Enginn veit hvað undir annars stakki býr

Mín er hefndin er sjálfstætt framhald, Þegar sannleikurinn sefur eftir Nönnu Rögnvaldardóttur sem kom út í fyrra. Í þeirri bók kynntumst við Bergþóru húsfreyju í Hvömmum ályktunarhæfni hennar, mannúð og mannskilningi. Nanna er frábær höfundur og henni tekst sérlega vel að endurskapa andrúmsloft átjándu aldar án þess að detta í þá gryfju að verða of forn í háttum og málfari. Henni veitist líka létta skapa trúverðugar, áhugaverðar og djúpar persónur og svo er kímnigáfa hennar einstök sem sannarlega gefur bókum Nönnu lit og líf.

Í eftirmála segir Nanna frá því að hún byggir lauslega á sönnum atburðum og ein persóna í báðum bókum á sér fyrirmynd í fornum heimildum. Hún hefur ævinlega haft áhuga á grúski og hefur legið í kirkjubókum, dómskjölum og öðrum fornum heimildum. Í þessari nýju sögu kemur vel fram samúð Nönnu með lítilmagnanum og hvað hún hefur öðlast djúpan skilning á bjargarleysi þeirra á þessum erfiðu tímum í Íslandssögunni. Grimmd yfirvalda er mikil og ósveigjanleiki kerfisins meiri og verri þá en nú. Það hreinlega sker lesandann í hjartað að skynja í gegnum þessa skáldsögu umkomuleysi þeirra sem eiga fáa eða engan að og búa við meiri sárafátækt en nokkur nútímamaður getur ímyndað sér.

Bergþóra leiðir söguna og hún er djörf kona, sjálfstæð, greind og hörkudugleg. Hún hefur skilning á mannlegum breyskleikum, ekki hvað síst vegna þess að hún á sjálf að baki sögu um hrösun. Þegar sagan byrjar er haldið dómþing í Hvömmum og að þessu sinni er réttað yfir ungum flækingi og mæðginum fyrir sauðaþjófnað. Flækingurinn, Egill, bjargar aðframkomnum gemlingi frá drukknun en í stað þess að sleppa honum sker hann dýrið og kemur með kjötið í kotið til Hólmfríðar þar sem margir svangir munnar bíða. Hólmfríður og Kolbeinn sonur hennar gerast þjófsnautar þegar þau þiggja mat af Agli og öll eru dæmd til hýðingar. Á sama tíma kemur upp sifjaspellsmál í sveitinni. Dísa og Jón verða ástfangin en þar sem Dísa reynist hafa átt barn með hálfbróður Jóns hafa þau gerst sek um sifjaspell samkvæmt Stóradómi. Yfirvöldum hefði verið í lófa lagið að líta framhjá þessu broti þar sem hvorugu var kunnugt um tengsl Jóns og barnsföður Dísu en kjósa að fylgja málinu eftir af fullri hörku. Þegar Bergþóra finnur síðan lík böðulsins er ljóst að hann hefur verið myrtur og margir höfðu harma að hefna gegn þeim manni.

Nönnu tekst frábærlega að byggja upp þessa sögu. Það er alls ekki auðvelt að giska á hver morðinginn er og það verður næstum aukaatriði, ekki hvað síst vegna þess að lesandinn hefur meiri samúð með hugsanlegum morðingjum en fórnarlömbunum. Hins vegar eru þær siðferðisspurningar sem Nanna veltir upp og myndin sem hún málar svo skýrt af tíðarandanum mun áleitnari. Í þeim er mikil dýpt og þótt þessi saga eigi að gerast fyrir rúmum þremur öldum er áhugavert að skynja hvernig fáfræði, skilningsleysi og harðneskja geta búið um sig í mannsálinni og valdið ómælanlegum skaða. Nanna er frábær rithöfundur og ég vona sannarlega að ég fái að heyra meira af Bergþóru í Hvömmum að ári. Svo er ekki hægt að skilja við þessa bók án þess að minnast á frábæra kápuhönnun Alexöndru Buhl. Ég veit að maður á ekki að dæma bókina eftir kápunni en í þessu tilfelli er það alveg óhætt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.