Í myndlistinni var ég komin heim

Harpa Árnadóttir er ein af okkar helstu myndlistarmönnum, en það má segja að myndlistin hafi valið hana. Verk Hörpu hafa verið keypt og sýnd af söfnum víða í Evrópu. m.a. á fyrsta tvíæringnum í Gautaborg. Harpa hefur ekki einungis sinnt myndlistinni því út hafa komið nokkrar bækur eftir hana og segir Harpa að hún hafi fundið jafnvægið milli myndlistarinnar og skrifanna. Harpa ólst upp úti á landi sem  mótaði hana sig, en hún sleit barnsskónum á Bíldudal og nú um hálfri öld síðar er hún flutt þangað aftur.

Harpa er fædd á Bíldudal í Glaumbæ, húsi móðurömmu hennar og -afa. „Ég er fyrsta barn mömmu og pabba en þegar ég var tveggja ára fluttum við suður þegar pabbi fór í guðfræðideildina. Ég var mikið fyrir vestan alla bernsku, æsku og fullorðinsár og ég elska staðinn.“

Forréttindi að alast upp við náttúrufegurð og frjálsræði

„Það voru forréttindi að alast upp við þetta frjálsræði og náttúru, að vera á Bíldudal í þessu gamla hús sem var frá Pétri Thorsteinssyni, vera í fjörunni í dýrð, stútfullri af einhverju sem fólk var að reyna að brenna, fannst mér spennandi. Þarna voru skósólar, reikningsbækur sem einhver var að reyna að farga og maður náttúrlega fletti þessu öllu,“ segir hún og hlær. „Svo var mikil hörpuskelfisksveiði þarna og fjaran var full af bleikri dýrð og skeljum sem maður tók heim til ömmu að sýna veiðifang dagsins. Ég velti við steinum og setti marflær, eins og hverja aðra gullfiska, ásamt þangi í krukku með sjó í. Börn alast en upp við þessa hluti á Bíldudal þó að það sé víða hverfandi.“
Ertu mikið náttúrubarn? „Já, ég er það. Pabbi vígðist til Ólafsvíkurprestakalls og þjónaði fjórum kirkjum á Snæfellsnesi og ég var alin upp undir Jökli. Prestshúsið var úti við fjörubakkann þar sem Breiðafjörður breiddi úr sér þannig að ég horfið á skörðin fallegu sem eru hér við botni Arnarfjarðar, sömu fjöll og maður sér héðan frá Bíldudal. Mér fannst ég alltaf vera svo nálægt ömmu, Unu Thorberg Elíasdóttur, sem ég elskaði út af lífinu, við vorum mjög nánar alla tíð og ég þráði alltaf að komast vestur til hennar.“
Harpa flutti frá Ólafsvík til Reykjavíkur 15 ára og bjó þá hjá föðurömmu sinni og -afa, Magneu Þorkelsdóttur og Sigurbirni Einarssyni biskupi. „Ég fór í Kvennaskólann síðasta veturinn fyrir M.R. en við fjölskyldan höfðum búið í kjallaranum í biskupsbústaðnum áður þegar pabbi var að klára guðfræðina. Ég var þannig svolítið alin upp af þeim líka, kynntist lífi afa sem biskups og finnst það hafa verið forréttindi. Ég fékk gott atlæti og var svo heppin að eiga ömmur og afa í báðar ættir þar til ég var fertug. Foreldrar mínir létust fyrir um 20 árum, rúmlega sextug bæði, en ég hef syrgt það að börnin mín hafi ekki átt móðurafa- og ömmu sem þau kynntust vel. Það er allt annað atlæti sem börn fá hjá afa sínum og ömmum. Una amma breiddi alltaf út faðminn þegar hún tók á móti mér og sagði: „Nú ertu komin í frelsið.“

Sólin í firðinum.

Leið Hörpu lá síðan í sagnfræði og bókmenntir í H.Í. „Mig langaði að fara í myndlist en lét undan pabba og mömmu og kærasta mínum Birni Zoëga um að fara í háskólanám. Ég ákvað að taka tvö léttustu fögin sem voru þessi,“ segir hún og hlær við. „Ég var síteiknandi og ákveðin að fara í myndlist, það var ekki umflúið. Ég vann sem flugfreyja með háskólanáminu því við Bjössi vorum að kaupa íbúð  en hann var þá kominn í læknisfræði. Ég flaug í fjögur ár og gat lagt í púkkið, las á hótelherbergjum og tók próf og skrifaði ritgerðir stundum með bullandi flugþreytu en allt gekk vel. Á lokaárinu í H.Í. hóf ég nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og skrifaði B.A.-ritgerðina þegar ég var í fornáminu þar. Í myndlistinni var ég komin heim og hlakkaði til að mæta í skólann á hverjum einasta morgni. Ég hef sinnt myndlistinni síðan og ekki stoppað nema rétt til að eiga börnin,“ segir hún og hlær.
Björn og Harpa fluttu með ungan son sin, Árna Berg, til Gautaborgar þar sem hún hóf nám í Valand-listaháskólanum og hann fór í sérnám. „Námið gekk rosalega vel og ég vann til verðlauna í Unga tecknare teiknisamkeppninni, sem sænski konungurinn afhenti mér úr eigin hendi. Verðlaunin voru fyrir teikninguna Foss og þetta var árið 1995. Það var var sýning á verkunum í Nationalmuseum í Stokkhólmi og safnið keypti allar teikningarnar mínar og nú eru þær í eigu Moderna Museet þar í borg. Við vorum þarna í níu ár, fluttum aftur til Ísland og vorum hér þar til ég fór að vera með annan fótinn í Stokkhólmi vegna starfs Björns en ég hef alltaf haldið miklum tengslum við Gautaborg og listina þar.“

Ljóðrænar hugleiðingar um lífið

Málverk og teikningar Hörpu eru ljóðræn og sambandið milli málverks og bókmennta er henni hugleikið. Hún vinnur með áferð og eru myndir hennar oft óeiginlegt landslag með lögum lita sem sveipa þær hulu og dulúð. „Sennilega er það náttúran sem hefur mest áhrif á myndlist mína, það flýtur í verkin sem ég horfi á, litir í kringum mig, og ég á til að uppgötva það að ég sjálf er farin að klæðast sömu litum og málverkin mín eru í.“

Harpa hefur  verið sískrifandi frá blautu barnsbeini, skrifað ljóð og hugleiðingar og verk hennar hafa verið gefin út. „Ég hef bókmenntagrunn og ég bæði les mikið og skrifa mjög mikið ljóðrænar hugleiðingar, lýsingar á lífinu og náttúrunni en af því ég valdi myndlist, hið sjónræna, þá var ég svo ströng við mig þegar ég var ung að ég sýndi ekki það sem ég skrifaði. Svo áttaði mig á því að maður má alveg sinna hvorutveggja.
Fyrstu bókina, Morgunmæðu, gaf ég út sjálf árið 2008 rétt eftir hrun. Ég gerði eina ferskeytlu daglega um hrunið. Það var vatnslitamynd framan á bókinni og hún var í vasabrotsútgáfu. Árið 2009 var mér boðið að sýna í Hallgrímskirkju en það var minningarhátíð um Sigurbjörn afa. Sýningin var til minningar um hann. Ég var með málverk og skapaði aðra bók þar sem ég var með allt sem ég var að hugsa en bókin geymdi líka ræður. Þarna var m.a. ræða sem hann hafði skrifað þegar hann kvaddi söfnuð sinn á Breiðabólstað á Snæfellsnesi sem mér fannst svo undurfalleg. Stuttu áður en hann kvaddi bað hann mig og Rannveigu, föðursystur mína, að finna þessa ræðu. Við Magnús Þorkell Bernharðsson, frændi minn, fundum svo ræðuna og urðum bæði klökk við að lesa hana. Ég rakst líka á merkilegt atriði en afi hafði skrifað með pínulitlu letri þar sem hann biður Guð að blessa litla drenginn sem var færður til skírnar í dag og það var pabbi minn. Mér var ætlað að finna þessa ræðu og hún fór í bókina mína.

 

Vatnið.

Árið 2010 var mér boðið að vera á sveitabæ í júnímánuði og vinna þar. Ég var ein í fyrsta sinn frá því ég eignaðist börnin og var bara að skapa. Ég hafði samaviskubit gagnvart þeim og vildi nýta tímann vel. Ég fór í gönguferðir og tíndi ýmislegt, kannski kríuegg sem rauðan var farin úr eða blóm, jurtir eða hvað sem var fyrir varð. Þetta var mikil upplifun fyrir mig svo setti ég textann á A4-vatnslitablöð og málaði eða teiknaði á og fyllti heilan vegg á vinnustofunni með þeim. Davíð Þór Jónsson tónlistarmaður kom og spurði hvort hann mætti lesa þetta. „Þú ert komin með bók, þetta verður að gefa út.“ „Ha!“ sagði ég en ég átti á sýna í Ásmundarsal á listahátíð og hafði sagt við safnstjórann að ég myndi líka gefa út bók. Ég áttaði mig svo á að ég var komin með bókina.“ Bókin var gefin út ári seinna af tilefni sýningarinnar af virtri bókaútgáfu, Crymogeu, og var safn texta og vatnslitaverkanna áðurnefndu og bar heitið Júní/June.

Hefur fundið jafnvægið milli þess að að skrifa og mála

Liljurnar.

Fjórða bók Hörpu sem er ljóðabók kom út í janúar og ber heitið Skuggafall og leiðin til ljóssins. Bókin er mjög persónuleg að hennar sögn en hún skildi við eiginmann sinn og ákvað að flytja á æskuslóðirnar á Bíldudal þar sem henni leið ávallt svo vel. „Titillinn kom fyrst en ég átti nóg efni,“ segir Harpa með áherslu.
Það er mikil sköpunarþörf í Hörpu en hún svarar því til hlæjandi að hún sé bara að leika sér eins og hún gerði alltaf á Bíldudal sem barn. Ertu með eitthvað í smíðum núna? „Jú, ég er að skrifa bók sem fær titilinn Örsögur úr Arnarfirði. Ég skrifa daglega og mála þá minna en þegar ég fer af stað með málverkið þá rennur það frá mér í flæði, ég er búin að finna jafnvægið á milli þess að skrifa og mála. Það er í ættinni að skrifa en bæði afi og pabbi skrifuðu mikið og voru frábærir pennar. Þeir hvöttu mig stöðugt til að skrifa. Það síðasta sem pabbi sagði við mig á dánarbeðnum 2005 þegar ég fór með ljóð eftir mig fyrir hann: „Mikið er þetta fallegt, lofaðu mér því að halda áfram að skrifa og gefa út, Harpa mín.“ Mamma dó ári á eftir pabba þannig að þetta var mikið högg fyrir okkur börnin og barnabörnin. Nú er ég að færast nær þeim aldri sem þau voru á þegar þau dóu úr og mér finnst lífið vera rétt að byrja.“
Harpa er ekki í nokkrum vafa um að náttúran sem hún ólst upp við hafi mótað hana mest. „Það mótaði mig mjög mikið að vera alltaf í kirkjunum með pabba. Ég var mikil pabbastelpa og fékk að fara með honum þegar hann átti erindi á bæina eða fór suður fyrir Jökul. Ég fékk góða íslenskukennslu heima sem hefur nýst mér vel, bæði hjá mömmu sem kenndi mér að tala rétt og svo pabba sem bað mig iðulega að hlusta þegar hann las yfir ræðurnar og ég sat hjá honum við eldhúsborðið, hlustaði og teiknaði. Pabbi lagði mikið upp úr framburðinum og ræðurnar hans runnu eins og lækjarhjal. Trú hans var djúp en sem ungur maður átti hann sér draum um að skrifa.“

„Á Bíldudal vil ég vera“
Nú er Harpa komin heim í frelsið, eins og amma hennar sagði og náttúruna sem hún segir heilandi og orkugefandi. „Ég flutti vestur fyrir ári síðan. Hér líður mér vel og hér ég vil vera. Ég vil láta jarða mig frá Bíldudalskirkju og verða jarðsett í Bíldudalskirkjugarði. Móðurfólkið mitt er hér, það er mikil samstaða hjá fólki hér og takturinn er allt annar en í Reykjavík. Ég byrja hvern dag á kaffibolla, skrifa og horfi út á hafið og svo fer ég á vinnustofuna. Fólkið hér dettur gjarnan inn í kaffi og gefur sér tíma til að spjalla. Þegar eitthvað bjátar á er alltaf einhver kominn að aðstoða. Ég bý í gömlu timburhúsi, Blikastöðum, sem er frá 1905 og það heldur mjög vel utan um mig. Vinnuaðstaðan mín er í stórri 60 fermetra skemmu við húsið, með mikilli lofthæð og svo keypti ég mér sauna sem er á pallinum. Það getur orðið mjög heitt hér í skjóli fjallanna en ég hef stundum kallað Bíldudal „Miðjarðarhafsstað norðursins“. Fólk kemur saman fyrir utan staðinn Vegamót þegar sólin skín sem frændi minn rekur og nýtur lífsins. Hann spilar á gítar og syngur, enda sannkallaður látúnsbarki. Það er mikil stemning hér.“

Harpa hefur haldið nokkrar sýningar undanfarin ár og síðast í Neskirkju, bæði málverk og teikningar en hún var tileinkuð feðgunum Sigurbirni Einarssyni og Árna Bergi. „Ég fjallaði svolítið um áhrif þeirra á mig. Mér fannst yndislegt að fá að vinna þá sýningu. Ég verð með sýningu í Listval á Hólmaslóð í janúar. Það verður opnunarhóf fyrir bókina líka á sýningunni. Ég sýni einhver málverk en meira teikningar. Ég mun svo ég sýna í Danmörku í febrúar. Það er nóg fram undan.“

Myndir Hörpu má sjá á vef Listvals: https://listval.is/artist/harpa-arnadottir/

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.