Er þér mismunað á vinnumarkaði vegna aldurs?

Aldursmismunun á bandarískum vinnustöðum verður æ algengari eftir að svokölluð kynslóð „baby boomers“ færist nær eftirlaunaaldri. Bruce Horovitz, dálkahöfundur, skrifaði grein á aarp.org þar sem hann bendir á fimm atriði sem geta gefið til kynna að verið sé að mismuna fólki vegna aldurs. Greinina vann hann eftir samtöl við ýmsa sérfræðinga sem þekkja til mála. Margt af því sem Horovitz bendir á má heimfæra upp á íslenskan vinnumarkað.

  1. Eldri starfsmönnum er sagt upp eða boðnir starfslokasamningar á meðan yngri starfsmenn eru ráðnir. „Það þýðir í raun að stjórnendur fyrirtækja eru harðákveðnir eða fastir í þeirri hugsun að ráða aðeins fólk á sama aldri, fólk sem er á lægri launum og hugsar eins,“ segir Karen Southall Watts, starfsráðgjafi í Vancouver í Kananda. Hún bætir við að augljós merki um slíka háttsemi sé þegar fyrirtæki ræður 30 útgáfur af sama starfsmanninum.
  2. Þér eru fengin leiðinleg verkefni. „Það að færa þig úr venjubundnum verkefnum í verk sem engum finnst skemmtilegt að vinna eru greinilegt merki um að stjórnendur vilji losna við þig,“ segir mannauðssérfræðingurinn Suzanne Lucas. Hún ráðleggur eldra starfsfólki að reyna að komast hjá slíkum aðstæðum með því að fylgjast vel með þróuninni í sinni starfsgrein og breyta vinnulagi sínu í samræmi við það.
  3. Þú færð að heyra glósur um aldur þinn. Ef yfirmaður þinn hefur spurt þig nýlega og jafnvel vinsamlega hvenær þú ætlir á eftirlaun er alveg klárt hvað hann er að meina, segir Laurie McCann,lögmaður AARP-samtakanna í Bandaríkjunum. „Hafðu gott svar við slíkum spurningum ávallt á takteinum, segir vinnuréttarlögfræðingurinn Jane Rasmussen. Hafðu það alveg skýrt að þú sért ekkert að hugsa um að hætta og ætlir þér að vinna lengi enn, bætir hann við.
  4. Þú færð ekki kauphækkanir lengur. Þetta getur verið svolítið erfitt að eiga við, segir McCann. Hafi yngri vinnufélagi staðið sig frábærlega síðastliðið ár og fái af þeim sökum kauphækkun, en þú enga eftir miðlungsframmistöðu, þá er ekki um mismunun að ræða, segir hún. Hafir þú aftur á móti staðið þig mjög vel án þess að fá umbun gæti það verið mismunun, nema þú sért þegar komin í efsta þrep launaskala fyrirtækisins.
  5. Frammistöðumat. Það er mjög algengt að þegar fyrirtæki fær nýjan forstjóra, eða þegar þú færð nýjan og oft yngri yfirmann, að sú hugmynd kvikni að gott sé að losna við eldri og dýrari starfsmenn. Þá er reynt að telja fólki trú um að eldra fólkið séu slæmir starfsmenn. En það verður að hafa í huga að fólk verður ekki allt í einu slæmir starfsmenn. Ef að fólki sýnist að mál séu að þróast í þessa veru ætti það að hafa samband við stéttarfélög og fá ráðleggingar um hvernig það geti leitað réttar síns.
Ritstjórn desember 16, 2015 10:44