstöku konu.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna