„Í fjármálum snýst allt um val og virði“

Þóra Valný Yngvadóttir fjármálaráðgjafi á að baki fjölbreyttan starfsferil í fjármálalífinu. Hún lærði á Englandi og starfaði þar um tíma og sá þá dæmi þess að fólk byrjaði of seint að búa sig undir eftirlaunaárin. Henni fannst því full ástæða til að bjóða fólki upp á námskeið um lífeyrismál þannig að hver og einn fengi í hendur verkfæri til að tryggja sér þau lífsgæði sem hann þráir á þessum bestu árum ævinnar.

Íslendingar búa við lífeyrissjóðakerfi sem á að tryggja öllum framfærslu og kannski aðeins meira en það þegar fólk hættir að vinna. Er það ekki bara tryggt og því engin ástæða til að sitja námskeið um lífeyrismál?

„Nei, það er mikil þörf fyrir námskeið um lífeyrismál, einkum vegna þess að þegar kemur að þessum tímamótum eru flestir svolítið í myrkrinu um hvernig þetta verður. Sumir lýsa því þannig að þetta sé eins og að hoppa út úr flugvél og vita ekki alveg hvort fallhlífin opnist á leiðinni niður. Allt í einu stendur fólk frammi fyrir því að hætta að fá laun og þarf að lifa á annarri innkomu. Á svona námskeiði er farið yfir allt kerfið frá a-ö og bent á hvaðan tekjur þínar geta komið. Mjög margir velta líka fyrir sér hvenær þeir eigi að byrja að taka út lífeyrissparnaðinn. Í kringum lífeyrismál eru líka á sveimi mjög margar mýtur. Fólk heldur að þeirra málum sé fyrirkomið á einhvern tiltekinn hátt en það er ekki endilega raunin.“

Íslenska kerfið gott

Hjá mörgum öðrum þjóðum ríkir ákveðin menning í kringum lífeyrismál. Ungt fólk jafnvel byrjar að leggja drög að eftirlaunaárunum þegar það ræður sig í vinnu nýútskrifað úr skóla. Fólk skipuleggur sparnað og sumir ákveða hvenær þeir ætla að hætta að vinna. Förum við of seint af stað í undirbúningi okkar fyrir þessi ár?

„Ég lærði á Englandi, var þar í viðskiptafræði og fékk löggildingu í fjármálaráðgjöf þar í landi. Ég vann við fagið úti í nokkur ár og þar er lífeyrissparnaður ekki skylda. Mín reynsla var sú að þegar fólk var komið um fertugt og jafnvel orðið fimmtugt þá fyrst fór fólk að huga að lífeyrissparnaði. Ég fékk í mínu starfi sem fjármálaráðgjafi til mín fólk á þessum aldri sem sagði: „Jæja, nú ætlum við að fara að leggja fyrir til eftirlaunaáranna. Við ætlum að hætta að vinna sextug og ætlum að hafa það svona gott og gera margt skemmtilegt. Hvað eigum við að gera?“ Mín fyrsta spurning var þá ævinlega: „Hvað hafið þið lagt mikið fyrir nú þegar?“ Oftast var svarið, ekkert, við ætlum að byrja núna. Það er rosalega erfitt að byrja fjörutíu og fimm ára eða fimmtugur að leggja fyrir og ætla að hætta að vinna sextugur. Okkar kerfi á Íslandi er því öfundsvert að þessu leyti og löndin í kringum okkur mörg litið til þess þegar þau skipuleggja sín mál.

Það sem gerir þetta kerfi bæði gott og slæmt er þessi skylda. Við erum oft standandi bit þegar við byrjum sextán ára að vinna og sjáum frádráttar færslu á launaseðlinum „lífeyrissjóður”, án þess að við höfum haft nokkuð um það að segja. „Hvað er þetta mamma?“ Spurði ég og skildi ekkert í þessu þegar ég stóð í þeim sporum. Það er líka merkilegt að við erum með sjóðakerfi, ekki gegnumstreymiskerfi. Af öllum eru dregin 4% af launum og atvinnurekandinn greiðir 11,5% á móti og sú upphæð fer inn í sjóð. Þínir peningar eru svo geymdir í þínum lífeyrissjóði þar til þú ákveður að hætta að vinna eða taka út lífeyrissjóðinn þinn. Þá er inneign þín notuð til að borga þér þinn lífeyrir og dregin af þeirri upphæð sem þú hefur safnað þér á starfsævinni. Þar af leiðandi eiga lífeyrissjóðirnir mikið fjármagn og  eru mjög sterkir,“ segir Þóra Valný.

Þóra Valný Ingvadóttir segir allt snúast um val og virði þegar kemur að fjármálum.

Aukin öldrun veldur vanda í gegnumstreymiskerfi

„Hin leiðin til að gera þetta og sú sem mörg lönd í kringum okkur hafa valið er gegnumstreymiskerfi,“ heldur hún áfram. „Þá eru peningarnir sem þú borgar núna  notaðir til að greiða einhverjum sem er að taka líffeyri í dag. Þar treysta menn á að alltaf komi nógu mikið í kassann til að hægt sé að greiða út lífeyri eftirlaunafólks. Nú þegar eldra fólki fjölgar en yngra fólki á vinnumarkaði fækkar eru þessi kerfi að lenda í miklum vandræðum. Okkar sjóðsuppbygging er miklu betri því hún tryggir að þínir peningar eru notaðir til að byggja upp þín réttindi.

Ekkert er hins vegar gallalaust í þessum heimi,“ segir Þóra Valný. „Það eru tvær hliðar á því þegar ríkið segir einfaldlega þér ber skylda til að spara og launagreiðanda þínum skylda til að leggja fram framlag á móti. Fyrir vinnuveitendur er þetta  íþyngjandi og umtalsverð viðbót við þau laun sem þegar er verið að borga. Auðvitað finnst fólki ekki jákvætt þegar verið er að ákveða eitthvað svona fyrir mann en miðað við það sem ég sá í Bretlandi get ég fullyrt að þessi íslenska leið með skyldusparnað er betri. Það að fólk þurfi ekki að hugsa sjálft fyrir sínum sparnaði og þetta er dregið sjálfkrafa af launum er góð trygging, það er verið tryggja okkur laun út ævina.“

Launin lækka

Hvað finnst þér, er fólk á Íslandi almennt vel statt þegar það hættir að vinna eða taka launin djúpa dýfu þegar það fer að taka líffeyri?

„Það er talsvert algengt að innkoma fólks lækki eitthvað. Þetta er auðvitað mjög mismunandi. Nú eru svona tveir til þrír áratugir síðan allir voru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóð. Fram að þeim tíma voru allir launþegar skyldaðir til þess en ekki þeir sem voru sjálfstætt starfandi. Þeir réðu sjálfir hvort þeir legðu fyrir eða ekki. Meðal þeirra sem nú eru að hætta að vinna er þess vegna fólk sem ekki hefur endilega greitt í lífeyrissjóð alla starfsævina. Með hverju árinu sem líður fjölgar hins vegar þeim sem hafa gert það. Ég sá nýlega mjög áhugaverða mynd um lífeyrissjóðakerfið. Þetta byrjar árið 1969 og smátt og smátt eykst skyldan og kerfið festir sig í sessi.

Þegar lífeyriskerfið er uppsett þá var hugmyndin sú að þegar fólk hættir að vinna þá þyrfti það ekki eins mikla peninga. Þetta var jú, kallað að setjast í helgan stein. En nú eru aðrir tímar,  fólk er ekki að fara setjast niður og  horfa á lífið fara framhjá, mun líklegra er að við hugsum, nú ætla ég í golf á hverjum degi eða skemmta mér á Spáni. Því í dag eru flestir mjög aktíftir þótt þeir séu orðnir sextíu og fimm eða sextíu og sjö ára. En kerfið virðist ekki hafa gert ráð fyrir að svona virkt fólk myndi hætta að vinna. Þar af leiðandi eru lögin þannig að lífeyrissjóður er skyldugur til að veita þér 56% af meðallaunum yfir starfsævina ef þú hefur verið að vinna í fjörutíu ár. Ef við gerum ráð fyrir að einstaklingur hafi verið að vinna á sama stað allan tímann, verið á meðallaunum og notið þeirra kjarabóta og launahækkana sem samið var um á tímanum lækka laun hans um sirka helming til tvo þriðju hluta þegar hann hættir að vinna. Viðkomandi fer kannski úr 900.000 þús. í 600.000 þús. Alla vega lækka flestir eitthvað. Auðvitað má færa ákveðin rök fyrir því að fólk þurfi ekki eins mikið, flestir eru búnir að borga upp húsnæðislánin sín og hjón þurfa kannski ekki tvo bíla þegar þau eru ekki að fara sitt í hvora áttina I vinnu á hverjum degi en það getur engu að síður verið töluvert stökk. Flestir lífeyrissjóðir veita meira en þessi lágmarksréttindi en það er mjög mismunandi eftir sjóðum.“

Partísjóðurinn algjörlega nauðsynlegur

Kannski er þá ekkert skrýtið að fólk sé ósátt við að þurfa að draga saman seglin og þrengja að lífsstílnum.

„Já, nú er janúar og svo kemur febrúar og þá eruð þið hjónin bæði hætt að vinna. Hvað hefur breyst? Jú, launin hafa lækkað um helming. Þarna kemur til viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið. Í stað þess að setjast í helgan stein ætlar að fólk að fara að leyfa sér ýmislegt og lifa mjög aktífu lífi og þá þarf að finna peninga fyrir því einhvers staðar. Þess vegna hef ég kallað viðbótarlífeyrissparnaðinn partísjóðinn,“ segir Þóra Valný og hlær. „Fólk þarf að skilja muninn, þetta er gjörólík aðferð skyldu lífeyrissjóðurinn annars vegar og viðbótarlífeyrissparnaðurinn hins vegar. Skyldu lífeyrissjóðurinn veitir þér réttindi, til mánaðarlegs lífeyris út ævina, örorkulífeyris og maka lífeyris. Viðbótarlífeyissparnaðurinn veitir þér sjóð, sem þú ein/n átt og er þín séreign. Hann er er það sem við höfum til að leika okkur með en hitt á að duga okkur fyrir framfærslu.

Innkoma flestra sem eru að fara á lífeyrir  í dag kemur eingöngu eða að langstærstum hluta úr lífeyrissjóði en það fólk sem er núna  áttatíu og fimm ára og hætti að vinna fyrir tuttugu árum fær sína innkomu oft að meirihluta til frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar er um að ræða allt annað kerfi. Í dag er Tryggingastofnun  ætlað að tryggja þeim lífeyri sem ekki njóta hans annars staðar frá eða fá það lítið að það dugi ekki til framfærslu. Hins vegar var það upphaflega þannig að allir áttu að fá greitt frá Tryggingastofnun en því hefur síðan verið breytt sem hefur skiljanlega valdið óánægju hjá þessum hópi.“

Að velja það sem skiptir þig máli

Nú er stundum talsverður aldursmunur á hjónum en mörg pör reyna samt að hætta á svipuðum tíma að vinna. Er þetta óhagstætt og kemur það niður á þeim sem er yngri að hætta að vinna fyrr?

„Það þarf ekki endilega að vera svo,“  segir hún. „Þetta snýst allt um val og virði, að velja það sem skiptir mann máli. Allt í fjármálum snýst um val og virði og velja það sem er manni mikils virði. Þetta er meðal þess sem ég er að fara yfir á mínum námskeiðum að fólk geri sér grein fyrir að það hafi val. Sumir kjósa að hætta að vinna sextíu og fimm ára en margir vilja vinna mun lengur því þeim finnst einfaldlega gaman í vinnunni. Mörg fyrirtæki eru líka farin að leyfa hálft starf þannig að menn geta aðlagast og farið að taka hálfan lífeyri á móti laununum. Svo eru margir sem vilja byrja að taka lífeyrinn út, þó þeir séu enn að vinna. Nú leyfa flestir lífeyrissjóðir úttekt frá 60 ára aldri, óháð því hvort þú sért hættur að vinna eða enn í vinnu. Fyrir hvert ár sem þú tekur út úr lífeyrissjóðnum þínum fyrir 67 ára aldur lækkar þín mánaðarlega fjárhæð, sem þú færð út ævina, um 6-8%.

Mikilvægt er að skoða í hvaða skattþrepi þessi úttekt lendir og hvort þú sért sátt/ur við að borga þennan skatt af lífeyrissjóðnum þínum. Ég hvet fólk til að skoða þetta vel og vandlega og sérstaklega spyrja til hvers ætlar þú að nota þessa peninga. Dæmi er um aðila sem taka lífeyrir frá sextíu ára aldri af því að þeim er mikilvægt að fá aukapeninga til að greiða niður íbúðalán fyrir sextíu og sjö ára aldur. Annað dæmi er aðili sem er hátekjumanneskja, í skuldlausu húsnæði og tekur út lífeyrir frá sextugu, borgar af honum hátekjuskatt og geymir svo í banka.“

Hvetur fólk til að gera eigin lífeyrisáætlun

Mönnum í dag verður mun lengra lífs auðið en forfeður okkar gátu búist við og heilsa manna er oft góð langt fram eftir ævi. Við erum líka fólk sem gerir kröfur til afþreyingar, tómstunda og skemmtunar. Margir hafa þess vegna miklar væntingar til eftirlaunaáranna og ætla loksins að gefa sér tíma til að sinna öllum áhugamálunum, ferðast og njóta frelsins en hafa svo kannski ekki efni á neinu af þessu. Hvað ráðleggur þú fólki til að tryggja að það geti virkilega notið eftirlaunaáranna?

„Ég hvet fólk til að hefja viðbótarlífeyrissparnað og vera viss um að velja sparnaðarleið þar sem það ræður hvenær og hvernig það tekur út sparnað sinn. Viðbótarlífeyririnn er það eina sem ekki skerðir greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þess vegna er hann svo mikilvægur partísjóður. Ég hvet fólk fimmtugt og eldra til að koma á námskeið og gera sín eigin lífeyrisáætlun, en það er mjög skynsamlegt að fara að huga að þessu um fertugt. Eitt af því sem ég hvet fólk til að gera er að skoða íbúðarlánin, breyta þeim ef hægt er. Um fimmtugt er gott að skoða hvort þú getir stytt lánstímann og einnig er mögulegt að fjárhagslegt rými hafi myndast til að borga meira inn á íbúðalánið. Börnin farin að heiman og hugsanlega hægt að klára það. Það er mjög þægilegt  að vera búinn að greiða upp íbúðalánin sextíu og fimm ára. Margir hafa einnig farið í langt nám og þá ættu menn að skoða þriðja sparnaðinn, þ.e. spara sjálfur t.d. í verðbréfasjóði vegna þess að viðkomandi nær kannski ekki þessum tíma á vinnumarkaði til að geta safnað góðum lífeyrissjóði.“

Nú hefur fólk lengi verið hvatt til að nota viðbótarlífeyrinn til að greiða niður húsnæðislánin. Miðað við þá áherslu sem þú leggur á að fólki safni slíkum sjóði erum við kannski að skjóta okkur í fótinn með því að hamast við að borga niður lánin með þeim peningum?

„Það er auðvitað góð leið til að borga niður lánin, því að þarna gaf ríkið eftir tekjuskattinn af þessum peningum, en allt hefur sína kosti og galla,“ segir hún. „Þessi kostur var gefinn eftir hrunið og þar af leiðandi varð ekki til sjóður hjá mörgum og sumir sem eru í dag sextíu og sjö ára og að fara á eftirlaun og eiga engan eða lítinn viðbótarlífeyrissparnað. Menn hófu að spara þegar þessi leið var opnuð en tóku þann kost að setja allt inn á íbúðalánið. Þetta þýðir að íbúðalánið hefur lækkað en kannski hefði komið sér betur að eiga t.d. þessar 5 milljónir í sjóði. Þegar þessi leið var afnumin nú um áramótin var skrifað í fjölmiðla eins og fólk væri að tapa stórkostlega og ríkið væri að taka af okkur einhvern æðislegan rétt en þetta er tvíeggjað sverð og fyrir þá í eldri  hópnum þegar þau voru að nýta þetta úrræði og hefur oft valdið  vonbrigðum, þegar kemur að lífeyrstöku.

Það er talað um að taka þetta upp aftur, en þetta er ekkert endilega besta leiðin fyrir íslenska ríkið til að aðstoða okkur við íbúðakaup. Rétt er hins vegar að taka fram að enn er hægt að nota viðbótarlífeyrissparnað til kaupa á fyrstu íbúð og það er frábært. Ef þú kaupir fyrstu fasteign tuttugu og fimm ára nýttir þú  þennan valkost til þrjátíu og fimm ára aldurs og þá hefur þú nægan tíma til að safna viðbótarlífeyrissparnað í partísjóð fyrir ljúfa lífið. Þetta er sniðugri leið fyrir unga fólkið en fyrir okkur sem eldri erum reyndist þetta sumum vera  hefndargjöf því þar með vantar viðbótarpeninginn til að bæta upp það tekjufall sem verður  þegar við hættum að vinna, sem er hið eiginlega hlutverk viðbótarlífeyrissparnaðar.“

Þóra Valný lumar á mörgum og margvíslegum öðrum góðum ráðum og hægt er að skrá sig á námskeið hjá henni í gegnum fyrirtækið, Val og virði. https://www.valogvirdi.is/

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.