Viðeigandi og óviðeigandi – má segja allt?

Manstu eftir frændanumí síðasta fjölskylduboði sem lýsti í smáatriðum vanheilsu sinni? Hvernig hann tíundaði allt sem læknirinn sagði, sín svör og viðbrögð og tiltók nákvæmlega hvaða tæki fór hvert og hvernig líðan það var? Ef þú manst eftir þessum manni eða einhverjum líkum honum hvað fannst þér þá um sögur hans? Fannst þér kannski áhugavert að heyra hvernig magaspeglun fór fram og vildir þú heyra meira? Fannst þér kannski of langt gengið og kenndirðu meira í brjósti um fjölskyldu mannsins sem sat undir sögunum með þjáningarsvip, heldur en hann?

samtöl, samtal, tala samanÖll þekkjum við svona sögur. Einhver, einhvers staðar neyðir okkur til að hlusta á eitthvað sem við viljum alls ekki heyra. Stundum er um verulega ósmekklega hluti að ræða og allir eru sammála um að slíkt gangi ekki. Þannig eyðilagði maður nokkur matarboð fyrir öðrum með því að skemmta viðstöddum með nákvæmum lýsingum af meltingartruflunum sínum. Í hvert sinn sem nýr réttur var borinn fram hóf maðurinn upp raust sína og útskýrði í smáatriðum hvernig hráefnin í honum hefðu áhrif á viðkvæmt meltingarkerfi hans. Sumt orsakaði harðlífi og annað myndi sennilega verða til þess að hann hlypi beint á næsta salerni til að forðast alvarlegt slys. Gestirnir sátu hljóðir og þrautpíndir lengi vel meðan á frásögnum mannsins stóð þar til einn þeirra gat ekki stillt sig um að geta þess að enginn við borðið hefði borðað meira en sjúklingurinn. Við það móðgaðist hann svo illa að hann stóð upp þakkaði fyrir sig og fór. Fáir viðstaddra söknuðu hans.

En eru einhver takmörk fyrir því um hvað við ræðum? Eru einhver umræðuefni alveg bönnuð í boðum eða á öðrum samkomum? Þegar amma var ung var kynlíf alls ekki rætt, hvorki í einrúmi né manna í meðal nema þegar það var haft í flimtingum eða talað um það í hálfkveðnum vísum. Sómakær kona hefði fyrr dottið dauð niður en að trúa vinkonum sínum, systrum eða móður fyrir því að ekki væri allt sem skyldi undir hjónasænginni. Hún hefði sömuleiðis síst af öllu lýst fimlegum hvílubrögðum bónda síns ef því hefði verið að skipta. Í dag hika sumar konur ekki við að trúa vinkonum fyrir þess háttar vandamálum eða að leita sér hjálpar sé eitthvað að. Saumaklúbbur hér í bæ var við það að lognast út af því ein konan hafði fyrir sið að segja sérlega myndrænar og nákvæmar sögur af bólfimi eiginmanns síns á fundum klúbbsins. Fæstar hinna höfðu mikinn áhuga á getu mannsins og þótti þetta eingöngu pínlegt. Ein tók loks af skarið hringdi í vinkonuna og sagði henni hreint út að saumaklúbburinn teldi mörg önnur umræðuefni áhugaverðari. Konan tók erindinu ekki illa og saumklúbburinn lifir enn.

Ekki talað um stjórnmál, trú og kvenréttindi

Fyrir ekki mörgum árum var t.d. algengt að stjórnmál væru ekki rædd innan fjölskyldu. Sérstaklega átti þetta við um inngöngu Íslands í NATO og veru bandaríska hersins hér á landi og í landhelgisdeilunum var helst ekki minnst á mílur, hvað þá 200 mílur þegar Íslendingar hittu Breta á förnum vegi. Nú á dögum stendur þjóðin í svipuðum sporum gagnvart Bandaríkjamönnum því vei þeim Íslending sem nefnir forsetaembættið, Trump, tolla eða frelsi vísindamanna til rannsókna svo þeir heyri til.

Það er athyglisvert að slík viðkvæmni sé ríkjandi gagnvart hvalveiðum því í bók Larry King, How to Talk to Anyone, Anywhere, Anytime eða Hvernig er hægt að tala við hvern, sem er hvar sem er, hvenær sem er, segir hann að þarlendir spjallþættir sem ganga sífellt lengra í að viðra einkalíf almennra borgara, hafi gert það að verkum að Bandaríkjamenn tali um hvað sem er, hvar sem er ef undanskilin er upphæðin á launaseðlinum og viðhorf þeirra til fóstureyðinga. Hér á landi væru það kannski trú, stjórnmálaskoðanir og kvenréttindi sem menn helst forðast að ræða í fjölskylduboðum nema um samheldna fjölskyldu sé að ræða að viðhorf manna og gildi fari í flestum tilfellum saman.

Sumir hafa þörf fyrir að ræða við óviðkomandi fólk

Hver okkar mörk eru er misjafnt. Sumt viljum við gjarnan heyra og að vera forvitinn um náungann og hans aðstæður er mannlegt og eðlilegt. Sumir hafa beinlínis þörf fyrir að ræða við ókunnuga, finnst jafnvel betra að segja þeim frá kjörum sínum og aðstæðum en að tala við sína nánustu. Kosturinn við það er sá ókunnugi er hlutlaus, iðulega áhugalaus og fljótur að gleyma því sem honum var sagt. Við höfum líka flest gaman af svolitlu slúðri en misjafnt hvernig við berum það fram. Þeir eru til sem segja: „Ég vil ekki heyra neitt um náungann sem hann segir mér ekki sjálfur. Það sem Jóna segir um Gunnu lýsir hennar skapgerð betur en þeirri sem hún talar um. Ef náungi minn segir mér ekki sjálfur af sínum högum þá vil ég ekkert um hans hagi vita.“ Það má vel flokka það undir einelti að vera sífellt að áfellast fólk og tala niðrandi um það. Við getum öll hafnað því að taka þátt í slíku þótt við vitum að því sé ekki vel tekið. Margir átta sig ekki á að með þögninni eru þeir að taka þátt í eineltinu. Bæði illmælgi um náungann og það að bregðast ekki við illmælgi er þátttaka í ofbeldi gegn öðrum.

Í matarboði þar sem nýlegt hneyksli var til umræðu sagði einn gestanna: „Það er þrennt sem ég vil ekki vita um fólk og það er hvað það trúir á, hvað það kýs og hjá hverjum það sefur. Þetta eru málefni sem mér finnast ekki koma mér við og þoli ferlega illa að fólk sé dæmt eftir því hvar það stendur að þessu leyti. Fólk er bara fólk og sem betur fer er enginn eins. Við höfum mismunandi smekk og mismunandi skoðanir sem er eins gott því annars væri erfitt að lifa hér. Ég kannast sjálf við fordóma af þessu tagi og minnist þess að ákveðið fólk hafnaði umgengni við mig af því það hélt að ég hefði ákveðnar stjórnmálaskoðanir. Þetta er þröngsýni.“

Sú þröngsýni kemur oft í veg fyrir að við eignumst góða og gefandi vini. En það er ágætt að velta fyrir sér bæði hvað maður vilji heyra og hvað ekki en einnig skoða hvort maður er tilbúinn að gleðjast með öðrum þegar gengur vel og finna til með þeim þegar gengur illa. En ef marka má lauslega könnun Lifðu núna eru eftirfarandi umræðuefni það sem fólk vildi helst að aðrir héldu fyrir sjálfan sig. :

  1. Magakveisu og harðlífi.
  2. Ælur og ógeðslegan mat meðan verið er að borða.
  3. Nákvæmar lýsingar á aðgerðum lækna á þínum skrokki.
  4. Langlokusögur af því hver sagði hvað við hvern þegar ósvífni …maðurinn gekk loks of langt.
  5. Ítarlegar frásagnir af nefrennsli og slímuppgangi í síðustu flensu.
  6. Ættartölur raktar aftur til Egils Skalla-Grímssonar.
  7. Frægðarsögur af börnunum þínum

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.