Verstu grimmdarverk mannkynssögunnar

Helförin: í nýju ljósi eftir breska sagnfræðinginn Laurence Rees er í senn áhrifamikil og mögnuð. Það er erfitt að lesa þessa bók í ljósi stríðsglæpa Ísraelsmanna á Gaza en á sama tíma mega þessir atburðir ekki gleymast. Margir hafa á það bent farið sé að snjóa yfir grimmdarverk nasista en þótt þessi skipulagða og ómanneskjulega útrýming á fólki sé andstyggileg og einstæð í sögunni verður að rifja hana reglulega upp í þeirri von að það megi verða til þess að ekkert þessu líkt gerist nokkru sinni aftur.

Það að byggt hafi verið upp þaulskipulagt kerfi með skilvirkum vopnum og leiðum til að drepa stóran hóp manna á stuttum tíma er svo viðbjóðslegt að það er óskiljanlegt að það hafi gerst. Laurence Rees er flinkur höfundur og hann fer skipulega í gegnum hvernig nasistum tókst að þróa aðferðir sínar og byggja upp útrýmingarbúðir sínar. Hann sýnir skilmerkilega hvernig þetta byrjaði með ofsóknum, einangrun og ofbeldisverkum og endaði í þaulskipulagðri slátrun á fólki.

Enn í dag spyrja menn sig: hvernig var þetta hægt? Hvernig gat þýskur almenningur látið það viðgangast að fólki væri misþyrmt, það rænt eigum sínum og að lokum handtekið fyrir engar sakir fyrir augunum á nágrönnum sínum og vinum og að lokum drepið? Hvernig stóð á því að grimmdin gat orðið svona allsráðandi? Sex milljónir gyðinga voru drepnir í útrýmingarbúðum og auk þeirra fatlaðir, andlega veikir, samkynhneigðir, rómafólk og fólk með aðrar stjórnmálaskoðanir en nasistar. Þar bættust við varlega áætlað aðrar sex milljónir og sumir telja að sú tala sé mun hærri. Munurinn var að ekki var haldið jafn nákvæmt bókhald yfir þessa andstæðinga þriðja ríkisins og þess vegna ekki hægt að áætla með jafn vel rökstuddum hætti þá tölu.

Það sem kemur mest á óvart í þessari bók er hvernig Laurence rekur mótspyrnu þolenda ofbeldisverkanna. Sú mýta hefur verið ráðandi að gyðingar og aðrir hafi að mestu látið yfirgang nasistanna yfir sig ganga og flotið sofandi að feigðarósi en svo er ekki. Hópar gyðinga skipulögðu sig, tóku upp vopn og reyndu að verjast. Hann sýnir einnig fram á að grimmdarverkin fóru alls ekki hljótt. Þau voru andstyggileg, blóðug, skelfileg og leyndust engum. Útrýmingarbúðirnar voru ekki aflokaðar í tómarúmi þar sem enginn varð vitni að eða vissi hvað var að gerast, þvert á móti.

En það er sama hvernig menn velta þessu fyrir sér þeir koma alltaf aftur að kjarnaspurningunni, hvernig gat þetta gerst? Hitler hataði gyðinga og leyndi því aldri. Alveg frá því hann steig fram á vettvang stjórnmálanna árið 1919 boðaði hann útrýmingu gyðinga, að það yrði að losa sig við þá. Hann var þó ekki með neina skipulagða áætlun um hvernig hann ætlaði að fara að því og vissulega var ekki svo hreinskiptinn að boðaði fjöldamorð frá upphafi en engu að síður duldist engum þær fyrirætlanir að koma gyðingum í Þýskalandi með einum eða öðrum hætti burtu. Hann lét síðar skósveina sína um að útfæra snilldarplön um hvernig það yrði gert á sem hraðvirkastan og áhrifríkastan hátt.

Laurence Rees rekur þessa hörmungarsögu á skýran og aðgengilegan hátt. Hann skrifar af mikilli samlíðan og skilningi og það gerir þessa bók einstaklega gagnlega. Vitnisburður fyrrum fanga í útrýmingabúðunum, tilvitnanir í dagbækur morðingjanna og frásagnir vitna ljær svo bókinni einstaka dýpt. En á sama tíma er nístandi sárt til þess að vita að þjóð sem hefur þolað slíkar ofsóknir og fádæma grimmd skuli af algjöru miskunnarleysi beita sér gegn annarri þjóð og myrða gamalmenni, konur og börn af sama kulda og nasistaforingjarnir sem unnu að útrýmingu gyðinga.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.