Á Íslandi búa flestir í eigin húsnæði. Um áratuga skeið hefur stefna stjórnvalda verið sú að sem flestir kaupi sér þak yfir höfuðið og það verði hluti af lífeyriseign landsmanna og trygging fyrir áhyggjulausu ævikvöldi. Í sumum tilfellum er það vissulega svo en þess eru þónokkur dæmi að aldraðir búi í eigin húsnæði en hafi ekki tök á að halda því við eða taka þátt í nauðsynlegum viðgerðum á sameign fjölbýlishúsa.
Með stuttu millibili leituðu til Lifðu núna tveir aðilar er horfðust í augu við að þurfa selja húsnæði sitt vegna viðhaldskostnaðar. Í öðru tilfellinu var um að ræða konu í fjöleignahúsi en hinu karlmann í einbýlishúsi. Bæði voru nokkuð heilsuhraust og fullfær um að sjá um sig sjálf. Í tilfelli konunnar var um að ræða viðhald sem hafði verið trassað lengi en nú komið að skuldadögum. Á hennar íbúð, 63 fm, blokkaríbúð féll kostnaður upp á 7 milljónir króna. Upphæð sem konan átti ekki til og ekkert var til í hússjóði til að greiða niður þennan kostnað. Maðurinn á hinn bóginn stóð frammi fyrir því að þurfa að skipta um þak, lagnir á baðherbergi hússins voru farnar að gefa sig og ofnar hússins voru í misgóðu ásigkomulagi. Pípulagningamaður mat það svo að nokkrar milljónir þyrfti til að koma lögnunum í viðunandi horf en því fylgdi mikið rask sem kallaði á að baðherbergið allt yrði brotið upp og endurnýjað. Ofnana þyrfti að meta sér og líklegt að eitthvert rask til viðbótar kostaði að koma hitakerfi hússins í betra horf.

Þurftu að selja
Bæði maðurinn og konan neyddust til að selja húsnæði sitt með afföllum til að mæta viðgerðarkostnaðnum. Í tilfelli mannsins var kostnaðarmat pípulagningamannsins lagt til grundvallar en konan bjó að því að þegar hafði verið gert tilboð í verkið í fjölbýlishúsinu svo hægt var að draga hennar hlut í kostnaðnum frá verði íbúðarinnar. Hann býr í dag í þjónustuíbúð fyrir aldraða og fékk aðstoð frá börnunum sínum til að kaupa hana því andvirði hússins dugði ekki fyrir henni. Hún býr í dag í 58 fm stúdíóíbúð í kjallara og segist að mörgu leyti sátt. Íbúðin og húsið eru tiltölulega nýuppgerð og þótt plássið sé minna hefur íbúðin marga kosti. Aðgengi er út í garðinn og beint fyrir framan dyr úr stofu kjallaraíbúðarinnar stétt þar sem sitja má og njóta notalegra sumarkvölda. Skammt frá henni er einnig eitt af útivistarsvæðum borgarinnar og hún kýs að nota sér það. Hann telur á hins vegar lífsgæði sín verulega skert.
„Ég er í minni íbúð, lengra frá allri þeirri þjónustu sem ég sótti,“ segir hann. „Ég er einn af þeim sem fór í sund á hverjum degi en núna er ég ekki lengur í göngufæri við sundlaugina mína. Bókasafn hverfisins var nánast í næsta húsi við mig og þar sótti ég bæði áhugaverða viðburði, bækur að lesa og blöðin. Það var gott að koma þar á morgnana eftir sund og fletta blöðum, spjalla við starfsfólkið og fá sér kaffi. Oft voru gamlir kunningjar úr hverfinu á staðnum en stundum rakst ég á nýtt fólk sem var tilbúið að spjalla. Í dag finnst mér ég mun einangraðri og að af mér hafi verið tekið tækifærið til að fá að eldast á þeim stað sem ég þekkti best og vildi helst vera á.“

Ívar Halldórsson framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins
Viðhaldskostnaður fylgir fasteign
Þetta fólk er ekki þau einu sem búa í eigin skuldlausu húsnæði en allur gangur er á hvort viðkomandi geti mætt óvæntum kostnaði við viðhald ef slíkt kemur upp. Viðmælendur Lifðu núna vilja ekki láta nafn síns getið því báðum finnst ákveðin skömm að því að hafa ekki getað haldið heimilum sínum. Við leituðum til Húseigendafélagsins og spurðum Ívar Halldórsson framkvæmdastjóra félagsins hvort þetta væri eitthvað sem þeir könnuðust við.
„Það er ýmis kostnaður sem fylgir því að eiga og reka fasteign,“ segir Ívar. „Þannig hafa fagmenn nefnt að það sé gott að miða við að viðhaldskostnaður fasteignar geti verið um 1-2% af virði fasteignar á hverju ári og ekki endilega allir sem hafa tök á því að leggja til hliðar slíkar fjárhæðir. Þá kann viðhaldskostnaður eiganda einbýlis að vera nokkuð hærri en þeirra sem búa í fjölbýli – enda skiptist viðhaldskostnaður gjarnan á milli margra eigenda í fjölbýli á meðan eigandi einbýlis ber hann alfarið sjálfur.
Þetta kann að vera umræða sem á erindi til margra, enda ekki bara eldri borgarar sem standa gjarnan fyrir þungum viðhaldskostnaði sem erfitt getur verið að standa undir.“
Fyrirhyggja nauðsynleg
Eins og fram kemur í orðum Ívars fylgir því kostnaður að eiga fasteign. Margt bendir til að Íslendingar séu ekki nógu fyrirhyggjusamir þegar kemur að slíku. Það ætti að vera sjálfsagt að reikna áætlaðan viðhaldskostnað inn í greiðslur fólks í hússjóð og eins ættu eigendur einbýli- og raðhúsa að leggja í sjóð til að mæta nauðsynlegum endurbótum. Byggingar eiga að endast meira en mannsaldur en sumar gera það ekki vegna þess að ekki er séð nægilega vel um þær. Fyrirhyggja af þessu tagi getur sparað fólki mikinn kostnað vegna þess að með því að sinna ávallt einhverju viðhaldi á fasteigninni árlega nær fólk að koma í veg fyrir skemmdir og að þegar loks er ráðist í einhverjar framkvæmdir reynist verkið stærra og erfiðara en gert var ráð fyrir.
Sumt fólk er í þeirri stöðu að hafa lítið milli handanna og því ekki fært um að sjá um eignir sínar svo vel sé. Endurgreiðslur virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna hjálpaði mörgum í þeirri stöðu við að laga margt sem hafði beðið endurnýjunar. Hins vegar er ekki auðvelt að benda á lausnir þegar kemur að viðhaldskostnaði. Ábyrgð á honum fellur ævinlega á eiganda húsa og ekki auðvelt að sjá hvernig eða hvers vegna hið opinbera ætti að styðja hann í viðleitni sinni til að sjá vel um eign sína. Sérhæfð vinna er dýr hér á landi og það er meðal þess sem gerir það freistandi að semja um svartar greiðslur til iðnaðarmanna. Varanlegt afnám virðisaukaskatts af slíkri vinnu kynni að breyta því. Sá möguleiki er svo alltaf fyrir hendi að taka lán fyrir endurbótum með veði í fasteigninni. Ef slík lán fengjust á hagstæðum kjörum gæti það breytt stöðunni fyrir marga.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







