Langt var róið og þungur sjór

Ein af hinum fjölmörgu bókum sem var að koma út fyrir þessi jólin fjallar um tvö íslensk þorskveiðiskip og 24 hákarlaskip á 17., 18. og 19. öld, sem flest voru smíðuð og gerð út í Fljótum í Skagafirði, en sviðið nær þó að hluta einnig að austanverðum Eyjafirði, og vestar, að Skagaströnd. Hún nefnist Langt var róið og þungur sjór. Og undirtitillinn er: Líkön Njarðar S. Jóhannssonar af norðlenskum fiski- og hákarlaskipum og frásagnir af afdrifum þeirra. Höfundur er Sigurður Ægisson.

Enginn núlifandi Íslendingur þekkir betur til báta- og skipasögu Norðlendinga fyrr á öldum en umræddur hagleiksmaður, Njörður, enda hefur hann um árabil leitað heimilda og grandskoðað það sem fundist hefur. Hann hefur á síðustu árum fengist við það í frístundum að smíða líkön gamalla, sögufrægra fiski- og hákarlaskipa á téðu landsvæði og skrá þannig ævisögu þeirra á nýjan og athyglisverðan hátt, í hlutföllunum 1 á móti 12. Og handverkið er ekkert venjulegt, heldur allt unnið ofan í minnstu smáatriði. Þetta er forsaga og grundvöllur bókarinnar.

Skipin, sem um er fjallað, eru Álka, Bæringur, Blíðhagi, Bliki (1), Bliki (2), Farsæll (1), Farsæll (2), Fljóta-Víkingur, Gestur, Haffari, Hákarl/Haffrúin, Háski, Hermóður, Hraunaskipið, Hreggviður, Hyltingur, Jóhanna, Lati-Brúnn, Látra-Felix, Marianna, Óskin, Skagaströnd, Svarfdælingur, Uggi, Víkingur og Vonin.

Njörður, sem er fæddur á Siglufirði 4. apríl 1945, hefur búið þar alla tíð og á ættir að rekja til mikilla skipasmiða og hákarlasjómanna í Fljótum. Einn þeirra, langafi hans í móðurætt, Kristján Jónsson í Lambanesi, var t.d. á Fljóta-Víkingi í um áratug, þar sem róið var allt norður fyrir Kolbeinsey.

Dalrún Kaldakvísl, sem ritar einn kaflann, Hákarlamennsku, er doktor í sagnfræði og hefur kynnst líkönum Njarðar og á ekki orð til að lýsa hrifningu sinni á þeim. Hún segir orðrétt í skrifi sínu:

„Ég hélt til fundar við téðan hákarlaskipslíkanasmið, Njörð Sæberg, einn allhvassan vetrardag fyrir norðan. Við mæltum okkur mót í Siglufjarðarkirkju, þar sem málverk af sjómönnum í sjávarháska hangir fyrir ofan altarið. Ég var með viðtalsupptökubúnað í farteskinu en Njörður var með fagursmíðuð hákarlaskipslíkön sín; smágerð segl skipslíkananna þöndust í norðanvindinum er hann ferjaði þau úr bílnum inn í kirkjuna. Ég gangsetti upptökubúnaðinn, hljóðupptökutæki og kvikmyndavél, svo ég mætti fanga raust Njarðar og ásýnd hákarlaskipslíkananna. Fyrst í stað var þögn er Njörður raðaði líkönunum á borðið, líkt og hann væri að leggja á söguborð. Síðan lygndi Njörður aftur augunum og hóf frásögn sína, augu sem hann opnaði eingöngu í frásögn sinni þegar hann fór höndum um skipslíkönin.

Séð fram í vorskipið Svarfdæling. Það var smíðað í Böggvisstaðafjöru árið 1831.

Ég hafði lesið fjölda lýsinga hákarlaformanna á hákarlaskipum sem þeir stýrðu og treystu á; lýsingar sem vitnuðu um djúp tilfinningatengsl formanna við skip sín. Í viðtalinu mátti greina að hákarlaskipslíkanasmiðurinn Njörður, líkt og gömlu hákarlamennirnir, bjó að djúpstæðum tengslum við hákarlaskipin. Hann reifaði af virðingu og hlýhug löngu liðna daga hákarlaskipanna er þau klufu öldurnar með fullfermi af hákarlslifur, fögur smíði sem minnti á skúlptúra á sjávarfletinum. Síðan greindi hann bljúgur frá skapadómi hákarlaskipanna, sem sum hver grotnuðu í flæðarmálinu á meðan önnur hurfu í undirdjúpin. „Loksins birtast hin sögulegu hákarlaskip ljóslifandi fyrir augum mér,“ sagði ég upprifin við Njörð er hann handlék fínsmíðaðan skipskjöl með grófum höndum sínum. Njörður notaði hákarlaskipslíkönin sem sviðsmynd er hann rifjaði upp feikimargar undraverðar fortíðarsagnir af hákarlaveiðum, hákarlaskipsmíðum og hákarlaskipshrakningum. Þær munnlegu sagnir Njarðar hverfðust um fyrri alda nærsveitunga hans og forfeður sem stunduðu hákarlaveiðar: „Langafi minn sem fæddur var árið 1854 sagði mér margar sögur af því þegar hann var í hákarlalegum,“ sagði Njörður er hann rifjaði upp orð langafa síns sem hann heyrði á sem lítill drengur: „Ég settist á rúmstokkinn hjá honum og hann klappaði mér og sagði mér ýmsar sögur af hákarlaveiðum Fljótamanna.“ Söguleg stund, hugsaði ég, sagnfræðingurinn, er ég heyrði á sögumanninn Njörð Sæberg sem býr að hafdjúpu minni og goðkynjaðri listhneigð. Söguleg stund, kæri lesandi, sem þú munt upplifa með lestri þínum á þessari einstöku bók um listalíkön Njarðar.“

Í bókinni er að auki að finna nokkur kort, þar á meðal af helstu bæjum í Fljótum og Sléttuhlíð sem þessari útgerðarsögu tengjast og hákarlamiðinum sem þessir garpar sóttu á. Sum þeirra er einungis að finna í gömlum textalýsingum, en bókarhöfundur fékk aðstoð Landhelgisgæslunnar til að staðsetja þau, eftir því sem hægt var, og var í sambandi við Hafrannsóknastofnun vegna hins sama.

Bókin er um 270 blaðsíður að stærð og kemur fyrir sjónir almennings á áttræðisafmælisári Njarðar.