Hvenær á að endurnýja bílinn?

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB

„Það eru mörg dæmi um fullorðið fólk sem tekur ástfóstri við bílinn sinn  og getur ekki hugsað sér að láta hann frá sér, á meðan aðrir vilja alltaf vera á nýjum bílum,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.

Bílar að verða endingarbetri

Ætli sé ekki kominn tími á að endurnýja heimilisbílinn er spurning sem margir velta fyrir sér. Við þessari spurningu  er hins vegar ekkert algilt svar, segir Runólfur. Það er svo margt sem þarf að taka með í reikninginn. Nýir bílar eru dýrir en á móti kemur að bilanatíðni nýrra bíla er lág. „Bílar eru að verða endingarbetri  og samkvæmt þeirri tölfræði sem ég hef nýlega séð fer hún minnkandi. Nýir bílar nota líka minna eldsneyti en gamlir og þar með lækkar rekstrarkostnaðurinn. Þeir eru líka umhverfisvænni,“ segir Runólfur.

Dýrt að skipta

Hann segir líka að margir sjái hins vegar hag sinn í því að halda í gamla bílinn, þó hann sé kominn til ára sinna. Meðalendigartími á bíl er um tíu ár en það eru margir bílar í umferðinni eldri en það. Það eru bílar sem hefur verið haldið vel við og eru í góðu standi, eigandinn þekkir þessa bíla út og inn og veit hvers þeir þarfnast. Eldra fólk notar bíla oft minna en þeir sem yngri eru og þar með lækkar rekstarkostnaðurinn.  Runólfur segir að áður en fólk tekur ákvörðun um bílakaup ætti það að velta því fyrir sér hvort það borgi sig, það sé dýrt að skipta gömlum bíl út fyrir nýjan. Notar fólk bílinn það mikið að það borgi sig, það þarf líka að velta því fyrir sér hvort að viðhaldskostnaðurinn sé það mikill að það sé hreinlega kominn tími á endurnýjun.

Lágmark hálf milljón

Runólfur segir að það kosti að lágmarki hálfa milljón að eiga og reka bíl á ári. Inni í þeirri tölu eru eldsneytiskostnaður og tryggingar en ekki viðhald og afskriftir. Margir sem komnir eru á efri ár velta fyrir sér hvort það borgi sig að eiga og reka bíl eða hvort þeir geti notað leigubíla og akstursþjónustu sem sveitarfélögin bjóða upp á.  Það eru margir sem vilja nota peningana í annað en að eiga bíl.

 

Ritstjórn ágúst 6, 2015 14:25