Einmana drengur í Reykjavík

Bók Vikunnar eftir Snæbjörn Arngrímsson er hugvitsamlega uppbyggð saga með skemmtilegar skírskotanir til fortíðar og bókmennta annarrar aldar. Tíminn er talsvert fljótandi og þótt bókin gerist vissulega í nútíð tilheyrir andrúmsloftið öðrum tíma.

Húni er ungur stúdent, nýfluttur til Reykjavíkur úr sveitinni til að stunda nám í Háskólanum. Hann er lestrarhestur og því ekkert skrýtið að hann hafi skráð sig í bókmenntafræði og ráðið sig í vinnu í bókabúð. Hann leigir herbergi uppi á hanabjálka hjá vingjarnlegum eldri hjónum. Þau er ákaflega samhent og virðuleg en samleigjendur hans eru annars vegar annar háskólastúdent og hins vegar skapvond eldri kona. Þegar vinnufélagarnir í bókabúðinni ákveða að fara á krá eftir vinnu gengur Júlía með Húna áleiðis heim en ákveður að koma með honum upp og gista hjá honum um nóttina. Júlía reynist hins vegar hálfgerð ráðgáta og Húni á svolítið erfitt með að fóta sig í borginni. Þegar Árelíus, samleigjandi hans, biður hann að sitja í skóbúð afa síns sem er nýlátinn og afhenda viðskiptavinum skó, komi þeir til að sækja, vonast Húni til þess að með því að stilla fyrst bók vikunnar út í glugga skóbúðarinnar og síðan bók dagsins kynnist hann fleirum og nái að hafa áhrif á menningarlífið í bænum.

Á einum stað í sögunni rekur Húni fyrir kunningjakonu sinni nokkurs konar keðju bóka úr bókmenntasögunni og það fer ekki hjá því að lesandanum finnist að bókin um hann sé ágætur viðbótarhlekkur í þá keðju. Þemað um saklausa sveitastrákinn sem kemur til borgarinnar til að afla sér menntunar og skilur eftir öryggið, hlýjuna og hið óspillta heima í sveitinni hjá pabba og mömmu sem kveður drenginn sinn með blómvönd í hönd er velþekkt úr ýmsum skáldævisögum síðustu aldar. Snæbjörn leikur sér að þessu þema og nútímaflækjur virðast lítið hafa með líf Húna að gera. Hann er nítjándu aldar maður í raun. Þetta er skemmtileg bók, skrifuð af kímni og svolitlum prakkaraskap en andrúmsloftið einkennist af svolitlum trega og það gefur bókinni dýpt. Hér eru einnig margar áhugaverðar persónur sem sumum hefði verið gaman að kynnast betur.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.