Glæpasögur eru stórskemmtileg bókmenntagrein og fjölmargir ánetjast beinlínis lestri þeirra. Til að slíkar sögur teljist góðar þurfa þær að hverfast um áhugaverða gátu, vera spennandi og drifnar áfram að flóknum og skemmtilegum karakterum. Þau Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir hafa yfirburðaþekkingu á glæpasögum og nú taka þau höndum saman í annað sinn og skrifa eina slíka og Franski spítalinn ber þess merki að hér munda stílvopnið tveir snjallir og hæfir höfundar.
Sunna er orðinn blaðamaður á Morgunblaðinu, fékk starfið vegna þess að henni tókst á leysa gamla morðgátu með hjálp bróður síns. Þegar ritstjórinn biður hana að fara austur á land og safna efni í greinar um atvinnumál og samgöngur er hún ekkert of spennt. Efnisöflunin gengur vel og Sunna telur að þetta verði ekki annað en hvert annað leiðinlegt verkefni sem þarf að ljúka þar til hún rekst aftur á Björn bæjarritara Fáskrúðsfjarðar á hótelinu sínu og hann gefur í skyn að voðaatburður hafi gerst í gamla franska spítalanum hinum megin fjarðarins. Forvitni Sunnu er vakin og magnast enn þegar Björn sviptir sig lífi skömmu síðar. Hún er alls ekki viss um að um sjálfsvíg sé að ræða og þegar hún fer að grafa ofan í gamlar sögur af fósturheimili í nágrenninu taka leikar að æsast og augljóst að Sunna hefur einhvers staðar hitt á auman blett.
Fléttan í þessari bók er vel unnin og allt gengur upp. Ragnar og Katrín leiða lesandann áfram af miklum hagleik og hann vill komast að lausn gátunnar. Það er skemmtilegt hvernig sagan hoppar á milli tímaskeiða og söglegar staðreyndir tengdar fiskiríi franskra sjómanna hér við land eru skemmtilegt skraut á leiktjöldin.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







