Hvimleiður loftgangur

Margir finna með árunum að loftgangur verður meiri í iðrum þeirra og þeir eiga erfiðara með að halda aftur af prumpi eða stjórna því hversu áberandi hljóð fylgja því. Þetta stafar af breytingum í meltingarkerfinu. Það hægir á allri brennslu og meltingarensímum fækkar. Þessi loftgangur getur reynst ansi hvimleiður en til allrar lukku er hægt að gera ýmislegt til að draga úr honum.

Sumir meltingarsérfræðingar telja að skýra megi aukna gasmyndun í meltingarkerfinu með auknum aldri fyrst og fremst með því að virkni þess minnkar. Fæðan er þess vegna lengur að fara í gegnum kerfið og það skapar meira gas. Maginn framleiðir minna af sýrum og niðurbrotið þar er þess vegna minna. Maturinn heldur áfram minna meltur niður í þarmana. Auk þess er meltingarkerfi okkar að stórum hluta knúið áfram af vöðvum og það slaknar á þeim með árunum. Nú og svo hefur sýnt sig að ensímum fækkar og bakteríuflóra þarmanna verður ekki eins fjölbreytt þegar fólk eldist. Laktasi er meðal þeirra ensíma en hann er mjög virkur í niðurbroti á mjólkurvörum þannig að ef fólk borðar mikið af osti eða neytir mjólkur er líklegt að það valdi aukinni gasmyndun og uppþembu í meltingarvegi. Hæfni okkar til að brjóta niður og melta korn minnkar einnig og mikið brauðát líklegt til að hafa sömu áhrif á eldra fólk. Ýmis lyf, einkum þau sem notuð eru við meltingarvandamálum, geta sömuleiðis valdið auknum vindgangi.

Náttúran á svar

Uppþemba, vindgangur og vindverkir eru einnig meðal einkenna sumra sjúkdóma, þar má nefna iðraólgu, glúten óþol, Chrohns-sjúkdóminn, bakflæði, iðrabólgur, sáraristilbólgu og sykursýki. Hægðatregða er sömuleiðis líkleg til að valda uppþembu og vindverkjum. Meðal þess sem hægt er að gera til að vinna gegn þessu hvimleiða vandamáli er að gæta þess að borða trefjaríkt fæði, drekka mikið af vatni yfir daginn og stunda hreyfingu í minnsta kosti hálftíma hvern dag. Allt þetta hjálpar meltingafærunum að vinna.

Það getur einnig borgað sig að minnka neyslu á mjólkurvörum og kornmeti. Sumar grænmetistegundir eru einnig líklegar til að auka vindgang, þeirra á meðal eru brokkólí, hvítkál, rósakál og aspas. Fólk ætti einnig að drekka minna af kolsýrðum drykkjum, þar á meðal sódavatni, þeir auka gasmyndun í meltingarveginum og hið sama gildir um sýrðan mat. Það að borða hægt og tyggja vel hefur einnig áhrif, munnvatnið og ensímin í því eru fyrsta stig meltingarinnar og það má létta vinnu af magasýrunum með því að njóta hvers bita og tyggja vel.

Náttúran hefur oftast svar við flestum vandamálum og til dæmis má nefna að kúmenfræ innihalda ríkulegt magn af flavínóðíðum, karvóni og límónenum en þessi efni hafa eiginleika sem draga úr krömpum og geta þess vegna dregið mjög úr vindverkjum. Myntute og og túrmerik hafa sömuleiðis jákvæð áhrif á loftgang og draga verulega úr honum. Að strá einni til tveimur teskeiðum af kúmenfræjum yfir salatið sitt og drekka myntute á kvöldin getur hjálpað verulega. Ef ykkur hættir til mikillar gasmyndunar er líka gott ráð að forðast að borða baunir og rúgbrauð, hætta að tyggja tyggjó og borða á hlaupum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.