Finnst stuttpilsin hreint ekki ljót

Stutt pils voru mikið til umræðu á árunum 1967 og 1968, en í tískunni frá Carnaby Street voru þau skipun dagsins. Stutt pils með leðurstígvélum, eða jafnvel dragsíðum vestum voru ekki óalgeng og stuttbuxur komust líka í tísku, rétt eins og verið hefur undanfarin misseri. Barnaverndarnefnd lét tískusýningar unga fólksins til sín taka og þetta var ritað í Vikuna árið 1967:

Þarna eru telpur tvær í stuttpilsum og einhvers konar jökkum; skyldu stuttpilsin ekki vera óhentug í svona snjóþræsingi, þegar vindurinn kemur úr öllum áttum í senn og meira að segja að neðan og flytur með sér fíngerðan snjósalla? En mér finnst stuttpilsin hreint ekki ljót, ég er heldur hlynntur þeim, það er meira en sagt verður um pilsbuxurnar, sem jafnt piltar sem stúlkur tróna nú í. Þessar sem eru níðþröngar ofantil en belgjast út neðst, eins og skraddarinn hafi saumað þær fullur. Þó tekur fyrst í hnúkana þegar með þessu er kominn stuttur og snollaður jakki. Þessi tíska er brezk að uppruna og kennd við Carnaby Street, hún barst greiðlega hingað og meira að segja er risin upp sérverzlun fyrir Carnabystreetföt og auðvitað hefur nafnið verið hljóðþýtt svo búðin heitir Karnabær. Nafngiftin hefði einhverntíma þótt dónaleg og bera slæmum smekk vitni, því samkvæmt íslenzkri orðabók handa skólunum og almenningi, ritstjóri Árni Böðvarsson, þýðir karnaður sama og kynmök, hór og hvað myndi þá sögn dregin af nafnorðinu þýða? Annars nefna gárungarnir búðina Skarnabæ, og það er nokkur bragabót“.

 

Ritstjórn júlí 17, 2014 12:39