Hinn íslenski sankti Kristófer

Við mörg af stórfljótum Evrópu stóðu ferjumenn vaktina og sáu um að koma fólki leiðar sinnar áður farið var að brúa vötnin. Þessir menn hafa yfir sér ævintýraljóma og sá þekktasti er án ef sankti Kristófer. Sagan af honum er velþekkt og einhver útgáfa af henni til í mörgum löndum og líka hér. Munurinn er sá að okkar ferjumaður var uppi á síðustu öld og nú hefur Joachim B. Schmidt skrifað sögu Jóns Ósmanns á dásamlegan hátt. Þessi bók er hrein perla.

Sankti Kristófer er verndardýrðlingur ferðalanga og barna. Eftir að hann tók kristni hafi hann helgað sig því göfuga starfi að koma ferðamönnum yfir beljandi stórfljót. Hann var hávaxinn maður og bar fólkið á bakinu. Dag nokkurn kom barn að árbakkanum og bað hann að bera sig yfir. Kristófer samþykkti það og bar barnið á háhesti á stað yfir ánna. Í fyrstu var barnið létt en með hverju skrefi sem ferjumaðurinn tók seig barnið meira í og þegar þau voru komin út í mitt fljótið var hann við að það sligast. Hann hélt þó áfram og komst við illan leik upp á bakkann hinum megin. Þá setti hann barnið niður og þá var honum sagt að hann hafi borið guðsoninn á bakinu yfir.

Jón Ósmann hafði bát og síðar ferju sér til fulltingis við að flutninga yfir Héraðsvötnin. Hann neitaði engum um far, allir voru velkomnir í kofanum hans Emanúel á Furðuströndum. Ungur var Jón afburða íþróttamaður, sterkur og liðugur en seinna á ævinni fór skrokkurinn að veikjast. Joachim dregur upp einstæða mynd af kærleiksríkum og umburðarlyndum manni, hjálpsömum með eindæmum og hörkuduglegum. Þessir kostir nægja ekki að til tryggja lífshamingju á harðindaárum á Íslandi. Jón missir þrjú börn sín, fyrri konuna og sinn besta vin á hörmulegan hátt. Það þarf styrk til að bogna en ekki brotna í slíkum ólgusjó.

Jón Ósmann er náttúrubarn, þekkir umhverfi sitt af svo næmu innsæi að það er okkur nútímamönnum óskiljanlegt. Héraðsvötnin eru válynd þarna við ósinn og lítið þarf til að illa fari ef menn eru ekki þess hraustari og heppnari og Jón þekkir þau betur en nokkur annar. Hann er líka selveiðimaður og er þar sömuleiðis í essinu sínu. Það er sjaldgæft að hann mundi byssu sína, sem fáir aðrir valda, án þess að bráð liggi í valnum.

Þótt ferjumaðurinn á Furðuströndum sé í aðalhlutverki í þessari bók er þetta einnig aldarfarslýsing. Á Íslandi ríkir sárafátækt nánast hvert sem litið er, kuldatímabil gengur yfir og margir algjörlega bjargarlausir. Fólk streymir til Sauðárkróks, ekki til að setjast þar að heldur til að komast í skip til Ameríku. Samt er þarna að byggjast upp þorp í kringum kaupmennina danska og íslenska.

Ósmann er áhrifamikil saga, frábærlega vel skrifuð og í henni er einhver tónn sem smýgur inn í sálina. Eiginlega er ekki hægt annað en að láta sér þykja vænt um þennan stóra, hlýja mann. Hann verður lifandi í huga lesandans þótt maður viti að hann sé löngu dáinn og án efa munu margir fara í pílagrímsför að styttunni af Jóni Ósmann eftir að hafa lesið þessa bók. Þar niðri við ósinn er ekki úr vegi að velta fyrir sér örlögum þeirra sem byggðu þetta land á undan okkur. Það er ekki nema ein kynslóð milli okkar og Jóns. Það er ekki langur tími en samt svo gríðarlegur munur á lífskjörum og lífsviðhorfum að halda mætti að aldir skildu að.

Steingerður Steinarsdóttir