Gleði, sorgir og mannleg örlög 

Ástin getur reynst sumu fólki skeinuhætt og á síðustu öld höfðu konur ekki sömu valkosti og í dag. Hugarfar fólks og viðhorf til skyldunnar, tilfinninga sinna og þess sem mátti og mátti ekki var sömuleiðis allt annað en nú. Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður og rithöfundur bregður upp mögnuðum myndum af örlögum skyldfólks síns, ástarsögum, draumum sem rætast og öðrum sem aldrei fá fætur í bók sinni Dóu þá ekki blómin? Þetta er skáldævisaga þar sem líf ungrar stúlku sem elst að hluta til upp hjá foreldrum sínum, að hluta í sveit og að hluta hjá stórfjölskyldunni er sýnt í samhengi við hina fullorðnu og sýnt hvernig gleði, sorgir, áföll og mannleg örlög lita persónurnar.

Bókina byggir þú á æskuminningum þínum og sögu bæði fjölskyldu þinnar og fólks sem þú varst hjá í sveit í æsku. Þegar þannig er leikur fólki oft forvitni á að vita að hve miklu leyti er vikið frá staðreyndum. Reyndir þú að segja sögur þessa fólks á raunsannan hátt eða tókstu þér ríflegt skáldaleyfi?

„Sumar sögurnar í þessari bók eru nokkurn veginn rétt eftir hafðar, eins og ég man þær. En mjög margt er ýmist lagað til eða alveg skáldað. Þetta er jú sjálfstæð saga sem lýtur valdi söguþráðar og ákveðinnar uppbyggingar, persónurnar lúta sömu lögmálum.“

Það er ekki hægt annað en að segja að margar persónanna sem kom við sögu í Dóu þá ekki blómin? hafi mátt þola margt. Sumir þrá að læra en geta það ekki, aðrir elska og missa og enn aðrir elska og fá ekki ást sína endurgoldna. Æðruleysi þessa fólks en aðdáunarvert því lífsgleði og lífsþorsti slokknar ekki. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að koma þessum minningum á blað?

„Ég skrifaði þessa bók  meðal annars til þess að varðveita ýmsar sögur sem mér höfðu verið sagðar. Það var upphaflega áætlunin,“ segir Guðrún. „Afskaplega margar fjölskyldusögur ganga á milli fólks í svokallaðri munnlegri geymd en gleymast svo. Ömmur mína, einkum föðuramma voru duglegar að segja mér sögur frá lífi sínu og fjölskyldunnar. Fljótlega sá ég þó að ef þessar sögur ættu að lifa og koma fyrir almenningssjónir þá yrði ég að breyta nöfnum. Sem fyrr sagði þá varð ég líka að gerast svo djörf að fara að laga sögurnar til þannig að þótt þetta sé byggt á minningum sjálfrar mín og sögum sem mér hafa verið sagðar þá eru þær fjarri því sannferðugar eins og það sem byggt er á t.d. skriflegum heimildum.“

Tíðarandinn annar en sumt ekki breytt

Þú lýsir einstaklega vel daglegu lífi á sveitaheimili og sömuleiðis borgarlegu heimili í borg á þessum tíma. Vafalaust kannast margir lesendur Lifðu núna við þessar lýsingar en ekki víst að yngri kynslóðir skynji á sama hátt hve mjög fólk þurfti að hafa fyrir lífinu. Var það eitthvað sem þú lagðir upp með að gera eða kom það af sjálfu sér þegar þú fórst að skrifa?

„Ég gerði þetta á minn hátt – mig langaði að skrifa um þetta efni. Ég er yfirleitt fremur fljót að skrifa en í svona sögu verður maður að velja og hafna, bæta inn í og laga. Ég fékk er fram liðu stundir líka góðar ábendingar frá Ingibjörgu Iðu Auðunardóttur sem ritstýrði verkinu og frá Arnóri Hjartarsyni hjá Storytel sem einnig las söguna yfir.“

Margt er vissulega breytt frá því aðalsöguhetjan var að alast upp. En er eitthvað sem þér finnst enn vera lýsandi fyrir samskipti manna í millum?

„Það sem ekki er breytt er einkum umhyggja fyrir börnum, hlýja, kærleikur og metnaður. Tæknin hefur vissulega komið til skjalanna og breytt mörgu en mér sýnist þetta sem ég nefndi lifa góðu líf í samskiptum nútímans.“

Í bókinni er stúlku fylgt frá unga aldri. Það er kannski sláandi hversu oft menn virðast alls ekki skilja áhrif hegðunar hinna fullorðnu á börn, til góðs eða ills. Var það eitthvað sem þú vildir koma á
framfæri?

„Allir lenda í áföllum og þau eru það sem þroska fólk og gefa fyllri sýn á líf og veruleika. Enginn er fullkominn og alls ekki foreldrar. En ef maður finnur í hjarta sér hlýju þegar foreldra er minnist eða annarra þeirra sem komu að uppeldi þá hefur vel til tekist,“ segir Guðrún.

Skrifuð frá hjartanu

Þú hefur lengi unnið við margs konar textasmíð, verið blaðamaður, pistlahöfundur, skrifað viðtalsbækur og  skáldsögur. Var öðruvísi að skrifa þessa bók en allt annað sem þú hefur sent frá þér?

„Öll skrif byggja á hugmyndum og viðhorfum, líka þau sem eiga að vera hlutlaus. Að rifja upp gamlar sögur og minningar er þessu marki brennt. En ég var vissulega lengur að skrifa þessa bók en ýmsar aðrar. Fyrsta skáldsaga mín; Nellikkur og dimmar nætur á samleið með þessari bók fremur en annað það sem ég hef skrifað. Ég táraðist stundum við að skrifa þessar tvær bækur en hló líka oft. Það segir sitt, þessi skrif koma sem sagt frá hjartanu.“

Dóu þá ekki blómin? er áhrifamikil saga og eitt af því sem situr eftir að lestri loknum er þrautseigja fólksins sem sagt er frá. Viðhorf nútímafólks til mótlætis eru allt önnur en þarna voru ríkjandi og þótt oft hefði mátt tala meira um áföllin, vinna úr þeim, er einnig aðdáunarvert að sjá hvernig margar sögupersónanna takast á við erfiðleikana og láta þá hvorki beygja sig né brjóta. Það er eins og vitneskjan um að lífið er alls konar, oft harðneskjulegt en á stundum lögð líkn með þraut hjálpi manneskjunum að halda áfram, halda í gleðina, vonina og brýna viljann. Það er umhugsunarvert og alltaf gefandi að kynnast örlögum annarra og taka þátt í þeim gegnum skáldskap.