Þótt enn hafi ekki frést af stórum bókabrennum á þessari öld eru bókabönn algeng víða um heim. Í Bandaríkjunum hafa bókasafnsstarfsmenn, kennarar og fræðimenn áhyggjur af því að sífellt fleiri bækur eru gerðar útlægar úr söfnum þar í landi og margar þeirra alfarið bannaðar í sumum ríkjum, enda er þetta í anda stjórnarinnar í Washington. Þjónar það hins vegar einhverjum tilgangi að banna og eru bækur virkilega svo hættulegar að æskilegt sé að banna þær eða brenna?
Penninn er máttugri en sverðið er haft eftir breska rithöfundinum Edward Bulwer Lytton árið 1839 og víst er að bækur hafa oft verið hreyfiafl breytinga. Saga Charles Dickens um munaðarleysingjann Oliver Twist breytti varanlega aðstæðum götubarna í London á nítjándu öld og bætti mjög aðstæður fátæklinga. Þessi bók hrinti einnig af stað öldu sambærilegra bóka í mörgum löndum. Bláskjár eftir Franz Hoffman, Palli sigurvegari eftir Martin Alexander Nexø og Hilda á Hóli eftir Mörthu Sandwall-Bergström.
The Jungle eftir Upton Sinclair kom hreyfingu á verkalýðsmál í Bandaríkjunum og breytti varanlega hugsun manna gagnvart aðstæðum verkafólks og framkomu margra atvinnurekenda gagnvart vinnuaflinu. Þáverandi Bandaríkjaforseti, Theadore Roosevelt, hrinti í kjölfar útkomu hennar af stað rannsókn á aðstæðum í kjötiðnaðarfyrirtækjum í Chicago árið 1906 og niðurstöður hennar voru grunnurinn að bandarískri löggjöf um eftirlit og aðhald í matvælaframleiðslu. 1984 og Animal Farm eftir Orwell voru einnig áhrifamiklar á sinni tíð og sömuleiðis Saga þernunnar eftir Margaret Atwood. Allar þessar bækur vöruðu við andvaraleysi í mannréttindamálum.
Bókabrennur gamall siður
Bókabrennur eru líklega jafngamlar því að maðurinn fór að setja orð á pappír eða skinn. Sagan segir í það minnsta að kínverski keisarinn, Qin Shi Huang, þekktastur fyrir leirhermennina sem hann lét búa til, hafi efnt til mikillar brennu á öllum bókum í söfnum landsins sem ekki hugnuðust hugmyndafræði hans. Tilgangurinn var að þurrka út allt annað. Þar brunnu ljóð, heimspekiverk og sagnfræðibækur. Þetta var árið 213 fyrir Krist.
Í fótspor hans fylgdi Mao Zedong mörgum öldum síðar því hann taldi sig þurfa að gera menningarbyltingu og innleiða nýja hugsun meðal þjóðar sinnar rétt eins Qin. Það var einnig þekkt og í raun hluti af hernaði fyrri tíma að innrásarherir brenndu bækur þegar þeir höfðu náð borgum og löndum á sitt vald. Með því vildu þeir sýna yfirráð sín, festa sig í sessi og útrýma menningu og samheldni hinna sigruðu. Þetta er iðkað enn í dag.
Brenndu ómetanleg handrit
Þegar íslömsku samtökin al-Qaida réðust inn í Malí og Timbuktú árið 2012 var meðal skotmarka þeirra ómetanleg gömul handrit, bækur sem þeir ætluðu sér að brenna. Þeir náðu ekki að klára ætlunarverk sitt því nokkrir innfæddir menn þar á meðal Abdel Kader Haidara, hættu lífi sínu til að verja verkin og komu þeim undan. Þeim tókst að smygla 350.000 handritum út úr landinu og sýndu þar með hversu djúpa virðingu menn bera fyrir þjóðararfi sínum, rétt eins og við Íslendingar gerðum reyndar að þegar við börðumst við að fá handritin okkar heim frá Danmörku.
Fréttir af því að vopnaður maður hafi ruðst upp á svið í the Chautauqua Institution í New York og stungið rithöfundinn Salman Rushdie fóru eins og eldur í sinu um heimsbyggðina árið 2022. Hann lifði af fólskulega árás og skrifaði um hana áhrifamikla bók sem kom út hér á landi í fyrra. Ellefu árum af ævi sinni neyddist Salman til að lifa í felum eftir útkoma bókarinnar Söngvar Satans, árið 1988 eða þar til hann ákvað að nú væri nóg. Líklega bjóst enginn við því lengur að vígamenn sætu um höfundinn enda hafði hann fengið að lifa í friði í ríflega áratug.
Salman er hins vegar langt frá því að vera eini rithöfundurinn í gegnum söguna sem þurft hefur að óttast um líf sitt og þeir eru margir á flótta undan öfgaöflum í heimalöndum sínum eða hatursmönnum sem líkar ekki við skrif þeirra. Nefna má Lydiu Cacho Ribeiro frá Mexico en hún bjó við ofsóknir og hótanir árum saman. Hið sama má segja Shakthiku Sathkumara frá Sri Lanka, Stellu Nyanzi frá Úganda, Nedim Turfent frá Tyrklandi og Galal El-Behairy, frá Egyptalandi. Sumt þetta fólk var fangelsað og sat inni árum saman án þess að mál þeirra fengju meðferð fyrir dómstólum. Allt vegna þess að þetta hugrakka fólk ákvað að verja tjáningarfrelsið og segja frá óréttlæti á skáldlegan hátt.
Tóma bókasafnið undir fótum manna
Í Berlín er að finna áhrifamikið listaverk, Tóma bókasafnið. Því var komið fyrir undir Bebelplatz árið 1995 og því var ætlað að vera ævarandi minnisvarði um bókabrennur nasista á torginu 10. maí 1933. Höfundur þess er ísraelski höggmyndasmiðurinn og skúlptúristinn Micha Ullman.
Furðuleg bönn
Oft er erfitt að skilja hvers vegna bækur eru bannaðar. Dæmi um það er barnabókin The Rabbits Wedding Garth Williams var bönnuð í Alabama þegar hún kom út árið 1958 og lengi fram eftir síðustu öld. Hvað var svona hættulegt við þessa sakleysislegu barnabók um brúðkaup tveggja kanína? Jú, önnur kanínan var svört en hin hvít og yfirvöld í Alabama óttuðust að það gæti kveikt óæskilegar hugmyndir í hugum fólks um að hjónabönd milli para með ólíkan litarhátt væru í lagi og jafnvel æskileg.
Saga Kenneth Grahame, Wind in the Willows var líka sett á bannlista víða þegar hún kom fyrst út. Ástæðurnar, jú sumir töldu hana gera lítið úr hinum ráðandi stéttum og gefa til kynna að meiri hamingju væri að finna í einföldu lífi dýranna á ánni en á óðalsetrinu. Það var auðvitað kommúnískur áróður. Eins lásu sumir meira en vináttu í samband körtunnar og moldvörpunnar og óttuðust að hægt væri að ýta samkynhneigð að börnum með þessu móti.
Bókabönn og bókabrennur hafa hins vegar ekki alltaf haft þau áhrif sem þeir sem standa fyrir þeim óska eftir, eiginlega þvert á móti. Það er vel þekkt að sé bók bönnuð sækir fólk í að komast yfir þær og lesa og sá boðskapur sem er brenndur á báli stingur alltaf upp kollinum aftur því hann geymist í hugum fólks. Sú alda banna og útskúfunar ýmissa bóka í Bandaríkjunum sem nú gengur yfir og er studd af forsetanum og fylgismönnum hans mun því líklega ekki skila árangri í samræmi við erfiðið.
Fleiri bækur sem hafa verið bannaðar víða í gegnum söguna:
- 1984 by George Orwell.
- The Adventures of Huckleberry Finn by Mark Twain
- The Catcher in the Rye by J. D. Salinger.
- The Color Purple by Alice Walker.
- The Great Gatsby by F. Scott Fitzgerald
- I Know Why the Caged Bird Sings by Maya Angelou
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.