Karl Friðriksson og Sævar Kristinsson eru forsvarsmenn Framtíðarseturs Íslands. Báðir hafa sérhæft sig að horfa til framtíðar hvor á sínu sviði en Karl er hagfræðingur og Sævar rekstrar- og stjórnendaráðgjafi. Í haust kom út bók þeirra Síungir karlmenn en þar er finna er safn hugleiðinga og hagnýtra ráða til að auka lífsgleði, virkni og vellíðan – óháð aldri en höfundar telja að þar sé að finna margvíslegar leiðir til að skapa sér lífsgæði.
Hver var kveikjan að því að þið hófuð að skrifa bókina Síungir karlmenn – Innblástur, innsæi og ráð?
„Við félagarnir höfum unnið við það í störfum okkar að greina drifkrafta í samfélaginu sem stuðla að breytingum sem fólk oft tekur ekki eftir. Þannig höfum við oft þurft að sjá hluti í öðru ljósi og ögra vanabundnum viðhorfum, bæði okkar og annarra. Þar má nefna viðhorf til aldurs, en umræða um þann málaflokk virðist oft einkennast af sleggjudómum og löngu úreltum viðhorfum. Dæmi um þetta eru spurningar eins og; viltu ekki fara minnka við þig, húsnæði, garðinn eða ertu ekki að fara að hætta að vinna. Okkur þykir viðhorf til aldurs alltof þröngt og neikvætt. Þess vegna segjum við á bókakápu bókarinnar: „Ekki verða hægeldaður í viðhorfum samtíðar.“ Með bókinni viljum við ögra vanabundnum viðmiðum, ýta við hugsun og opna dyr að nýjum viðhorfum í tengslum við að eldast. Það er auðvita forréttindi að fá að eldast, og því mikilvægt að njóta og lifa þau ár sem manni eru gefin. Í bókinni viljum við vekja athygli á þessu en jafnframt að byrja á lesandanum sjálfum, að greina möguleikana til að njóta lífsins,“ segir Sævar.

Sævar Kristinsson

Karl Friðriksson
Að eldast eitt að þroskast annað
Allir þrá sjálfsagt að finna æskubrunninn, uppsprettu eilífrar lífsgleði, hafið þið fundið hann?
„Æskubrunnurinn er eitt, að eldast og þroskast er annað. Að öllu jöfnu er hins vegar nauðsynlegt að leyfa barninu í hverjum að njóta sín. Í sjálfum sér er þetta ekki flókið. Uppspretta lífsgleði er eiginlega viðhorf. Viðhorf til matar, hreyfingar og lífshátta. Lífsgleðin byggist á samskiptum við vini og fjölskyldu og samstarfsfólki. Jákvæð hugsun er mikilvæg og eins að þiggja og gefa frá sér jákvæða strauma.
Lífsgleðin í gegnum lífið byggist einnig á að huga að fyrirbyggjandi þáttum meðan við tökum þátt í lífinu. Ef þú vilt leika þér við barnabörnin eða barnabarnabörnin þegar þú eldist þá þarftu að huga að halda líkamanum í virku ástandi á öllum stigum lífsins. Sama gildir er þú vilt spila gólf fram eftir öllu eða annað sambærilegt.
Æskan er skemmtilegt tímabil, meðal annars vegna þess að ungt fólk er forvitið. Við þurfum að temja okkur að vera forvitin allt lífið, þá er gaman,“ segir Karl.
Þið segið á kápu að þótt í titlinum sé orðið karlmenn, þá nýtist bókin öllum. Hvers vegna kusuð þið þá að vísa til karla á þennan hátt?
„Rannsóknir hafa sýnt að karlmenn virðast ekki eins duglegir að rækta félagslega hæfni og konur og því í meiri hættu að draga sig í skel sína og einangrast. Konur aftur á móti hafa verið mun duglegri að rækta vinahópinn og taka þátt í alls kyns viðburðum, sem er frábært. Því erum við að ávarpa karlmenn sérstaklega þótt ráðin í bókinni henti öllum. Með bókinni Síungir karlmenn viljum við koma með innblástur fyrir lesendur til að lifa bestu árunum – því aldur er ekki hindrun, heldur tækifæri. Þarna er því um að ræða hvatningu að fara úr viðjum vanans og brjóta upp aldursviðmið samfélagsins. Það hafa verið gefnar út fjöldi sjálfshjálparbóka fyrir konur á undanförnum árum, en það má segja að hér er loksins komin slík bók fyrir karlmenn á íslensku,“ segir Karl.
Næsta hagvaxtarbylgja borin af eldra fólki
Þið eruð báðir starfandi við framtíðarfræðin. Er þessi bók liður í að tryggja landsmönnum góða framtíð?
„Karl er starfar hjá Framtíðarsetri Íslands en ég sem ráðgjafi hjá KPMG. Við höfum hins vegar starfað mikið saman á svið framtíðarfræða og verið leiðandi í nýrri hugsun, hvað það varðar á sviði stjórnunar. Eitt að því sem því fylgir er að fylgjast með nýjum straumum sem mun hafa áhrif á framvindu mála. Það er nokkuð ljóst að aldursamsetning vestrænna samfélaga, þar á meðal á Íslandi, eru að breytast. Eldra fólk er að vera hlutfallslega stærri hópur hvers samfélags. Afleiðingarnar eru margskonar, og of margar til að fjalla um þær hér, en það er ljóst að það þarf að nýta og leyfa eldra fólki að njóta þess að taka fullan þátt í leik og starfi. Líklega verður næsta hagvaxtarbylgja byggð á aukinni þátttöku eldra fólks, þar sem því er gert kleift að takast á við áskoranir á sömu forsendum og þeim yngri, með stuðningi við tækninýjungar og breytt viðhorf. Það mun vera lykilþáttur að bjartri framtíð landsmanna,“ segir Sævar.
Í bókinni deilið þið reynslu ykkar og innsæi inn í hvernig hægt er að skapa sér farsæld ævina á enda. Þið ögrið mörgum vanabundnum viðmiðum og ýtið við fólki, hvetjið það til að opna nýjar dyr. Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að bókin nýtist lesendum?
„Það er von okkar að hver lesandi finni sig í einhverjum af þeim 45 hugrenningum og ráðum sem fjallað er um í bókinni. Þau verði hverjum og einum hvatning að lifa lífinu lifandi. Við eigum á öllum aldri að leyfa okkur að hafa framtíðarsýn og áform um að beita okkur í því sem okkur langar eða viljum njóta. Við eigum að leyfa okkur að hafa ástríðu fyrir því sem við viljum vinna að. Þetta þarf ekki að vera stórvægileg atriði, heldur atriði sem snerta okkur persónulega á einhvern hátt. Þannig fari lesendur að taka frumkvæðið að góðum hlutum. En fyrst og fremst er bókin skrifuð til að benda lesandanum á leiðir til að njóta lífsins!“ segir Karl.
Þeir félagar leggja áherslu á að bókin sé henti öllum kynjum. Bókinni er ætlað að vera innblásur fyrir lesendur til að lifa á bestu árunum – því aldur er ekki hindrun heldur tækifæri. Þarna er því um að ræða bók sem er hvatning til að fara úr viðjum vanans og brjóta upp aldursviðmið samfélagsins.







