Þær Anna Ingólfsdóttir rithöfundur og jógakennari og Guðfinna Eydal sérfræðingur í klínískri sálfræði hafa unnið saman í tólf ár að því að hjálpa fólki sem misst hefur maka sinn. Þær hafa skrifað þrjár bækur um viðfangsefnið og nýlega lögðu þær saman krafta sína og settu saman námskeiðið, Lífið eftir makamissi. Námskeiðið er rafrænt og hægt að nálgast það í gegnum tölvu eða síma.
Nú hafið þið Guðfinna ólíkan bakgrunn. Hvernig kom þetta samstarf til, hvernig nálgist þið viðfangsefnið og um hvað snýst námskeiðið fyrst og fremst?
„Það hófst með því að við hittumst fyrir tilviljun þar sem við vorum báðar að bíða í biðröð eftir að skrifa nöfnin okkar í minningabók í Ráðhúsi Reykjavíkur eftir voðaverkin í Útey í Noregi,“ segir Anna. „Þar bað ég Guðfinnu að lesa sögu mína sem ég hafði skrifað um veikindi og dauða mannsins míns. Þá og þar var fræinu sáð að samstarfi okkar. Við bjuggum báðar yfir þeirri reynslu að hafa misst mennina okkar. Síðan eru liðin meira en tólf ár og við héldum alltaf áfram með málefnið og eftir að síðasta bók okkar MAKAMISSIR kom út langaði okkur að kafa dýpra og skapa meiri nálgun við syrgjandann. Þá kviknaði hugmyndin af rafrænu námskeiði. Við vitum báðar, af eigin reynslu, að það er mikil þörf úti í samfélaginu fyrir stuðning og hingað til hefur ekki verið mikið til af virkum stuðningúrræðum. Það hefur þó batnað á undanförnum árum.
Styrkur okkar í þessu námskeiði liggur einmitt í þessum ólíka bakgrunni. Guðfinna kemur með næmt auga sérfræðingsins og áratuga reynslu úr meðferðarstarfi, auk eigin reynslu, af því að hafa misst maka á efri árum og ég kem með mína menntun í ritlist, tilfinningu fyrir texta og reynslu úr jóga, auk eigin reynslu af makamissi en ég var þrjátíu og fimm ára þegar minn maður lést. Námskeiðið er nefnilega blanda af fræðslu sem byggð er á vísindalegri þekkingu, reynslu úr meðferðarstarfi og persónulegri reynslu. Farið er í gegnum ferli missisins, þegar maki deyr, algengustu viðbrögð við áfalli, breytingar á hlutverki og stöðu, einnig er kafli fyrir foreldri með börn í uppeldi, svo eitthvað sé nefnt. Sérstaklega unnar hugleiðslur sem eru ætlaðar fyrir fólk í þessum aðstæðum eru inni í sumum köflum. Í lok námskeiðs eru verkefni sem sem við köllum bjargráð, eins konar verkfæri sem hægt er að nota í sorgarúrvinnslu og eru hugsuð til þess að hjálpa syrgjanda að öðlast sálræna endurheimt. Námskeiðið snýst fyrst og fremst um að styðja þau sem hafa misst, að segja þeim og leyfa þeim að finna að þau eru ekki ein og að það sé hægt að lifa lífinu áfram. Það getur verið erfitt að horfast í augu við missinn en það er mikilvægt að geta gert það og halda áfram með lífið. Með þessu áfalli er fólk leitt á nýjan stað í lífinu. Bjargráðin geta létt álag, dregið úr vanlíðan og gefið von um betri daga til þess að takast á við framtíðina á nýjan hátt.“

Guðfinna Eydal og Anna hafa unnið saman í tólf ár.
Hægt að horfa aftur og aftur
Hversu langt er námskeiðið og hvernig gagnast það syrgjendum?
„Námskeiðið er 4,5 klukkustund og skiptist upp í nokkra kafla. Hægt er að flakka á milli kafla og horfa eða hlusta aftur og aftur. Fólk kaupir aðgang að námskeiðinu til eins árs. Innifalið í gjaldinu er eitt stuðningsviðtal. Það er mikið áfall að missa maka sinn og það tekur fólk yfirleitt langan tíma að vinna með sorgina. Enginn getur stokkið í einu stökki úr sorg í gleði. Það verður að taka eitt skref í einu. Námskeiðið hjálpar til við það. Syrgjandi getur valið tíma og horft og hlustað aftur og aftur. Það getur tekið langan tíma að meðtaka. Við teljum að það sé kostur að hafa þetta rafrænt því það gefur syrgjanda kost á því að fara í gegnum námskeiðið á eigin tíma og hraða. Það er líka margt sem er mjög prívat við makamissi og ekki hægt að ræða við neinn. Þegar einvera er allt í einu orðin að fyrirferðamiklum veruleika í lífinu er gott að geta kveikt á námskeiðinu og farið í gegnum það. Það hjálpar til að vinna með tómleikann sem einkennir nú persónulega lífið og komast yfir hann. Og ef á þarf að halda eru stuðningsviðtöl í boði.
Er þá einungis hægt að taka rafrænt þátt í þessu námskeiði?
„Já, námskeiðið er eingöngu rafrænt og aðgengilegt inni á heimasíðunni okkar www.makamissir.is Þar er hægt að horfa á kynningarmyndband og lesa umsagnir. Tveir prófessorar við HÍ sem hafa unnið að rannsóknum um áföll og missi og sérstaklega makamissi, þær Unnur Anna Valdimarsdóttir og Arna Hauksdóttir koma fram í kynningarmyndbandinu, tala um sorgina, skort á stuðningsúrræðum og fagna því að námskeið sem þetta fyrir syrgjendur líti dagsins ljós. Einnig er hægt að lesa umsagnir þriggja einstaklinga sem allir hafa misst maka. Aðgangur að námskeiðinu gildir í eitt ár enda vonum við að flestir ef ekki allir sem kaupa það þurfi ekki eða vilji ekki endurnýja það en það er mögulegt. Við viljum að fólk þurfi ekki meira en tólf mánuði til að vinna með námskeiðsefnið.“
Hægt að panta stuðningsviðtal
Er einhvers konar hópvinna tengd námskeiðinu eða vinna þátttakendur einir?
„Það er gert ráð fyrir að hver og einn vinni sjálfur í gegnum námskeiðið. Hægt er að panta stuðningsviðtal sem er innifalið í námskeiðsgjaldi og ef fólk telur sig þurfa fleiri viðtöl, er það í boði líka. Af því að við erum rétt að fara af stað með þetta, vitum við ekki alveg hver þörfin er varðandi hópastarf. Það er ekkert sem ætti að vera því til fyrirstöðu að vinna að því að fólk tengist öðrum í gegnum námskeiðið og fari jafnvel markvisst í gegnum verkefni á þann hátt að fólk deili sinni reynslu með öðrum sem eru á svipuðum stað í lífinu en það hefur sýnt sig að slíkt getur verið mjög mikilvægt í sorgarferlinu. Það er áhugavert að sjá hvert þetta leiðir. En Sorgarmiðstöð er fremst í flokki í hópastarfi fyrir syrgjendur og einnig eru sorgarhópar hluti af kirkjustarfi í sumum kirkjum. Sorgin er ekki samkeppnisverkefni, heldur samstarfsverkefni. Þess vegna getum við öll komið að henni og unnið með hana saman þó að hver og einn verði auðvitað að fara í gegnum sína sorg á sínum forsendum,“ segir Anna að lokum.
Frekari upplýsingar um námskeiðið má nálgast á heimasíðunni www.makamissir.is Þar er hægt að sjá kynningarmyndband um námskeiðið. Þeir sem eru tryggðir hjá VÍS geta nálgast það í gegnum vildarapp VÍS og fá 10% afslátt af námskeiðsgjaldi en VÍS studdi verkefnið með nýsköpunarstyrk sem gaf byr undir báða vængi að sögn Önnu.