Glæpasagnahöfundurinn sem leysti 500 ára gamalt sakamál

Árið 1951 kom út bókin, The Daughter of Time, eftir konu sem notaði skáldanafnið Josephine Tey. Hún hafði áður sent frá sér bækur um rannsóknarlögreglumanninn, Alan Grant, en þessi hafði algjöra sérstöðu. Alan tókst ekki á við morðmál sem komið hafði upp í hendurnar á honum í starfi hans hjá Scotland Yard heldur við morðið á prinsunum ungu í Tower of London fimm hundruð árum fyrr meðan hinn illræmdi Ríkharður III ríkti í Bretlandi.

Enn greinir fræðimenn reyndar á um hvort Alan Grant hafi komist að réttri niðurstöðu í rannsókn sinni en það renndi vissulega traustari stoðum undir kenninguna þegar bein Richards III fundust undir bílastæði í Leicester á Englandi árið 2012. Á bak við nafnið Josephine Tey var hin skoska Elizabeth Mackintosh, fædd árið 1895 í Inverness í Skotlandi. Líklega hefur aldrei fyrr og kannski heldur ekki síðan verið ráðist í það metnaðarfulla verkefni að ráða 500 ára gátu í glæpasögu og ná líklega að hitta naglann lóðbeint á höfuðið.

Kona sem tók engu sem gefnu

Elizabeth var ein af þeim sem aldrei tók neinu sem gefnu. Hún vildi skoða undir yfirborðið á hverju máli og komast að eigin niðurstöðum og líklega var hún þess vegna vel til þess fallin að leggja fyrir sig sakamálasagnaskrif. Hún þótti líka snjöll á því sviði og bækur hennar um Alan Grant njóta enn mikilla vinsælda. Hún var þekktur leikritahöfundur í Skotlandi þegar hún hóf að skrifa glæpasögur og kaus að nota skáldanafnið Josephine Tey þess vegna. Hún vildi ekki að fólk færi að bera saman verk hennar fyrir leiksvið og bækurnar. Henni fannst hún þess vegna frjálsari að því hvað hún skrifaði í þeim þegar enginn vissi hver raunverulega stóð að baki nafninu.

Hún seldi vel en var orðin frekar leið á því að skrifa alltaf eftir sömu formúlunni. Hún sagði vini sínum að þessi eilífu morð á sveitasetrum, klaufalegar sveitalöggur og bráðsnjall aðkomumaður í formi rannsóknarlögreglumanns sem leysti málið væri nokkuð sem væri henni engin áskorun lengur. Þannig að hana langaði að skrifa eitthvað öðruvísi, eitthvað alveg nýtt og þá hugsaði hún til morðs sem hafði leitað á huga bresku þjóðarinnar um aldir eða alveg frá því að Shakespeare skrifaði sitt fræga leikrit um kroppinbakinn Ríkharð III. Fræðimenn höfðu fram að því tekið þeirri mynd sem skáldið dró upp af þeim konungi sem raunsannri og enginn kafað dýpra ofan í málin. Elizabeth var alls ekki viss um að Ríkharður hefði raunverulega verið jafnslæmur og Shakespeare vildi vera láta og tortryggilegast fannst henni auðvitað að Shakespeare var að skrifa undir einvaldi af Tudor-ætt, þjóðhöfðingja sem átti mikilla hagsmuna að gæta hvað það varðaði að enginn drægi rétt hans til krúnunnar í efa.

Myndin var alltaf skökk

The Daughter of Time byrjar á því að Alan Grant liggur á sjúkrahúsi að ná sér eftir áverka og honum leiðist hræðlega. Vinur hans færir honum myndir af hinum og þessum stórmennum og lítilmennum sögunnar sér til dægrastyttingar en Alan fer að skemmta sér við að reyna að lesa úr andlitsdráttum þeirra eðliseiginleika hvers um sig. Hann verður brátt gersamlega niðursokkinn í myndina af Ríkharði III. Honum finnst maðurinn á myndinni alls ekki líklegur morðingi og hreint ekki sá brenglaði og illa innrætti kroppinbakur sem sýndur er í leikriti Shakespeares. Alan finnst maðurinn á myndinni virka hugsandi, greindur og jafnvel góðlegur.

Þetta verður til þess að forvitni lögreglumannsins er vakinn. Ríkharður átti jú, að hafa drepið tvo bróðursyni sína báða á barnsaldri í Tower-höllinni í London árið 1483 til að tryggja sér völdin. Varla er hægt að hugsa sér verri glæp og til þess þarf ansi kaldlynda manneskju. Alan veit að hingað til hafa allir talið þetta óhrekjanlega staðreynd en er það svo? Voru einhvern tíma einhverjar sannanir fyrir sekt Ríkharðs? Prinsarnir hurfu jú, en hvenær sáust þeir síðast og hvernig var málið allt höndlað á sínum tíma? Gæti verið að leikrit Shakespeares byggðist á vafasömum forsendum og Ríkharður alls ekki morðingi?

Spæjarinn leggst í söguna

Og þar með er teningum kastað. Þessi snjalli og færi lögreglumaður leggst í rannsóknarvinnu á sjúkrabeði. Hann fær vini sína til að færa sér öll gögn sem þeir komast yfir og sendir þá í heimildaleit á bókasöfn hingað og þangað. Smátt og smátt fer að teiknast upp allt önnur mynd en sú viðurkennda. Alan les allt sem hann kemst yfir af samtíma heimildum og spyr sig:

Hver græddi mest á dauða prinsanna?

Hver hafði ástæðu til að drepa þá?

Hver hafði tækifæri til þess?

Hvenær voru ásakanir á hendur Ríkharði fyrst bornar fram?

Niðurstöðurnar voru vægast sagt sláandi. Ríkharður þurfti alls ekki að drepa frændur sína. Hann hafði þegar verið krýndur konungur og drengirnir úrskurðaðir óskilgetnir af þinginu. Þar með áttu þeir ekkert tilkall til krúnunnar. Hann vissi að ef eitthvað kæmi fyrir þá væri líklegt að bæði aðallinn og almenningur snerist gegn honum og ef hann dræpi þá yrði það til að gera úr þeim píslarvotta og auðvelda öðrum með tilkall til krúnunnar að afla sér fylgismanna gegn honum. Hinrik VII, sá sem sigraði Ríkharð í bardaganum á Bosworth-velli árið 1485 var aftur á móti valtur í sessi. Hann var fyrstur konunga af Tudor-ætt og Lancaster-ættin sem Ríkharður tilheyrði átti mun ríkari kröfu til kórónunnar en Tudorarnir.

Það þýddi að prinsarnir tveir höfðu enn sterkari stöðu heldur en Hinrik því þeir voru af bæði ætt Yorkara og Lancastera, þessum tveimur kynkvíslum sem árum saman höfðu barist um hásætið í Rósastríðunum. Hinrik hafði því ríka ástæðu til að vilja ryðja þeim úr vegi. Hinrik giftist Elísabetu, systur prinsanna, til að renna stoðum undir vafasaman erfðarétt sinn til bresku krúnunnar en um leið fólst í því ákveðin viðurkenning á hjónabandi Játvarðs IV og Elísabetar Woodville. Hinrik hafði líka gott tækifæri. Eftir sigur hans við Bosworth náði hann yfirráðum yfir The Tower í London en þar sáust prinsarnir síðast á lífi. Hann stjórnaði einnig rannsókninni á hvarfi þeirra og hann hafði fulla stjórn á hvað yrði ritað um þessa fyrstu daga og mánuði eftir valdatöku sína. Í því ljósi er athyglisvert að aldrei komu fram neinar fullyrðingar um að Ríkharður hefði myrt frændur sína fyrir bardagann við Bosworth eða meðan Ríkharður lifði.

Alan Grant eins og teiknarinn sér hann.

Sakaður um morð eftir dauða sinn

Sú ásökun kemur fyrst fram eftir að Ríkharður er veginn í bardaganum og þess vegna er enginn til að andmæla. Þá hefst áróður Tudoranna í því skyni að festa sig í sessi á valdastóli og réttlæta valdatökuna. Í sögu Josephine Tey áttar rannsóknarlögreglumaðurinn sig á því sem sagnfræðingarnir hefðu átt að taka með í reikninginn og nefna í umfjöllunum sínum og rannsóknum að allt sem sagt var um Ríkharð eftir andlát hans var að forskrift fólks sem átti allt sitt undir því að Ríkharður væri hataður og litið á hann sem óþokka.

Elísabet I ríkti þegar Shakespeare kemur fram og skrifar fyrir Globe-leikhúsið. Hinrik VII er afi hennar, Hinrik VIII, pabbi hennar og margar gjörðir hans meðan hann ríkti ákaflega umdeildar. Elísabet sat því ekki á neinum friðarstóli. Það voru margir sem vildu koma öðrum í hásætið en henni. Sir Thomas More skrifaði, History of King Richard III og líklega hefur megintilgangur þeirrar bókar verið að sverta Ríkharð sem mest. Saga hans hefur verið meginheimildin um líf Ríkharðs til þessa dags en More var hirðmaður Hinriks VII og varð ekki vitni að þeim atburðum sem hann skrifar um.

Sagan er alltaf sögð út frá sjónarhóli sigurvegaranna segir einhvers staðar og engin ástæða til að ætla að svo hafi ekki verið í þessu tilfelli. Í það minnsta vitum við að sagan sú er skrifuð af þjónum þess fólks sem drap Ríkharð og auðvitað þurfti það að réttlæta gerðir þeirra.

Ríkharður III kannski var það þessi mynd sem Alan Grant barst í hendur á sjúkrahúsinu.

Byltingakennd kenning

Það sem Joesephine Tey eða Elizabeth Mackintosh gerði var byltingarkennt. Hún beitti sömu aðferðum og glæpasagnahöfundar gera til að byggja upp fléttu og kryfja málin sem þeir setja upp til að kafa ofan í kjölinn á aldagamalli sögu sem menn höfðu fram að því einfaldlega tekið sem heilögum sannleika. Hún spurði sjálfa sig er þetta alveg víst og hver græddi mest á að hlutirnir væru settir svona upp. Auðvitað varð bókin, The Daughter of Time, metsölubók. Breskir lesendur bókstaflega rifu hana úr hillum verslana og hún skapaði umræður, deilur og nýja sýn á breska sögu. Sagnfræðingar voru neyddir til að skoða upp á nýtt hvað hafði gerst þarna og þeir komust að margvíslegum niðurstöðum.

Í fyrstu reyndu þeir vissulega að hrista þetta af sér. Hlógu góðlátlega og sögðu: „Hvað er þessi kona, glæpasagnahöfundur að pípa? Hér stendur ekki steinn yfir steini.“ En fræinu var sáð. Bókin varð til þess að breskur almenningur fékk mikinn áhuga á Ríkharði III og víða spruttu upp klúbbar sem höfðu það að markmiði að sanna sakleysi hans. Það varð til þess að Phillippa Langley, breskur rithöfundur, hóf að leit að gröf hans og að kanna hvar og hvernig síðustu ævidögum hans hefði verið eytt.

Rannsóknir hennar leiddu til þess að beinagrind Ríkharðs fannst í gröf undir bílastæði í Leicester á Englandi rétt við stað þar sem grámunkaklaustur stóð áður. Phillippa hafði þá gengið frá Heródesi til Pílatusar lengi í þeirri von að fá einhverja fornleifafræðinga og sagnfræðinga í lið með sér til að sanna kenningu sína. Saga hennar er sögð á skemmtilegan hátt í kvikmyndinni, The Lost King, frá árinu 2022. DNA-rannsókn á afkomendum York-ættarinnar sýndi að þetta var sannarlega konungurinn affrægði. Þar kom líka í ljós að Ríkharður sem var nærri drepinn í bardaganum um Bosworth hafði verið færður helsærður í klaustrið. Hann var mjög vopnbitinn og því augljóst að hann hafði barist hraustlega og alls ekki staðið á vellinum og boðið kóngsríki sitt fyrir hest eins Shakespeare lýsir í sínu verki. Beinagrindin sýndi einnig að Ríkharður var með hryggskekkju, ekki herðakistil. Svo nú stóð ekki steinn yfir steini í þeirri mynd sem hafði verið dregin upp.

Phillipa Langley

Eftirmálar og arfleifð

The Daughter of Time er enn í dag ávallt sett á lista yfir bestu sakamálasögur heims. Hún er líka kennd í ýmsum háskólum bæði í bókmenntakúrsum, heimspeki og sagnfræði. Ástæða þess er sú að höfundur hennar sýndi fram á jafnvel þótt eitthvað sé sagt söguleg staðreynd er alls ekki víst að svo sé og að við ættum aldrei að taka neinu sem gefnu, hvorki í vísindum né lífinu sjálfu. Þótt einhver saga sé sögð oft verður hún ekki endilega sönn við endurtekninguna. Því miður lifði Josephine Tey ekki nægilega lengi til að skynja til fulls þau viðbrögð sem bók hennar hlaut. Hún dó úr krabbameini í febrúar 1952 tæpu ári eftir að bókin kom út.

Hún varðaði hins vegar veginn fyrir söguáhugafólk um allan heim og sýndi fram á að þótt þú hafir ekki endilega doktorspróf getur þú gert verðmætar rannsóknir, formað kenningar og komist að niðurstöðum sem kollvarpa viðteknum sannleika. Stundum geta þeir sem koma ferskir að og horfa á hlutina utan frá leitt í ljós eitthvað sem sérfræðingunum var hulið.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.