Uppkomnu börnin taka við fjármálunum og netbankanum

Stjórnvöld hafa tilkynnt að þau ætli að auka tæknilæsi hjá eldra fólki með sérstöku átaki. Óskað hefur verið eftir tilboðum í slíka kennslu og markmiðið er að hjálpa eldra fólki um allt land að nýta sér þjónustu og rafræn samskipti á netinu. Með þessu er stefnt að því að draga úr félagslegri einangrun, gera fólki kleift að njóta afþreyingar og nota þjónustusíður á netinu.

„Námskeiðin skulu vera miðuð af fólki sem er eldra en 60 ára og hefur þörf á námskeiði í tæknilæsi á snjalltæki á borð við spjaldtölvur og snjallsíma.Á tímum COVID-19 heimsfaraldursins hefur  komið betur í ljós mikilvægi tölvu- og tæknilæsis fyrir alla. Samkomutakmarkanir og sóttvarnaraðgerðir hafa varpað ljósi á hversu mikilvægt það er fyrir eldra fólk að fá öfluga og sérsniða kennslu og þjálfun í tölvu- og tæknilæsi til að geta nýtt sér tæknina“.

Ekki mikið um kvartanir

Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara fagnar þessu átaki. Hann telur það skipta miklu máli fyrir eldra fólk. „yngri“ eldri borgarar þurfi margir aðstoð við að læra á öpp og uppfærslur í snjalltækjum, á meðan þarfir elstu hópanna séu aðrar.

Lifðu núna ræddi við tvo formenn Félaga eldri borgara og grennslaðist fyrir um hvort borið hefði á því að menn kvörtuðu yfir að geta ekki notað netið og þau rafrænu samskipti sem færast stöðugt í vöxt. Það þarf að hafa rafræn skilríki, komast inní netbanka og borga þar reikninga, komast inná mínar síður hjá stofnunum eins og Tryggingastofnun og skattinum og fleirum. Formennirnir voru sammála um að það bæri ekki mikið á kvörtunum, enda stólaði elsti hópurinn á börnin sín, þegar kæmi að því til dæmis að sjá um netbankann og borga reikningana. „Dóttir mín sér um þetta, eða sonur minn sér um þetta“, eru setningar sem maður heyrir oft sagði Guðrún Eyjólfsdóttir formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum og bætti við að oftast væru það dæturnar sem sæju um þessi mál.

Eitthvert barnanna tekur við fjármálunum

Einhverjir fara sjálfir í bankann, enda bjóða bankarnir uppá sérstaka þjónustu fyrir eldra fólk og enn aðrir treysta á þjónustufulltrúann sinn, segir Ingibjörg H. Sverrisdóttir formaður  FEB í Reykjavík. „Fólk leysir þessi mál í flestum tilvikum og ég verð ekki vör við miklar kvartanir. Ég veit mörg dæmi þess að fjölskyldan og börnin aðstoði sitt eldra fólk með þessa hluti. Enn aðrir fá aðstoð hjá vinum. Á sumum bæjum er staðan orðin þannig, að eitthvert uppkomnu barnanna er búið að taka alfarið við fjármálunum“.

Boðið er í átaksverkefnið fyrir hvert landssvæði fyrir sig; Suðurnes, höfuðborgarsvæðið, Vesturland, Vestfirði, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland og Suðurland en námskeiðin á að halda á sem víðast í hverjum landshluta og tryggja þarf gott aðgengi að staðnum.

 

Ritstjórn desember 14, 2021 08:20