Óþolandi og indælir viðskiptavinir fornbókabúða

Margir Íslendingar kannast vel við hinn geðþekka skoska fornbókasala Shaun Bythell. Þótt hann lýsi sjálfum sér sem fremur sérvitrum og hálfgerðum fýlupoka trúir enginn lesenda hans  því að sú lýsing sé raunsönn. Í Sjö manngerðir sem finna má í bókbúðum er að finna alla hans helstu kosti sem rithöfundar, léttleiki og kímni, frábær hæfni til að teikna upp kunnulega en bæði ógeðfellda og aðlaðandi karaktera og skapa áhugaverða mynd af hversdagslífi manns sem lifir sannkölluðu hversdagslífi.

Shaun hefur valið sér það hlutskipti að selja bækur á tækniöld og það er ekki beinlínis heillavænlegur bisness, það er ekki ef fólk hefur áhuga á að græða fé. Það eru svo sem engin djúp eða stór dramatísk tilþrif í bókum hans en þær hafa yfir sér einhvern manneskjulegan og hlýjan brag og manni líður vel eftir lesturinn. Í tuttugu ár hefur hann nú rekið bókabúðina í Wigtown Bookshop. Það er alveg skýrt að hann gerir það fyrst og fremst af hugsjón og vegna þess að honum líður vel í þessu hlutverki.

Þessi nýjasta bók, Sjö manngerðir sem finna má í bókabúðum, er frábrugðin þeim fyrri að því leyti að Shaun er ekki að birta dagbókarfærslur eða fjalla um viðskiptavini hvers dags heldur tekur hann sér fyrir hendur að flokka í ættir, ættkvíslir og tegundir þær manngerðir sem heimsækja bókabúðir og þá einkum fornbókabúðir. Hann tekur sér sænska líffræðinginn Carl Linnaeus sér til fyrirmyndar og nýtir svipað flokkunarkerfi og hann fann upp fyrir plöntur til að raða upp persónugerðunum. Þetta er ótrúlega fyndið og oft vísar Shaun til fyrra bóka sinna og segir okkur að hann hafi nú talað um þessa eða hina manngerðina áður. Hann er einnig fullkomlega hreinskilinn með það að líklega sé hann að skjóta sig í fótinn með því að skilgreina og tala um þetta fólk af slíkri hreinskilni því það gæti leitt til þess að hann missti viðskiptavini.

En Shaun gleymir heldur ekki að hrósa og iðulega leggur hann líkn með þraut og bendir á kosti tiltekinnar manngerðar þótt hún sé að flestu leyti óþolandi og í lokin fáum við að heyra hvernig hinn fullkomni vinskiptavinur fornbókabúðar er og minnir okkur á með því að vitna í Ofviðrið eftir Shakespeare að án unnenda bóka ætti hann enga búð og lífið væri grárra og litlausara.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.