Hugfanginn en saga manns sem lifir til hálfs. Allt líf Smára er lifað í skugganum. Hann veit ósköp lítið um örlög foreldrar sinna, aðeins að dauði þeirra var tengdur fíkn og að þau voru foreldrum sínum vonbrigði. Sjálfur á hann fáar minningar um þau en bróðir hans fleiri. Amma þeirra bræðra tekur þá að sér en hún vill ekkert ræða um foreldra þeirra. Smári lærir fljótt að láta sig hverfa. Hann læðist með veggjum í skólanum og kemst hjá að vekja athygli ofbeldisseggjanna en er að mestu einn.
Hann á þó tvo trygga og góða vini, Þórgunni og Gogga. En vináttan byggir meira á að þau tvö láta Smára ekki komast upp með að forðast þau en að hann leiti eftir sammskiptum við þau. Þegar líður yfir Smára kemur í ljós að hann er með hjartagalla, eitthvað sem hann er fæddur með en vissi ekki af. Þórgunnur hvetur hann til að leita sér upplýsinga um hvort þetta sé ættgengt eða afleiðing af einhverju öðru. Sú leit fær Smára til að endurskoða líf sitt og hugsa marga hluti upp á nýtt.
Hugfanginn er vel skrifuð bók um bælingu tilfinninganna og hvernig hægt er að forðast öll átök, öll náin tengsl og magnaðar upplifanir til að verja sig særindum. Skjöldurinn verður að brynju og að lokum er maðurinn inni í henni fastur þar og nær aldrei að njóta sín. Anna Ragna er góður sögumaður og fær penni og þessi saga er auðlesin og vel uppbyggð en það vantar meira afgerandi hvörf í líf persónunnar og lesandinn saknar þess að fá ekki fyllri mynd af hverju sú upprifjun sem yfirliðið hrindir af stað skilar Smára.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







