Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar
Um daginn birtist pistill í Monitor Mogga undir yfirskriftinni Er grátt hár í tísku? Þar segir m.a. að eitt nýjasta æðið í heimi hársins sé heldur óvenjulegt, en ungar stúlkur séu farnar að lita hárið á sér í hinum ýmsu tónum af gráu. Jafnframt segir að þetta tískufyrirbrigði stangist á við þau ,,hefðbundnu hugrenningatengsl að grátt hár sé merki um aldur og hnignandi fegurð“. Einnig að það sé spennandi þegar heimur tískunnar snýr æskudýrkun upp í hið öndverða og ,,hver veit nema fallegar broshrukkur verði næsta stóra tískufyrirbrigðið.“
Þessi umfjöllun rifjaði upp fyrir mér grein sem ég las í The Scotsman fyrir nokkrum árum þegar ég dvaldi um hríð í Edinborg. Þar var m.a. verið að fjalla um víðtæk áhrif „baby boomers“, og hve mikil áhrif þessir stóru árgangar hafa enn vegna fyrirferðar sinnar, og nú á nýjum sviðum. Sannarlega hafa þessir árgangar haft margvísleg áhrif á kerfi Vesturlanda þó ekki væri nema vegna stærðar sinnar. Fjöldi fullorðinna sem nú lifir og hrærist í þjóðfélaginu er einfaldlega enn svo stór miðað aðra árganga fólks á Vesturlöndum að hann kallar enn á athygli stjórnvalda, menntastofnana og iðnaðarins. Eldra fólk er líka betur menntað, við betri heilsu og í fjárhagslega betri stöðu en nokkru sinni fyrr. Það eru meira segja komnar fram kenningar um það að kynlífið batni með aldrinum; ástin sé ekki fyrir byrjendur.
Fram kom í greininni að til þess að ná enn frekar athygli þessa hóps séu fyrirsætur á miðjum aldri að verða eftirsóttar. Samkvæmt könnun sem birtist í Easy Living magazine og þarna var vísað í eyddu konur á aldrinum 30 til 59 ára 6,4 billjónum punda í tískuvörur árið á undan og 1,4 billjónum punda í fegrunarvörur ýmis konar. Það sé því einhvers virði að beina sjónum að þessum hópi sem sé enn svo ungur í anda. Það sé líka mun meira sannfærandi að auglýsa konu undir stýri á hraðskeiðum bíl sem greinilega hafi efni á að kaupa hann, og að fólk sem raunverulega sé með hrukkur auglýsi hrukkukremin.
Og greinarhöfundur setur fram sambæilegan þanka og sá á Monitor, að hrukkur og lífreynsla fari að teljast fegurð, og bætir við að tískukóngar segi að þessi áhersla á eldri fyrirsætur „sé komin til að vera“.