Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, á Alþingi í morgun, hvort ekki ætti að hækka bætur afturvirkt. „Það má segja að forsætisráðherra sé formaður kjararáðs aldraðra og öryrkja því það er ríkisstjórnin og Alþingi sem ákveða kjör þessara hópa. Nú hafa alþingismenn og ráðherrar eins og fjölmargir aðrir hópar í landinu fengið úrskurðaðar kjarabætur afturvirkt frá vorinu síðasta. Því spyr ég forsætisráðherra hvort hann hyggist ekki tryggja öldruðum og öryrkjum afturvirkar launaleiðréttingar eins og við höfum fengið og eins og fjölmargir aðrir hópar hafa fengið í íslensku samfélagi. Ef þessi ákvörðun hefur ekki þegar verið tekin í ríkisstjórninni þá vil ég spyrja forsætisráðherra hvort ekki sé unnið að því og hvort hann telji ekki það vera sjálfsagt réttlætismál að þessir fjölmennu hópar njóti ekki lakari launaleiðréttingar á yfirstandandi ári en aðrir hópar í samfélaginu, þar með talinn sá hópur sem situr í þessum sal,“ sagði Helgi
Álitamál við hvaða dagsetningu á að miða
Sigmudur Davíð svaraði og sagði að það væri álitamál við hvaða dagsetningar ætti að miða. „Ég tek undir það sem ég leit á sem megininnihald fyrirspurnar hæstvirts þingmanns að það sé æskilegt að tryggja lífeyrisþegum, eldri borgurum og öryrkjum kjarabætur á við það sem okkur hefur tekist blessunarlega að tryggja öðrum hópum í þessu samfélagi á síðustu missirum þar sem kaupmáttur hefur aukist hraðar undanfarin misseri en líklega nokkurn tíma áður í sögu lýðveldisins. Það er unnið að því núna m.a. með fjárlagafrumvarpinu sem enn er til vinnslu í þinginu að innleiða hröðustu kjarabót sem þessir hópar hafa séð að minnsta kosti um áratugaskeið á einu ári, gangi spár um verðbólgu eftir. Það er svo úrvinnsluatriði hvernig þetta dreifist á tíma en þegar við lítum á heildaráhrifin á síðustu missirum og til framtíðar má gera ráð fyrir því að kjör þessara hópa muni batna jafn mikið og kjör annarra hópa í samfélaginu. Það er álitamál hvaða dagsetningar eigi að miða við og þá hvaða hækkanir til þess að ná þeim heildaráhrifum. En heildaráhrifin eiga að vera þau að þessir hópar muni, eins og aðrir hópar samfélagsins, njóta þess að hér er komin ríkisstjórn sem hefur tekist að bæta kjör allra, búa til forsendur til viðvarandi kjarabóta fyrir allan almenning í landinu,“ sagði forsætisráðherra.