Fár er sem faðir, enginn sem móðir

Upphafslína Brekkukotsannáls eftir Halldór Kiljan Laxness er á þessa leið: „Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en missa föður sinn.“ Auðvitað hnykkir okkur við að lesa þetta og sjálfsagt var það tilgangur skáldsins. Að ganga svolítið fram af þeim sem saklaus greip bókina og fletti upp á fyrstu síðu. Álfgrími verður til happs að hann lendir hjá kærleiksríku og hugsandi fólki. Þar var hann ábyggilega betur kominn en á flækingi með fátækri móður í grimmu íslensku samfélagi í upphafi 20. aldar. En allir þeir sem hafa þekkt kærleiksríka foreldra geta verið sammála um að fátt kemur í staðinn fyrir þá og eftir að hafa lesið Mamma og ég eftir Kolbein Þorsteinsson varð ég meira en lítið hugsi.

Ásta Sigurðardóttir

Ásta Sigurðardóttir er listamaður og skáld en hún er líka kona. Hún verður ástfangin og eignast fimm börn á sex árum með manninum sem hún elskar. Það er ærið verkefni þótt ekki bætist við glíman við ólæknandi og erfiðan sjúkdóm, alkóhólisma. Ásta var einnig metnaðarfull og langaði til að setja mark sitt á veröldina, koma frá sér og tjá það sem bjó hið innra. Togstreitan milli þess að skapa og sinna eiginmanni, börnum og heimili reyndist mörgum listrænum og hugsandi konum erfiður fjötur um fót. Sylvia Plath barðist sömu barátttu og varð að lúta í lægra haldi rétt eins og Ásta þótt þunglyndi hafi reynst hennar Gleipnir.

Þrátt fyrir flæking og misjafnar aðstæður inni á heimili móður sinnar á Kolbeinn að stærstum hluta góðar minningar um móður sína og bréf hennar vitna um að hún vill börnum sínum vel. Hún þráir að vera þeim góð móðir. Hún er bara ekki fær um það. Hið sama gildir um föðurinn sem er í senn fjarlægur og upptekinn af sjálfum sér. Bæði glíma raunar við fátækt og hafa í raun fá úrræði að bjóða barnahópnum.

Misviturt fólk ætti ekki að hugsa um börn

Hins vegar sker lesandann mest í hjartað að þótt systkinin hafi lent í fóstri hjá „góðu fólki“ er það misviturt fólk og ekki neitt sérlega vel til þess fallið að taka að sér börn sem þurfa á jafnmikilli aðhlynningu að halda og þessi fimm. Fóstrinn mismunar börnunum alvarlega og fóstran kýs að ritskoða bréf og gjafir sem berast frá foreldrunum. Hún vill vel en veit ekki betur. Einvers staðar stendur skrifað að betri sé vond móðir en góð fóstra. Þar eiginlega kjarnast boðskapur þessarar bókar. Það er alltaf best ef hægt væri að styðja foreldra til að sjá um og sinna börnunum sínum. Hjálpa þeim til að ná tökum á alvarlegum geðrænum sjúkdómum eða öðru sem kann að hindra þau. Þar er besta skjólið að finna. Þetta er án efa stefnan í dag. Best af öllu væri auðvitað að við gætum skapað samfélag þar sem allir eru hæfir foreldrar og koma vel undirbúnir að barnauppeldi þegar börnin fæðast. Draumsýn? Já, kannski.

Ásta Sigurðardóttir var sveitastúlka, fædd að Litla-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi. Hún kom til Reykjavíkur fjórtán ára til að leita sér menntunar og byrjaði á að klára landspróf og síðan fór hún í Kennaraskólann. Áhugi hennar á kennslu var hins vegar takmarkaður og hún starfaði aldrei við það. Ásta lærði leirkerasmíð og grafíklist og myndskreytti sjálf bók sína, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Hún vann einnig fyrir sér sem nakið módel í Myndlistarskólanum og olli það hneykslun samborgara hennar auk þess að hún kaus að búa í kommúnu skálda og listamanna í Hólum í Skerjafirði. Ástalíf hennar þótti sumum betri borgurum einnig fullfjörlegt og fékk að finna fyrir fordæmingu og útlokun samfélagsins á sjötta áratug síðustu aldar. Var í raun slaufað. Það þarf sterk bein til að þola slíkt. Í bók sinni Sunnudagskvöld til mánudagsmorgun skrifar hún um nauðgun. Broddborararnir hneyksluðust ákaflega en mjög margir eru þess fullvissir að þar skrifi Áta um eigin reynslu. Í annarrri sögu er ýjað að kynferðislegri misnotkun á barni og það kann einnig að vera að Ásta hafa þekkt þess háttar ofbeldi.

Ásta átti son með Jóhannesi Geir listmálara sem var alinn upp af foreldrum hennar en árið 1957 tók hún saman við Þorstein frá Hamri og átti með honum fimm börn. Það yngsta fætt árið 1965. Þau bjuggu í Kópavogi að Hafnarbraut 4 þar til upp úr sambandi þeirra slitnaði. Kolbeinn á sínar fyrstu minningar þaðan.

Kolbein Þorsteinsson

Ásta var glæsileg kona og eftirminnileg í útliti og fasi. Hún vakti þess vegna athygli hvar sem hún kom og allir vissu hver hún var. Þótt hún bæri höfuðið hátt og léti sér fátt um hneykslan og dómhörku samborgaranna finnast á yfirborðinu var mikill sársauki undir niðri. Hann er augljós í mörgum sögunum í Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Bók sonar hennar, Kolbeins, er skrifuð af manni sem stílvopnið leikur létt í hendi. Hann kemur einstaklega vel á framfæri einmanaleika barnsins, umkomuleysi, tilfinningum og þrám sem aldrei er hægt að orða því hvergi er öruggt skjól. Yngsta barnið fær ekki einu sinni leyfi til að kalla fóstru sína ömmu. Erfiðast er eiginlega að kyngja því að kerfið vill vel, fósturforeldrarnir vilja vel en við vitum einfaldlega ekki betur. Það er svo auðvelt að skaða börn. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að lesa þessa áhrifamiklu bók og við þurfum fleiri slíkar. Við þurfum að læra, finna leiðir til að bregðast við, koma börnum í öruggt skjól en umfram allt byggja upp og búa til góða og heilbrigða foreldra.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.