Ætlaði aldrei að vera í Ameríku til eilífðar

Svafa með samstarfskonum í Tanzaníu

Þegar Svafa Ásgeirsdóttir var að alast upp í Keflavík í hópi 8 systkina, óraði hana ekki fyrir því að hún ætti eftir að ferðast út um allan heim. Til fjarlægra staða eins og Nígeríu, Víetnam og Equador, svo bara örfáir séu nefndir. En það urðu örlög hennar að búa í Bandaríkjunum í 25 ár og starfa að mannúðar- og þróunarverkefnum sem leiddu hana til að mynda til Afghanistan.  Hún var sofandi í húsi skammt frá forsetahöllinni þegar sjálfsmorðsárás var gerð á höllina með meðfylgjandi sprengingum og byssuskotum. „Ég hef aldrei verið svona snögg að klæða mig, taka hjálminn og skothelda vestið og hlaupa út úr herberginu“, segir hún. Ferðalögunum fylgdi mikið álag. „Einu sinni vaknaði ég og mundi ekki í hvaða landi ég var“, segir hún og hlær, en bætir því við að það hafi verið mikil forréttindi að fá að ferðast svona mikið og kynnast innfæddum.

Fannst ég komin hálfa leið heim

Svafa sem var þá fráskilin tveggja barna móðir í Álfheimunum, ákvað að fara til Bandaríkjanna í nám árið 1993. Eldri dóttirin sem gekk í Kvennaskólann í Reykjavík vildi ekki fara með, þannig að Svafa flutti með yngri dóttur sína til Colorado og settist þar á skólabekk. Hún tók masterspróf í University of  Denver í alþjóða stjórnsýslu með áherslu á mannréttindi og fór fljótlega að vinna hjá Samtökum atvinnulífsins þar ytra. „Ég fluttist svo seinna til austurstrandarinnar. Þá fannst mér ég komin hálfa leið heim. Það var stóra málið hjá mér að ég ætlaði aldrei að setjast að í Ameríku“, segir hún „ En svo voru liðin 6 ár og dóttir mín var orðin unglingur og búin að missa af öllu heima og mig lanaði að fá meiri reynslu í Bandaríkjunum í tengslum við námið sem ég var að ljúka.  Svo ílengist maður“.

Svafa búin að koma sér vel fyrir í íbúðinni í Vesturbænum

Festi ekki rætur

„En ég festi ekki rætur og ætlaði aldrei að vera úti til eilífðar. Ég bjó mér til heimili, en tengdist ekki bæjarfélaginu mínu og tók ekki þátt í neinu. Ég var alltaf að vinna. Maður tengist aldrei neinu þegar maður er alltaf að ferðast. Ef hugmynd kemur upp um að sækja námskeið til dæmis, er spurningin alltaf. Verð ég heima til að taka þátt?“.   Svafa sótti aldrei um ríkisborgararétt í Bandaríkjunum, ekki fyrr en lögum var breytt hér heima og það varð leyfilegt að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt. “Þá mátti ég kjósa og fékk um leið tengingu við samfélagið. Ég er manneskja sem kýs í öllum mögulegum kosningum, vil vera með í ráðum“, segir hún kankvís.

Fór að ferðast fyrir Rauða krossinn

Störf Svöfu í gegnum tíðina, hafa yfirleitt tengst mannúðarmálum og þróunarhjálp. Hún hefur unnið bæði hjá fyrirtækjum og stofnunum og fór til dæmis að vinna fyrir Rauða krossinn árið 2000. „Þá byrjaði ég strax að ferðast og ferðalögin jukust svo til muna þegar á leið“, segir hún. „Ég var að heimsækja verkefnin okkar og var með þrjálfun og eftirlit fyrir þá sem voru að vinna að verkefnunum á hverjum stað. Þetta voru verkefni á Indlandi, í Víetnam, Kambodíu, Nígeríu, Guatemala, Equador og Kolombíu. En eftir 8 ár hjá Rauða krossinum, þar af tvö ár í höfuðstöðvunum í Genf, langaði mig að breyta til“.

Kona með bala á höfðinu og barn á bakinu. Tekið á ferðalagi í Tanzaníu

Með þrjár töskur tilbúnar

Svafa fór þá að vinna hjá fyrirtæki sem tekur að sér þróunarverkefni fyrir Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið. En þegar henni var boðið að taka við uppbyggingu nýrrar deildar í fyrirtæki sem var í sama geira, stóðst hún ekki freistinguna. „Þetta var svo skemmtilegt að ég gleymdi mér í vinnu og vann yfir mig. Eitt árið var ég 60% af tímanum á ferðalögum. Ég ferðaðist alltaf um helgar og þá missir maður hvildartimann sinn. Á þessum tíma fór ég oft til Afghanistan, Pakistan og Jemen. Það var erfitt að vera á þessum stöðum. Ég var mikið í „problem solving“ þ.e. aðstoðaði fólk til að leita lausna á ákveðnum vandamálum. Ég átti sérstakan klæðnað til að nota í löndum múslima og var stundum með þrjár ferðatöskur tilbúnar fyrir hin ýmsu svæði“.

Ofgerði sér

Svafa heldur áfram frásögn sinni. „Árið 2016 fékk ég malaríu í Nígeríu og matareitrun á sama tíma. Ég lá fárveik á hótelinu og þegar ég varð ferðafær, fór ég til í Svíþjóðar þar sem eldri dóttir mín og tengdasonur voru í námi. Ég var búin að ofgera mér, fór til Bandaríkjanna og sagði upp vinnunni. Þessum ferðalögum varð að linna. Ég vann sjálfstætt að smærri verkefnum á meðan ég var að ná mér, en réði mig svo hjá þróunarsamvinnufyrirtæki sem heitir Counterpart International.  Ég vinn fyrir það í fjarvinnu hér heima í 75% starfi. Ég vissi að það myndi taka tíma að lenda og koma sér aftur fyrir hér heima“.

Vildi ekki verða gömul í Ameríku

Svafa keypti sér íbúð í gömlu húsi í Vesturbænum. Heimilið er fallegt og áberandi eru munir sem hún hefur eignast á ferðalögum sínum um veröldina. Sjálf er hún komin yfir sextugt, orðin tvöföld amma, með hvítt, fallegt hár sem hún klippir stutt. Hún á tvær dætur, önnur býr á Íslandi með eiginmanni og ömmustrákunum tveimur, en sú yngri býr enn í Bandaríkjunum. „Hún er amerískur íslendingur sem býr í Philadelphiu“ segir Svafa og bætir við. „Ég ætlaði aldrei að verða gömul í Ameríku. Ég gat ekki ímyndað mér hvernig líf það væri. Hvar ætlaði ég að vera og hvaða fjölskylda yrði í kringum mig? Ég vildi eldast í kringum fjölskylduna mína, vini og öryggisnet“.

Úr sunnudagsbíltúr í sveitina. Svafa ásamt bræðrum sínum

Kuldinn betri en hiti og raki

Og fjölskylda Svöfu er sannarlega stór. „Við erum átta systkinin og mamma var elst af 12 systkinum.  Hennar systkini eiga  5-8 börn. Þetta er gríðarlegur fjöldi. Við héldum okkar eigið jólaball í 25 ár, fjölskyldujólaball í Stapa. Það voru fleiri hundruð manns sem komu. Þegar maður verður eldri fer þetta að skipa stærri sess“,  segir hún. „Ég var ekki með það í huga að setjast að erlendis og kom oft hingað heim, kannski tvisvar til þrisvar á ári, sérstaklega eftir að foreldrar mínir fóru að eldast og voru orðin lasin. Svo er ég norðanmanneskja. Kuldinn á betur við mig en hiti og raki. Mér finnst 15 stiga hiti betri en 30 stiga hiti og raki. Þá fer ég ekki út úr húsi, mér líður svo illa“.

Geysilegar breytingar á 25 árum

Svafa segir það hafa hjálpað sér við flutninginn heim til Íslands að hún hafi tekið starfið með sér. Hún hafi ekki haft mikinn tíma til að velta þessu öllu fyrir sér. Hún sé með annan fótinn í Bandaríkjunum og hinn hér. „En það er allt annað Ísland sem ég er að koma til, það hafa orðið geysilegar breytingar á 25 árum Sumar góðar og sumar slæmar. Heilbrigðiskerfið er að hruni komið. Ég var í burtu þegar hrunið varð, en mér finnst óskapleg reiði í þjóðfélaginu og skil að menn séu reiðir eftir þennan skell. Það þarf að byggja aftur upp traust á stofnunum samfélagsins.  Það hefur tekið tíma að setja sig inn í málin.  Málfarið er breytt og meira af innflytjendum hér en áður var. Mér líkar vel að fara niður í bæ, sjá fjölbreytnina í kringum mig og heyra mörg tungumál. Ég er vön fjölbreytni og einhæfni á ekki vel við mig“, segir hún.

Ríkið hefur gengið á rétt eldri borgara

Svafa segist hafa fylgst með málefnum eldri borgara úr fjarlægð. „Það er mikil óánægja með hvernig ríkið skerðir lífeyrisgreiðslur. Áður voru tvær stoðir undir almannatryggingakerfinu, ríkið og lífeyrissjóðirnir. Síðan má segja að séreignasparnaðurinn hafi orðið þriðja stoðin hjá þeim sem eiga hann til.  En með lögunum 2017, var það afnumið að allir fengju 40.000 krónur frá TR og þar með var ákveðið að það yrði einungis ein stoð í almannatryggingakerfinu, lífeyrissjóðirnir. Með þessu hefur ríkið gengið á rétt eldri borgara“, segir Svafa. „Ég tel að hagsmunagæslu fyrir réttindum eldri borgara hafi verið ábótavant hér“. Aðspurð hvað hún eigi við með því segir hún að hagsmuna þeirra hafi ekki verið gætt gagnvart ríkinu og lífeyrissjóðunum. Þeir séu margskattaðir. Tvísköttun á fé úr lífeyrissjóðum var breytt 1995, en allar greiðslur fyrir þann tíma eru skattlagðar tvisvar, en greiðslur eftir þann tíma bara einu sinni.  „En þetta er söfnunarsjóður. Af hverju er ég að borga tekjuskatt af lífeyristekjunum, af hverju eru þær ekki taldar eins og fjármagnstekjur?“  spyr hún.

Svafa spáir í baráttuna fyrir hagsmunum eldra fólks

Einn vill þetta og annar hitt

Svafa kynntist Samtökum eftirlauna fólks í Bandaríkjunum AARP, á árum sínum þar. „Hér er hagsmunabaráttan dreifð, það vantar að ná henni saman. Fólk er ósammála um nálgun, einn vill þetta og annar hitt. Menn gefast upp og svo er hver að gera eitthvað í sínu horni“, segir Svafa og bætir við að hjá AARP, sé unnið mjög skipulega í hagsmunabaráttunni. Ef stjórnmálamenn fari að ræða um að hrófla eitthvað við stórmálum sem varða eftirlaunafólk, svo sem eftirlaunaaldrinum, fari AARP þegar af stað og sendi póst til að biðja alla félaga um að hafa samband við þingmenn sína. Fólk fái í hendur bréf til að senda þeim, eða er beðið um að hringja í þá. „þingmenn hlusta á þetta, samtöl fara inná símsvara og það er talið hversu margir eru með málinu og hversu margir á móti“.

Ætti að fá styrk eins og önnur félagasamtök

Blaðamaður bendir á að það sé ólíku saman að jafna, milljónaþjóðfélagi í Bndaríkjunum eða örríki í Norður-Atlantshafinu. Landssamband eldri borgara sé til að mynda ekki með mikið fé milli handanna, til að ráða fólk eða panta sjálfstæðar úttektir á málum. „Landssambandið á náttúrulega að fá styrk frá ríkinu eins og önnur félagasamtök“, segir Svafa. Henni finnst líka einboðið að verkalýðsfélögin sem eldra fólk hafi greitt til áratugum saman, leggi fram peninga til Landssambandsins. Almennt er hún þeirrar skoðunar að það þurfi að nútímavæða sambandið og taka upp ný vinnubrögð, í anda þess sem hún hefur kynnst í lífi og starfi erlendis.

 

 

Ritstjórn febrúar 1, 2019 07:36