„Aldrei of seint að eignast nýja vini“

Kristrún Benediktsdóttir er forstöðumaður á Hrafnistu Boðaþingi í Kópavogi. Staðurinn er í senn hjúkrunarheimili, dagdvöl og félagsmiðstöðin Boðinn. Samhliða stækkun í Boðaþingi tók Hrafnista við rekstri á þjónustumiðstöðinni Boðanum sem Kópavogsbær rak áður. Þar með eru byggingarnar orðnar mun meiri heild til hagsbóta fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins, dagdvalargesti í Boðaþingi og íbúa í leiguíbúðum DAS íbúða hinumegin við götuna. Þarna hefur skapast sannkallaður lífsgæðakjarni.

Bryndís, Steinþór og Kristrún.

Farið var í ýmsar breytingar sem miða allir í þá átt að gera umhverfið heimilislegra, aðgengilegra og notalegra með stuðningi einvala liðs starfsfólks. Margt hefur  þegar verið gert og í bígerð að bæta enn frekar aðstöðuna og umhverfið.

„Hrafnista tók við rekstri félagsmiðstöðvarinnar í fyrra,“ segir Kristrún. „Við tókum við einstaklega góðu búi frá Kópavogsbæ, og lögðum okkur fram við að halda áfram því góða starfi sem þau höfðu komið á laggirnar hér. Auk þess eigum við í mjög góðu samstarfi við Félag eldri borgara í Kópavogi. Þá fórum við í að skipta út húsgögnum, setja upp setustofu fyrir framan matsalinn og gera allt svolítið huggulegra. Svo eru fyrirhugaðar framkvæmdir í borðsalnum í haust og vonandi verður hann tilbúinn fyrir áramót. Við ætlum að skapa hér kaffihúsastemningu ekki ósvipað og er í Hraunvangi í Hafnarfirði, á Sléttuvegi og einnig í Laugarási. Þá getur fólk komið hingað og keypt kaffi og með því svona eins og það myndi gera á kaffihúsi úti í bæ. Það hefur verið mikil ánægja með síka aðstöðu á þeim hjúkrunarheimili þar sem er boðið upp á hana. Íbúum finnst mjög gott að geta farið út af deildunum sínum og brotið upp daginn með því að setjast niður á kaffihúsi.

Eins og fram kemur hér að ofan þá verður kaffihúsið ekki ósvipað kaffihúsi niður í bæ, og því munum við einnig bjóða upp á léttvín og bjór eins og góðu kaffihúsi sæmir. Kaffihúsið býður upp á gott aðgengi fyrir ýmis hjálpartæki svo það er óvitlaust að bjóða vinum og vandamönnum í Kópavoginn í staðinn fyrir að allir hópist í bæinn. Við skiptum út öllum húsgögnum þegar við tókum við 1. nóvember í fyrra. Þau voru flest orðin lúin svo þetta er mun meira sjarmerandi og verður áreiðanlega enn notalegra þegar þetta er búið. Ég var einmitt að fá ábendingu um það um daginn að hér yrði líka að vera barnahorn svo barnabörn og jafnvel barnabarnabörn geti notið þess að vera eitthvað að dunda sér.“

Bjartmar skemmtir á haustfagnaði.

Nálægðin við náttúruna ómetanleg

Boðinn í Boðaþingi er í sameiginlegri eigu ríkis og bæjarfélags Kópavogs en Hrafnista sér um reksturinn.  Auk þess er stutt í fallega náttúru, það þarf ekki nema ganga rétt út fyrir dyrnar þá blasir Elliðavatn við, Bláfjöll og Esjan sem í um þessar mundir skartar fyrstu hvítu hettu haustsins. Er ekki gott að hafa slíka fegurð í kringum sig?

„Jú, þetta er dásamlegt og fólk talar um það þegar það kemur hingað að það er ekki langt að fara en samt er það komið aðeins út úr borgarysnum og umhverfið er svo fallegt. Mjög margir tala líka um hve góður andi er hér innan dyra. Um leið og þeir stíga inn í húsið finna þeir hve mikil ró er yfir öllu.“

Nú og svo má búast við að sú tilfinning verði enn sterkari þegar öllum framkvæmdum verður lokið. Þú vonast til að öllu verði lokið í desember?

„Já, kannski er það óraunhæft en það er alltaf gott að vera bjartsýnn,“ segir hún og brosir. „Ég vona það besta. Hingað koma alltaf um það bil hundrað manns í hádegismat og félagsstarfið er mjög vel sótt. Mér hefur fundist flestir staldra við lengur en áður. Fólk kemur fyrr og situr lengur. Mjög margir í okkar allra næsta nágrenni nýta sér aðstöðuna. Hér beint á móti eru leiguíbúðir á vegum DAS og flestar blokkirnar eru byggðar fyrir eldri borgara svo við erum ótrúlega vel staðsett fyrir þá sem eru hættir að vinna og vilja brjóta upp daginn.

Hér er fjölbreytt félagsstarf í gangi og margt sjálfsprottið. Við höfum hvatt til þess að fólk sem kemur geti komið á fót alls konar hlutum með okkar stuðningi hver eftir sínu áhugasviði. Í síðustu viku var hér stofnfundur ljósmyndaklúbbs og í rauninni okkar aðkoma bara að finna honum pláss í vikudagskránni okkar. Við viljum endilega fá sem mest af þessu og að það sé mikið líf í húsinu sem oftast. Hér eru spilahópar, bæði brids og kanasta, pennasaumur, myndlistahópur, bókaklúbbur og bingó annan hvern mánudag sem er opið öllum. Menn og konur mynda hópa en allir eru velkomnir. Það þarf bara að sækja um aðild í suma hópa. Það hefur líka verið umræða um að koma á fót kvikmyndaklúbbi. Margir ótrúlega öflugir einstaklingar koma hingað í félagsstarfið í Boðaþingi með margar frábærar hugmyndir og við viljum endilega leggja þeim lið við að hrinda þeim í framkvæmd.

Það er svo gaman að sjá hvað hefur orðið til mikið af vinahópum hér innan veggja. Fólk kemur eitt en er svo komið í einhvern hóp og eignast nýja vini. Ein kona sagði við mig að það væri svo gott að koma hingað því hér uppgötvaði hún að það er aldrei of seint að eignast nýja vini og það er einstakt að sjá hvernig ný vinátta verður til. Við höfum líka lagt á það áherslu að þegar einhver kemur nýr inn að vel sé tekið á móti honum. Að einhver taki að sér að heilsa og sýna viðkomandi hvað er í boði. Það er ósköp gott að vita að vel hafi tekist til. Mér finnst líka orðið algengara eftir að við breyttum og bættum aðstöðuna að yngra eldra fólk, hópurinn sem er nýkominn á eftirlaun, sé farinn að koma meira hingað. Húsnæðið er ekki eins gamaldags og það var og það skiptir líka máli.“

Frá opnunarhátiðinni.

Vildi hvergi annars staðar vera

Er gaman að vinna við þjónustumiðstöð af þessu tagi?

„Það er frábært,“ segir hún með þungri áherslu. „Ég myndi hvergi annars staðar vilja vera. Starf mitt sem forstöðumaður er mjög fjölbreytt því ég er yfir hjúkrunarheimili, dagdvöl og félagsstarfi. Maður kynnist svo mörgu frábæru og skemmtilegu fólki. Í síðustu viku var hér haustfagnaður en vegna þess hve stórt húsið er orðið þurfum við að hafa þetta tvískipt og annar haustfagnaður fyrirhugaður á morgun til að allir komist að. Þetta er svo skemmtilegt. Haustfagnaðurinn er kvöldviðburður þar sem við fáum skemmtikrafta og bjóðum upp á kótilettur með öllu tilheyrandi.

Sóli Hólm skemmtir áhorfendum.

Ég er þrjátíu og sjö ára gömul og kem oft í matsalinn til að fá hádegismat. Þá sest ég bara þar sem er laust og spjalla við fólkið sem situr við borðið. Ég hef lært svo margt á því og þeir sem hingað koma eiga fjölbreyttar og merkilegar sögur. Steinþór sem á málverkin sem hanga hér uppi.“ Kristrún bendir á veggina í matsalnum þar sem við sitjum en þar er í gangi sýning á fallegum listaverkum. „Hann málaði mynd af togaranum Júní og fjölskylda mín tengist mjög þessum blessaða togara. Afi minn og bróðir hans og bræður ömmu minnar voru á Júní og bróðir mömmu náði að fara nokkra túra með honum líka. Ég man þess vegna helst eftir þessum togara úr Hafnarfirðinum. Við gátum þess vegna setið hérna og rætt þetta mikið. Það er mjög skemmtilegt hvernig samtöl þróast oft,“ bætir hún við.

„Okkur ber einnig ákveðin skylda til að til að hjálpa fólki að viðhalda færni eins lengi og það getur. Hér vinna íþróttafræðingar og við bættum styrktarþjálfun við íþróttastarfið sem þegar var hér. Virkni og vellíðan hópurinn hefur verið hérna og notið mikilla vinsælda en við báðum okkar íþróttafræðinga að bæta þessu við. Fólk hefur talað um hve mikinn mun það finnur á sér eftir stuttan tíma í stykrtarþjálfuninni. Það hefur meiri styrk og vellíðan eykst. Það er svo gaman að heyra að starfið er að skila og fólk finnur fyrir betri líðan meiri færni.“

Þótt plássið sé gott og andinn notalegur er húsnæðið engu að síður of lítið stundum, einkum þegar stórir viðburðir eru fyrirhugaðir. Það segir sitt um aðsóknina en það er kominn tími til að kveðja Boðann, ganga út og njóta þess að horfa á Elliðavatnið á leiðinni að bílnum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.