Rússland nítjándu aldar með augum aðalsmanns

Minnisblöð veiðimanns eftir Ivan Turgenev er samsafn smámynda eða lítilla sagna sem draga upp myndir af lífinu í rússneskri sveit í byrjun nítjándu aldar. Ivan skrifaði flestar sögurnar þegar hann dvaldi á sveitasetri móður sinnar og bókin kom fyrst út árið 1852. Í dag telst hún meðal klassískra perla rússneskra bókmennta. Það er virkilega verðmætt að fá þessa merku bók á íslensku í mjög góðri þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur.

Sagan þótti djörf á sínum tíma því hún dró um og sýndi vel hina ómanneskjulegu bændaánauð í Rússlandi. Honum tekst vel að koma til skila óréttlætinu, óvægninni og skilningsskorti valdastéttarinnar. Hér eru líka ótrúlega fallegar náttúrufarslýsingar og vel dregnar myndir af hversdagslífi fólksins.

Textinn er ótrúlega fallegur og yfir honum er einhver tærleiki. Ivan skrifar af næmni og einfaldleika en samt af mikill dýpt og lesandinn færi góða tilfinningu fyrir kjörum og aðstæðum fólksins í sveitinni. Líkt og hjá öðrum rússneskum risum þessa tíma, Tolstoj og Dostojevskí, þar á meðal koma margar persónur við sögu og hér er verið að kryfja hlutina, sálarangist, tengsl og tengslaleysi, grimmd og miskunnsemi. Margar siðferðislegar vangaveltur og spurningar vakna við lesturinn og svo margt sest að í huganum og situr þar lengi. Maður þarf að koma að því aftur og aftur til að finna viðhlítandi svar. Kannski má fyrst af öllu spyrja sig hvort verk eins og þetta eigi erindi enn í dag? Og svarið hlýtur að vera já. Við ættum nefnilega stöðugt að velta því fyrir okkur hvort við höfum gengið til góðs? Hvort iðnbyltingin, tæknivæðingin og upplýsingasamfélagið hafi raunverulega skilað okkur meiri jöfnuði, betra mannlífi og skilningi á veröldinni sem við lifum í? En að sama skapi er hið einfalda líf, sjálfsþurftarbúskapurinn, ánauðin og óréttlætið sem því fylgdi á einhvern hátt betra? Auðvitað ekki en hvar liggja mörkin, er hægt að slíta manninn alveg úr tengslum við náttúruna? Þarf hann ekki að finna fyrir tengslum sínum við hana og hvaðan hin raunverulega lífsbjörg kemur?

Þótt Ivan Sergeyevich Turgenev hafi fæðst árið 1818 og verið hluti af rússneskum aðli hefur hann djúpan mannskilning og þrátt fyrir að alast upp við allsnægtir hafði hann næga innbyggða samlíðan til að skilja hversu ómannúðlegt kerfið var sem skapaði auð hans. Kannski jók það skilning hans á slæmum kjörum annarra að móðir hans var ofbeldisfullur harðstjóri og barði jafnt börnin sín sem bændurna sem þræluðu á risastórri óðalsjörð hennar. Hún komst upp með glæpi sína því þessi rússnesku risasetur voru nánast eins og ríki í ríkinu og enginn hafði völd til að hafa auga með eða skipta sér af hvernig eigendurnir ráku sín óðöl.

Fjölskyldan flutti til Moskvu þegar Ivan var níu ára og drengirnir þrír gengu þar í skóla. Þeim hafði þegar verið kennt að tala þýsku, ensku og frönsku af barnfóstrum frá þessum tilteknu löndum. Ivan lauk menntaskóla og hóf nám í heimspeki í háskólanum og um svipað leyti birtust fyrstu ljóð hans á prenti. Hann ákvað að fara í framhaldsnám í Berlín og þar heillaðist hann af þýskum heimspekingum og rithöfundum ekki hvað síst Goethe. Eftir tveggja ára dvöl í Berlín sneri hann heim og lauk mastersgráðu í heimspeki. Hann varð ástfanginn af giftri konu, Pauline Viardot, franskri ópersöngkonu sem gift var rússneskum lögmanni. Þau áttu í mjög nánu sambandi árum saman en enginn veit hvort það var kynferðislegt og eiginmaður hennar virtist sætta sig við ástandið. Ivan sagði upp starfi sínu hjá innanríkisráðuneytinu til að geta fylgt Pauline á söngferðalögum um Evrópu og hann kom dóttur sinni, sem hann átti með saumakonu móður sinnar, í fóstur hjá henni. Ivan Turgenev giftist aldrei og hann lést 3. september, 1883 á ferð í Frakklandi úr krabbameini. Frægasta bók hans er Feður og synir.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.