Móðurást: Sólmánuður er þriðja bókin um Oddnýju í Bræðratungu og systkini hennar. Texti Kristínar Ómarsdóttur er sem fyrr einstaklega ljóðrænn og fallegur. Myndir og tákn eru alls ráðandi og ekkert alveg eins og það sýnist á yfirborðinu. Það er gaman að grufla og reyna að ráða í merkinguna en líka einfaldlega að lesa og njóta þess hve sérlega skemmtilega Kristín fléttar orðin saman.
Þær Oddný og Setselja halda áfram að vaxa upp og eru farnar að velta fyrir sér framtíðinni hvor á sinn hátt. Oddný er fermd en Setselja mátar sig við önnur störf en hefðbundin kvennastörf. Hún er ástríðufullur bókaormur og vildi helst ekki gera annað en að lesa. Þær systur heimsækja frænkur sínar að Króki og njóta íslensks sumars við hefðbundin sveitastörf og ekki síst í mat og drykk.
Kristín er sérlega frumleg í hugsun og stíll hennar er engu öðru líkur. Hún hikar aldrei við að leyfa ímyndunaraflinu að leika frjálsu og flétta saman myndum og orðum á ófyrirséðan hátt. Henni er einkar lagið að má út mörk raunveruleikans og skapa súrrealískan heim eða nýjar víddir í verkum sínum. Kristín er fædd í Reykjavík árið 1962 og er mjög afkastamikill höfundur. Hún hefur jöfnum höndum skrifað leikrit, ljóð og sögur og hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir verk sín, nefna má Maístjörnuna, Fjöruverðlaunin, Grímuna, Menningarverðlaun DV og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Móðurást: Draumþing. .
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







