Við ystu mörk Íslands

Enn er hægt að ferðast um Ísland og njóta dásamlegrar náttúru ótruflaður af umferð, gjaldskyldu og mannmergð. Það besta er að þessir staðir eru ekki langt frá vinsælustu ferðamannastöðunum. Melrakkaslétta og Langanes eru meðal þessara svæði og meðan fólk flykkist að Mývatni, Goðafossi, Dettifossi og í Hljóðakletta og Ásbyrgi er Rauðanes enn fyrir utan kortið þeirra.

Áður en haldið er af stað í ferð að þessum ótrúlegu klettamyndunum er gott að velja sér gististað og taka daginn í þetta. Við gistum í Brekku í Aðaldal í mjög góðu herbergi í smáhýsi. Þar er einnig rekið veitingahús og hægt að fá frábæran þriggja rétta kvöldverð, fyrirtaksmorgunverð og nesti með í leiðangur dagsins ef á þarf að halda en það er einmitt góð hugmynd ef menn ætla að ganga Rauðanes. Engar uppsprettur eða lækir eru á nesinu og göngumenn ættu því að minnsta kosti að hafa með sér góðar birgðir af vatni.

Rauðanes er í Þistilfirði um það bil 30 km vestan við Þórshöfn. Búið er að stika hring um nesið og gangan er um það bil 7 km í heildina. Í Rauðanesi er lundabyggð en margar aðrar sjófuglategundir verpa þar og fuglaáhugamenn ættu að taka með sér sjónauka. Á góðviðrisdegi er þar stórkostlegt útsýni yfir hafið og nærliggjandi byggðir en það sem helst dregur að eru einstakar og fjölbreyttar bergmyndanir. Þar er að finna stuðluð hraunlög, bólstraberg og margvísleg setlög sem sjórinn hefur slípað og mótað í hella, gatkletta, bergnasir og stapa.

Gatklettar, hellar og drangar

Einn þessara er kletturinn Gluggur. Brimsorfinn í gegnum aldirnar þannig að nú er gat í gegnum hann og steinbogi liggur yfir bjargbrúnina fyrir hugrakka að feta. Marga hellisskúta má sjá meðfram ströndinni og skammt frá henni stendur drangurinn Brík. Á fjöru má ganga niður í Flæðifjöru og enn einn klettanna heitir Gatastakkur. Tveir stórir drangar, Stakkarnir, eru á norðanverðu nesinu og þar fyrir utan Stakkatorfa en hana byggja lundar. Fallegar stuðlabergsmyndanir má svo sjá í Lundastöpum. Þar er ekki lengur að finna neina lunda en klettarnir eru einstaklega fallegir.

Það er mikið ævintýri að ganga þarna um og seinni part sumars má finna mikið af berjum á leiðinni. Nesið er allt lyngi vaxið og berin safarík og stór. Það er gott að vera vel undirbúinn undir svona göngu og gefa sér góðan tíma til að njóta.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.