Lausaletur eftir Þórdísi Helgadóttur er áhugaverð saga. Þórdís skrifar einstaklega fallegan texta og víða leynast gullkorn sem setjast í minnið, hugleiðingar sem vert er að staldra við.
Sagan hefst á því að Írena og Björn koma til vinnu sinnar á prentsafni í óræðri borg. Þetta getur tæplega verið Reykjavík því Írena horfir á broddgelti út um gluggann á íbúð sinni. Fyrir utan safnið geisar ógnvægilegur faraldur, pest er í gangi sem smátt og smátt rænir fólk minninu og hæfileikanum til að hugsa og tengja saman hugsanir sínar. Fólkið missir smátt og smátt allt veruleika skyn og deyr að lokum. Írena og Björn eru fegin að hafa hvort annað að tala við og í safninu er fyrirtakskaffivél sem sér þeim fyrir þeim eðaldrykk. Borgin fyrir utan er nánast líflaus og Írena reynir eftir fremsta megni að halda atvinnulífinu gangandi með því að kaupa þjónustu af þeim sem þó eru með opið.
Það er margt umhugsunarvert í sögunni meðal annars skrásetning og varðveisla hugmynda og hvernig þær glatast. Hvernig fólk glatar sjálfu sér um leið og það glatar minningum sínum. Þórdísi tekst sérlega vel að vekja lesandann til umhugsunar um þetta. Sögunni vindur fram í hægu tempói í fullu samræmi við það sem gengur á í þessari heimsmynd. Inn í þetta fléttast svo vangaveltur um mengun og áhrif hennar á mannslíkamann, neysluhyggju og gegndarlausa útrýmingu lífvera og samskipti manna, sjálfselsku þeirra jafnvel gagnvart þeim sem þeir elska.
Björn og Írena eru bæði lokaðar persónur. Þau eiga erfitt með miðla tilfinningum sínum, hugmyndum og mynda tengsl. Sem er kaldhæðnislegt í ljósi þess að þau vinna í prentsafni, safni sem snýst um að rekja sögu þess að manninum barst í hendur tækni til að miðla hugmyndum sínum, tilfinningum og tjá sig viðstöðulaust með orðum. Kötturinn Sharon er dásamlegur karakter og lífgar sannarlega upp á söguþráðinn í hvert sinn sem hún birtist. Þetta umhugsunarverð saga og hugmyndir hennar sitja í manni en hennar stærsti kostur er hversu vel unninn textinn er og augljóslega hefur verið nostrað við hann.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







