Leynilögga á Birkimel

Ásdís Skúladóttir stýrir Bókmenntahópi U3A og er einnig liðsmaður Gráa hersins.  Lifðu núna bað hana um að velja skemmtilegar bækur til að lesa um páskana og hér fyrir neðan er listinn.  Spennandi!!

„Týnd í Paradís“ eftir Mikael Torfason

Leikandi létt skrifuð bók í blaðamannastíl um ótrúlega persónulega lífsreynslu sem hlýtur að hafa verið nokkuð erfitt að horfast í augu við og skrá síðan á bók.  Hér segir Mikael sína eigin sögu en kannske öllu fremur  sögu foreldra sinna og formæðra og forfeðra og lýsingu á því samfélagi sem þau lifðu í. Einmitt þetta gefur frásögn hans meiri dýpt en ella. Bókina leggur maður ekki frá sér fyrr en henni er lokið. Það sem kjarni sögunnar hverfist um er hvernig foreldrar  fórna allt að því lífi sonar síns í þeirri blindu trú að þannig séu þau að þóknast drottni sínum og muni síðan ásamt örfáum útvöldum þ.e. Vottum Jehóva öðlast eilíft líf. Það er sannarleg þess virði að lesa þessa bók.

„Þegar siðmenningin fór til fjandans“ eftir Gunnar Þór Bjarnason

Þessi bók fjallar um stríðið mikla árin 1914 – 1918 sem einhven veginn hefur gleymst og fer lítið fyrir í umræðunni miðað við seinna stríð. Þessi bók er ein skemmtilegasta sagnfræðibók sem ég hef lesið. Kannski er það vegna þess að sagan er sögð frá sjónarhóli okkar Íslendinga og sögunni stundum vafið inn í þekkt fólk á þessum tíma sem tengir mann enn meir við atburðina en ella. Auðvitað er þetta ekki skemmtilestur en ákaflega vel skrifuð og allt að því spennandi á köflum.  Það er erfitt að leggja hana frá sér í miðjum lestri en meðan svo er hefur maður eitthvað að hlakka til þegar kvöldar.

„Blóð í snjónum“  og „Meira blóð“ eftir Jon Nesbo

Mér skilst að Jon Nesbo sé einn vinsælasti höfundur Norðurlanda  á sviði glæpasagna. Um Blóð í snjónum hefur verið sagt:“Látlaus og ljóðræn glæpasaga …. lesandinn smitast af blússandi frásagnargleði höfundarins“. Um Meira blóð er sagt: „Biksvartur húmor og ískarndi spenna“. Mér fannst hún líka betri.

„Konan í blokkinni“ eftir Jónínu Leósdóttur

Þessi bók fannst mér æsilega spennandi kannske dálítið vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem Jónína tekur sig til og skrifar glæpasögu. Ekki fannst mér nú verra að hún gerist í Vesturbænum, á  Hótel Sögu, á Birkimelum, gott ef ekki í íbúðinni minni þannig að ég gat nánast  séð mig í sporum Eddu.  Þess þá heldur þar sem hún er eftirlaunamaður eins og ég og kemst í hinar ótúlegustu aðstæður þegar hún reynir að uppfylla þörf sína fyrir vinnu og félagsskap eftir starfslok. Frásagnarmáti Jóninu er afskaplega léttur og litríkur. Þetta er svo sannarlega spennandi og hrollvekjandi bók á köflum og ég hlakka til að hitta hana Eddu vinkonu mína á Birkimel í næstu bók.

„Stríðsárin 1938-1945“ Eftir Pál Baldvin Baldvinsson

Svo er það bók bókanna í þ.e. Stríðsárin eftir Pál Baldvin Balvinsson. Ótrúlega skemmtileg bók, vel skrifuð, vönduð, skemmtileg og bólgin af fróðleik. Ætti að vera til á hverju heimili og liggja frammi á stofuborðinu eða eldhúsborðinu tilbúin til að láta fletta sér! Það er nefnilega eini gallinn við hana að hún fer ekki vel í rúmi. Að öðru leyti alveg frábær bók og einmitt taka hana með sér t.d. í sumarbústaðinn og glugga í hana í rólegheitum.

Síðan myndi ég ráðleggja ljóðaunnendum að lesa ljóðabókina „Humátt“ eftir Guðrúnu Hannesdóttur,  „Frelsi“ eftir Lindu Vilhjálmssdóttur og síðast en ekki síst mæli ég með bókinni  „Tvöfalt gler“  eftir Halldóru  K. Thoroddsen.

 

Gle

Ritstjórn mars 22, 2016 10:54