Ekki fleiri kastalar og virki, takk!

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Ég hef smám saman áttað mig á því að það eru ákveðin atriði sem er ætlast til að maður geri sem ferðalangur. Eitt er að heimsækja kastala og gömul virki. Hinn frægi staður, Alhambra í Granada á Spáni, er á þessum lista.

Einhverra hluta vegna höfða kastalar og virki ekkert sérstaklega til mín. Ég er búin að heimsækja Granada tvisvar og hef þá verið svo heppin að það hefur verið „uppselt“ inn í herlegheitin. Við höfum því látið okkur nægja að njóta útsýnisins yfir Alhambra úr fjarlægð og þrætt þröngar fallegar götur borgarinnar í staðinn og skoðað mannlífið.

Fyrir nokkrum dögum vorum við parið í Granada í þriðja skipti. Nú er vetrartími og því færri ferðamenn en oft. Við urðum sammála um að nú hefðum við ekki afsökun lengur. Í Alhambra skyldum við.

Með nesti og nýja skó fórum við í litla búð í brattri götunni sem liggur upp að „dýrðinni“ og keyptum aðgöngubréf, ekki miða, heldur heilsíðu. Stúlkan vildi líka sjá vegabréfin okkar. Mitt var niðri á hóteli en ég var með mynd af því í símanum. Maðurinn minn var með ökuskírteini sem dugði honum. Nei símamyndin mín dugði ekki. Við viljum eitthvað handfast, sagði stúlkan.

Síðan  opnaði hún þá glufu að ég gæti farið með símamyndina að aðalinnganginum og fengið þar uppáskrifað bréf um að ég væri lögleg og að ég væri ég.

Við skröltum upp bratta brekkuna og komum að inngangi. Stór, einkennisklæddur maður skoðar aðgangsblaðsíðurnar okkar og við fórum inn. Við héldum að þar með værum við í höfn. Við fórum inn í eina byggingu og skoðuðum þar myndir og styttur af ýmsum fornum hetjum Spánverja og myndir af Maríu mey með Jesúbarnið, missorgmædda á svip.

Klukkan eitt átti stóra stundin að renna upp. Þá yrði okkur hleypt inn í höllina sjálfa í fylgd með leiðsögumanni. Skjölin okkar voru grandskoðuð við innganginn og ég dreg fram símamyndina af vegabréfinu. – Nei vinan, Vegabréf í handföstu formi – ekkert svind með símamynd.

Mér var aftur vísað á aðalinngang þar sem ég gæti fengið aukaskjal sem myndi opna mér allar dyr. Hitinn jókst og mér var sagt að 500 metrum ofar í brekkunni væri aðalinngangurinn. Þegar þangað kom var löng biðröð og klukkan tifaði.  Ég spurði starfsmann hvort hann teldi að ég myndi fá afgreiðslu á innan við klukkutíma. Ég fékk hvorki loforð né uppörvun. Þar með var þolinmæði minni lokið. Þessu nennti ég ekki.

Við ákváðum að þessi Alhambrahöll mætti bara eiga sig og öll þessi spánska skriffinnska. Loks þegar ég ætlaði að vera nútímaleg með vegabréfið mitt í símanum – gekk ég á aldafornan múrinn.

Það hefur mikið verið rætt um gjaldtöku á ferðamannastöðum á Íslandi. Ég er oft spurð hvort ekki sé gjaldtaka t.d. inn í Dimmuborgir sem við kynnum fyrir ferðamönnum sem The Black Castle. Þeir verða hissa og glaðir. Að sjálfsögðu eru tvær hliðar á því máli en ég vona svo sannarlega að ef og þegar kemur til gjaldtöku á eftirsóknarverður stöðum á Íslandi verði aðgerðin einföld og krefjist hvorki vegabréfs né aðgangsmiða á stærð við blaðsíðu í stórri bók.

En fleiri verða ekki heimsóknir mínar í erlend virki og hallir. Slík fyrirbæri mega eiga sig fyrir mér. Mér duga Dimmuborgir.

Sigrún Stefánsdóttir febrúar 8, 2024 07:00