„Sannleikurinn er sá að við hófum undirbúning að þessari herferð vegna þess að við höfðum áhyggjur af stöðu eldri atvinnulausra kvenna og almennt erfiðri stöðu eldra fólks sem missir atvinnu uppúr miðjum aldri,“ segir Ólafía B Rafnsdóttir formaður VR. Þessa dagana er VR í herferð til að vekja athygli á nauðsyn fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi. Félagið hvetur atvinnurekendur til að laða til sín starfsmenn með mismunandi viðhorf, ólíka reynslu, af báðum kynjum og á öllum aldri. „það er beinlínis tilgangur VR, samkvæmt lögum félagsins, að efla og styrkja hag, ekki bara félagsmanna VR, heldur alls launafólks í landinu, „með því að vinna að framgangi þeirra mála er mega verða til aukinna réttinda, menningar og bættra kjara“. Við teljum að átak okkar um fjölbreytni falli vel undir þessa skilgreiningu.
Sannleikurinn er sá að við hófum undirbúning að þessari herferð vegna þess að við höfðum áhyggjur af stöðu eldri atvinnulausra kvenna og almennt erfiðri stöðu eldra fólks sem missir atvinnu uppúr miðjum aldri. Við hugðumst beina athygli fyrirtækja að þeim mikla mannauði sem fólginn er í reynslu og þekkingu eldri starfsmanna og hvernig það auðgar hvern vinnustað að starfsmenn séu á öllum aldri þar sem hver kynslóð miðlar til annarrar þannig að sterkari heild myndast. Við nánari skoðun varð hins vegar ljóst að það eru miklu fleiri þættir en bara mismunandi aldur sem bæði fyrirtækin og starfsmenn þeirra hagnast á ef fjölbreytileika gætir. Fjölbreytileiki meðal starfsmanna getur nefnilega falist í kynþætti, þjóðerni, kyni, kynhneigð, félags- og efnahagslegri stöðu, aldri, fötlun, trúabrögðum, stjórnmálaskoðunum eða öðrum þáttum,“segir Ólafía.
Þyngra fyrir fæti fyrir eldra fólk
-Hvers vegna er fjölbreytni á vinnustöðum góð?
„Það er vegna þess að nýlegar rannsóknir hafa meðal annars sýnt að fyrirtæki sem búa yfir fjölbreyttum hópi starfsmanna og ná að virkja hæfileika hans eru líkleg til að ná betri árangri en fyrirtæki sem skeyta ekki um þennan þátt. Fjölbreytt reynsla og hæfileikar sem koma úr ólíkum áttum eins og til dæmis tungumálakunnátta og menningarlæsi gera fyrirtækjum kleyft að ná til fleiri viðskiptavina á stærri vettvangi. Fjölbreyttur hópur starfsfólks hefur fleiri sjónarhorn og hugmyndir og á auðveldara með að greina þarfir viðskiptavina og aðlaga þjónustu fyrirtækisins að þeim. Þannig tekst slíkum hópi að veita víðtækari þjónustu en ella væri unnt og mæta þörfum viðskiptavina af enn meiri nákvæmni. Þessu fylgir svo eðlilega meiri skilvirkni og í framhaldinu er líka auðveldara að sameina starfsmenn fyrirtækisins um áætlanirnar sem unnið er eftir. Þetta er síðan líklegt til að skila sér í meiri framleiðni og auknum hagnaði. Þannig getur fjölbreytileikinn beinlínis haft heilmikið að segja um afkomu fyrirtækjanna.“
-Eldra fólki virðist ganga illa að fá vinnu, hvernig er staðan meðal VR félaga varðandi það?
„Því miður hefur það lengi loðað við að eldra fólki reynist það þyngri þraut að fá vinnu, en þeim sem yngri eru. Þótt enn sé það svipað, hefur atvinnuráðgjöfum okkar fundist sem nú uppá síðkastið sé örlítið að léttast í þessu. Þó er það ekki launungarmál að það eru frekar eldri konur sem kvarta undan því að erfiðlega gangi að fá vinnu, sem einmitt var einn hvati þess að við hófum undirbúning að herferðinni okkar.“
-Verður þú vör við fordóma atvinnurekenda gagnavart eldra fólki?
„Já atvinnuráðgjafar VR hafa fengið margar reynslusögur í þá veru og oftar en ekki er því lýst þannig að „kennitalan“ sé eldra fólki fjötur um fót. Það er von okkar að fjölbreytniherferðin okkar komi til með að hafa jákvæð áhrif svo það megi eyða eða minnka slíka fordóma.“
Meira atvinnuleysi meðal kvenna
-Þegar uppsagnir eru í fyrirtækjum eiga þá eldri starfsmenn frekar á hættu að missa vinnuna?
„Fyrst eftir efnahagshrunið þá var það tilfinning okkar já, en við höfum ekki sérstaklega séð það nú uppá síðkastið.“
-Uppsagnir – er annað kynið í meiri hættu þegar kemur að uppsögnum?
„Það er erfitt að segja til um það nákvæmlega en hjá VR er a.m.k. atvinnuleysi meðal kvenna 5,0% en 3,1% meðal karla sem gefur ákveðna vísbendingu. Þá er líka atvinnuleysi mest meðal kvenna á aldrinum 25-34 ára en minnst meðal karla undir 25 ára. Svo er atvinnuleysi minna hjá körlum í öllum aldurshópum.“
-Hvað er hægt að gera til að auka virði eldra starfsfólks?
„Virði eldra starfsfólks er þegar mjög mikið og það sem er ánægjulegt er að það er líka ófeimið við að afla sér sí- og endurmenntunar. Vandinn er nefnilega fremur fólginn í neikvæðu viðhorfi til eldra starfsfólks. VR telur sig því vera að setja sitt lóð á vogarskálarnar með fjölbreytniherferðinni, í þeim tilgangi að breyta viðhorfi til eldra starfsfólks.“
-Væri rétt að taka það upp í kjarasamninga að fólk ætti rétt á sveigjanlegum vinnutíma til dæmis eftir 50 ára aldur?
„Þetta er tvíeggjað sverð því þótt slíkt væri tvímælalaust jákvætt þá gæti það einnig orðið eldra fólki fjötur um fót ef það hefur réttindi umfram hina yngri til viðbótar ýmsum þegar áunnum rétti eins og til orlofs og uppsagnarfrests. Ef slíkt færi í kjarasamning þá yrði a.m.k. að fylgja því vel eftir með mikilli upplýsingamiðlun svo atvinnurekendur fengju af þessu jákvæða mynd,“ segir Ólafía að lokum.