Ástin á efri árum í kvikmyndum

Kvikmyndaframleiðendur hafa áttað sig á því að fólk á öllum aldri er fært um að verða ástfangið og verður það gjarnan. Um þetta vitna ótal bráðskemmtilegar rómantískar gamanmyndir sem hverfast í kringum fólk sem komið er af léttasta skeiði. Við hér á Vikunni mælum með.

The Good House með Sigourney Weaver og Kevin Kline er byggð á metsölubók eftir Ann Leary. Hún segir af Hildy Good, fráskilinni konu, fasteignasala í frekar mikilli lægð. Vinnan mætti ganga betur sem og henni að halda sig frá búsinu. Þá hittir hún gamlan kærasta, Frank Getchell og heldur betur tekur að hitna í kolunum.

Árið 2017 kom út falleg mynd, Our Souls at Night með Robert Redford og Jane Fonda í aðalhlutverkunum. Ef einhver hefði fullyrt fyrir ekki svo löngu síðan að kona á níræðisaldri myndi leika aðalhlutverk í stórri kvikmynd árlega hefði sennilega verið hlegið að honum en Jane Fonda er ennþá að nú orðin 88 ára. Hún leikur í auglýsingum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

Finding Your Feet með þeim Imeldu Staunton og Timothy Spall er ein af þessum heillandi lágstemmdu bresku myndum sem eru svo mannlegar og hlýjar að þær skilja mann eftir með notalega glóð í hjartanu. Hér segir af Söndru, snobbaðri, velstæðri húsmóður sem kemst að því að karlinn hennar hefur haldið við bestu vinkonu hennar. Hún pakkar niður í tösku og flytur inn á systur sína sem lifir mun frjálslegra lífi. Systirin býður henni á dansnámskeið og þar þarf Sandra að horfast í augu við margvíslegan sannleik um sjálfa sig og uppgötva að blessun getur birst í óvæntustu myndum.

Í Ticket to Paradise leika þau Julia Roberts og George Clooney fyrrum hjón á leið í brúðkaup dóttur sinnar. Þau hafa hatast heitt og innilega frá því þau skildu og bæði líta svo að hjónaband þeirra hafi verið verstu mistök lífsins. Þeim er því mikið í mun að koma í veg fyrir að dóttirin geri sams konar feil og sameinast um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að hún gangi upp að altarinu. En margt fer öðruvísi en ætlað er.

Margar fleiri dásamlegar myndir af þessu tagi má nefna en við látum nægja að telja upp, Quartet með Dame Maggie Smith heitinni, Tom Courtenay, Billy Connolly og Pauline Collins, Hampstead með Diane Keaton og Brendan Cleeson, Letters to Juliet með Vanessu Redgrave og Franco Nero og að lokum the Best Marigold Hotel myndirnar báðar með úrvali breskra leikara.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.