Sveimandi hugarflugur

Jón Thoroddsen skáld og lögfræðingur var frumkvöðull á margan hátt og þótt honum hafi ekki auðnast langt líf skildi hann eftir áhugaverða arfleifð. Hún er rifjuð upp í safnbókinni, Flugur og fleiri verk eftir Jón með eftirmála eftir Guðmund Andra Thorsson.

Jón hefur verið ákaflega fjölhæfur og hæfileikaríkur maður. Hann lærði lögfræði og fór í framhaldsnám til Kaupmannahafnar og þar varð hann fyrir sporvagni og dó 26 ára gamall. Í honum togaðist á sköpunarþörfin og hugsjónaeldur. Hann hafði gríðarlegan áhuga þjóðmálum og hafði hugsað sér að gerast stjórnmálamaður, taka þátt í að byggja upp réttlátt samfélag á Íslandi. Hann og Þórbergur Þórðarson voru miklir vinir og margir aðrir væntu mikils af Jóni í þjóðlífinu þegar hann kæmi heim að námi loknu. Tómas Guðmundsson var meðal vina hans og orti um hann einkar fallegt erfiljóð sem birt er aftast í bókinni.

Ljóðabókin Flugur kom fyrst út árið 1922 og hefði líklega gleymst flestum nema sérstökum áhugamönnum um ljóðlist og sögu hennar hér á landi ef ekki hefði verið fyrir Hrafn Jökulsson sem gaf þær út að nýju árið 2002. Þetta eru fyrstu prósaljóð íslensks skálds sem gefin voru út á bók. Guðmundur Andri bendir á í eftirmála sínum að áhrifa frá þuluformi móður Jóns, Theodóru Thoroddsen, megi glögglega sjá í sumum ljóðanna í Flugum. Hann hefur einnig bókina á formála þar sem hann lýsir því hvernig svarmur af flugum sveima í kringum hann eftir að hann lýkur við bók sem hann var að lesa og þær láta hann ekki í friði, festast í flugnapappír heilans og þaðan verður að losa þær út mismunandi heillegar og ferskar. Þetta er frumleg og skemmtileg leið til að lýsa hugmyndum sem sækja að skapandi huga og hann verður að vinna úr.

Í bókinni eru einnig tvö stutt leikrit og önnur ljóð eftir Jón. Hann hafði einnig áhuga á myndlist, saumaði út og teiknaði eins og frændi hans Muggur. Það er sérlega athyglisvert að kynnast þessum unga manni í gegnum verk hans og skynja óvenjulegt listfengi hans. Á sama tíma er sorglegt að hugsa til þess að hann hafi ekki náð að lifa og þroskast, finna sér braut og skapa meira. En engu að síður hægt að gleðjast yfir að þessi verk séu þó til og okkur til reiðu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.